22.02.1973
Sameinað þing: 48. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2061 í B-deild Alþingistíðinda. (1618)

85. mál, veggjald af hraðbrautum

Flm. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Ég skal ekki lengja mikið þessar umr. Það er engin ástæða til þess að fara að kappræða um einstök atriði. Ég er búinn að setja fram mínar röksemdir í þessu máli áður í tveim ræðum. En það eru þó örfá atriði, sem ég vildi minnast á.

Ég vil fyrst út af ummælum hv. 2. þm. Vestf. um meðferð þessa máls á þinginu fyrir jólin víkja aðeins að því. Hann nefndi nokkrar dagsetningar, þegar málið hefði verið á dagskrá hér í Sþ., og var hneykslaður á því, að við, sem stæðum svona nálægt hæstv. forseta Sþ., skyldum ekki hafa beitt áhrifum okkar til þess að knýja málið fram. Ég vil rifja það upp, að 28. nóv., sem var fyrsti dagurinn, sem hann nefndi, voru hér mjög mörg mál á undan þessu máli, það var mjög neðarlega á dagskránni. 30. nóv. var þetta mál síðast á dagskrá, og allur tíminn fór í að ræða öryggismál Íslands. 5. des. var fsp. fundur og alls ekki teknar fyrir þáltill., hann stóð til kl. 4. 7. des. var veggjaldinu frestað samkv. beiðni. Og 12. des. fór allur fundartíminn í að ræða afbrot unglinga utan dagskrár, og þær umr. stóðu til kl. 16.30. Þetta er ákaflega algengt, að till. séu oft á dagskrá, áður en þær eru ræddar. Og þar að auki er það nú svo, eftir að kemur fram í des. og fjárlagagerðin er í fullum gangi, að þá er enn erfiðara að koma áfram svona málum, sem allir vita, að verða miklar umr. um.

En ég vildi láta koma fram að gefnu þessu tilefni frá hv. 2. þm. Vestf. kyndugt atriði í sambandi við meðferð þessa máls þá og aftur núna. Tvívegis fyrir jólin kom hv. 1. þm. Sunnl. til mín og bað mig að hlutast til um, að málið yrði ekki tekið fyrir, vegna þess að hann gæti ekki verið viðstaddur. Mér fannst sanngjarnt að verða við því. Þetta var faðir veggjaldsins. Því hafði verið komið fyrir kattarnef, hann tók þátt í því, vafalaust í ógáti, og mér fannst þá sanngjarnt, að hann fengi að vera viðstaddur, þegar þetta afkvæmi hans yrði aftur vakið til lífsins.

En nú bar svo einkennilega við, þegar málið er hér til umr. núna, — ég leit fram einhvern tíma í miðjum umr., — þá situr hv. 1. þm. Sunnl. og drekkur kaffi með hv. 3. þm. Sunnl. Kannske var hugsanlegt, að þeir hefðu getað náð saman í annan tíma. Mér fannst rétt, að þetta kæmi hér fram, úr því að hv. 2. þm. Vestf. fór að minnast á meðferð þessa máls hér fyrr á þinginu.

Ég vil enn fremur taka það fram út af ræðu hv. 2. þm. Vestf., að mér þykir náttúrlega ákaflega leitt, að ég hef óafvitandi orðið valdur að því, að hann skyldi með hjásetu á þinginu 1972 hjálpa til þess að afnema vegaskattinn. Mér þykir þetta mjög leitt, enn leiðara, þar sem mér er alveg ljóst og sjálfsagt öllum, sem hlýddu á hans ræðu, að þessi afstaða hans hefur valdið honum töluverðu hugarangri og bakað honum mjög mikil óþægindi. Þetta harma ég einlæglega.

En eins og ég sagði, ég ætla ekki að fara að deila neitt frekar um einstök atriði þessa máls. Ég vil vekja athygli á því samt, sem ég held, að engum þm. hafi blandazt hugur um, sem hlýddi áðan á ræðu hv. 3. landsk. um hraðbrautargjaldið, sem hann kallaði, sem lagt yrði á bíla á hraðbrautarsvæðunum, að mjög erfitt yrði einnig eftir þeirri leið að fullnægja öllu réttlæti í þessu máli. Margir hafa bent á það, sem auðvitað er rétt, að með töku veggjalda, líkt og hér hefur verið gert, er ekki hægt að fullnægja öllu réttlæti. Það hefur okkur aldrei komið til hugar, að yrði hér frekar en svo víða í gjaldheimtu. En það held ég, að öllum sé ljóst og þurfi ekki að eyða um það mörgum orðum, að það yrði ekki heldur gert á þennan hátt, þó að þetta sé auðvitað sjónarmið út af fyrir sig hjá hv. 3. landsk. þm., sem ég skal ekkert segja um að öðru leyti.

Hv. 3. þm. Reykn. nefndi dæmi þess, að þeir, sem mikið færu um hraðbrautirnar, borguðu býsna há gjöld með veggjaldi. En þar er því til að svara, að það hefur ekki neinn mótmælt hví hér í þessum umr., að það sé svo og svo mikil lækkun á rekstrarkostnaði bíla við að aka vegi með varanlegu slitlagi. Erlendis, t. d. í Englandi, það kom víst fram hér síðast, var talið, að það væri um helmingurinn, sem sparaðist í rekstrarkostnaði á þessum brautum. Hvort sem það er helmingur eða einhver önnur upphæð. eru allir sammála nm, að það er mjög mikið. Og ég hef ekki heyrt neinn andmælanda þessarar till. halda því fram, að veggjald, eins og það var, væri nema hluti af þessum hagnaði. Þá er spurningin : Hverjir hagnast þá mest á hraðbrautunum? Það eru þeir, sem oftast aka um þær og borga hæstu veggjöldin. Þeir hagnast mest, af því að þeir borga aldrei með veggjaldinu nema hluta af hagnaðinum við það að fá hraðbrautina, þannig að þrátt fyrir að þetta sé auðvitað tilfinnanlegt, þá fer ekki á milli mála, að þeir hagnast mest. Og þetta sýnir í raun og veru, að það er ekki hægt að segja, að þetta sé óréttlátur skattur eða íþyngjandi. En höfuðrök okkar fyrir þessari till. er þetta tvennt: annars vegar að taka veggjalds af hraðbrautunum sé eðlileg, því að mönnum sé ekki gert að borga nema hluta af því, sem þeir beinlínis hagnist peningalega, auk þæginda, og svo hins vegar, hversu þarfir vegasjóðsins hafa verið, eru og verða gífurlega miklar.