22.02.1973
Sameinað þing: 48. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2063 í B-deild Alþingistíðinda. (1621)

101. mál, fiskeldi í sjó

Flm. (Sverrir Hermannsson) :

Herra forseti. Það er nú alllangt um liðið síðan till. þessi var lögð fram og hafa þm. af þeim ástæðum haft ærinn tíma til þess að kynna sér innihald hennar, en kann þó að vera, að þetta hafi orsakað, að þeir séu með öllu búnir að gleyma henni. En við hv. 2. þm. Vestf. og hv. 10. þm. Reykv. höfum leyft okkur að flytja á þskj. 126 svo hljóðandi till. til þál.:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að veita Fiskifélagi Íslands nauðsynlegan fjárhagslegan stuðning til þess að: 1) Hafa sérmenntaða menn ú sviði fiskeldis í þjónustu sinni. 2) Láta fara fram tilraunir með eldi fisks í sjó á þeim stöðum við landið, sem eðlilegt er talið. 3) Kynna sér sams konar starfsemi erlendis og hagnýta þá þekkingu við íslenzkar aðstæður:

Á undanförnum árum hefur áhugi á fiskrækt hvers konar farið mjög vaxandi viða um heim. Mikill árangur hefur náðst í ræktun ýmissa vatnafiska, svo sem lax og silungs, og hafa orðið athyglisverðar framfarir í þeim efnum hérlendis. Hin stóraukna laxveiði undanfarin ár á án alls efa rætur að rekja til aukinnar ræktunar. Möguleikar Íslendinga til ræktunar nytjafisks í ám og vötnum eru ákaflega miklir, og ber að leggja áherzlu á hana sem sérstaka búskapargrein. Um fiskeldi í sjó eða söltu vatni gegnir nokkuð öðru máli en um fiskrækt í vatni, að því leyti sem slíkar tilraunir eru miklu nýrri af nálinni og árangur þar af leiðandi í samræmi við það enn sem komið er. Þó hafa nokkrar miklar fiskveiðiþjóðir lagt stóraukna áherzlu á þennan þátt fiskeldis á undanförnum árum og árangur víða mjög athyglisverður. Eru Japanir þar fremstir í flokki, svo Kanadamenn, Norðmenn og Bretar. T. d. að taka er árangur Norðmanna við eldi lax í sjó glæsilegur.

Það liggur í augum uppi, að í þessu efni mega Íslendingar ekki halda að sér höndum. Ekki verður með sanni sagt, að með öllu hafi skort áhuga hérlendis í þessu efni. Á fiskiþingum hafa margsinnis verið gerðar samþykktir um nauðsyn þess að hefjast rösklega handa um framkvæmdir. Á Alþ. flutti Sigurður Bjarnason, núv. sendiherra, till. um þetta efni, og 17. apríl 1968 var svo hljóðandi till. til þál. frá honum samþ., með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að láta fara fram athugun á möguleikum vísindalegrar tilraunastarfsemi í fiskrækt og uppeldi nytjafiska í einstökum fjörðum, er hentugir kynnu að þykja til slíkrar starfsemi. Skal hafa samráð við Hafrannsóknastofnunina og Fiskifélag Íslands um þessa athugun.“

Ég geri ráð fyrir, að árangur af þessari ályktun Alþ. sé m. a. sá, að á fjárl. undanfarin ár hefur Fiskifélagi Íslands verið veittur fjárhagslegur stuðningur til þess að leggja stund á rannsóknir á sviði fiskeldis í sjó. Að vísu er sá stuðningur langtum of lítill, ef gera á sér vonir um árangur í þessu efni, sem fiskiþjóðin Íslendingar getur verið sæmd af. Þó hefur þessi fjárhagsstuðningur gert Fiskifélagi Íslands kleift að hafa í þjónustu sinni líffræðing, sem stundað hefur rannsóknir og tilraunir á þessu sviði. Þó ber að leggja áherzlu á, að þau ágætu verk, sem hann og Fiskifélagið hafa þegar unnið á þessu sviði, eru meira fyrir áhuga en til fjár. Þessir aðilar hafa nú hafið stórmerka tilraun með eldi lax í sjó, byggða á reynslu Norðmanna í því efni. Um mánaðarmótin júní-júlí í sumar er leið, var 5 þús. laxaseiðum sleppt í flotkví við Hvammsey í Hvalfirði. Þar hafa seiðin verið alin á innlendu þurrfóðri. Enn sem komið er er allt útlit fyrir, að tilraun þessi takist vel. Fiskurinn hefur dafnað vel og seiði, sem voru um 25 grömm á þyngd, þegar þeim var sleppt, eru nú 500–600 grömm að þyngd, og seiðadauði er mjög lítill. Ef allt fer að óskum, má vænta þess, að í nóv. eða svo næsta ár hafi laxinn náð 3–4 kg þunga.

Við flm. þessarar till. ásamt með hv. 1. þm. Reykn. áttum þess kost eigi alls fyrir löngu að skoða framkvæmdir við þessa fiskrækt í Hvalfirði. Ég verð að segja, að það var mjög lærdómsríkt að sjá þessa að því er virtist litlu nót og að sjá fisktorfuna í þessari flotkví, og laxarnir virtust dafna þar ágætavel. Að vísu var sá hængur á, að sjávarhiti var afar lágur og við svo lágt hitastig dregur mjög úr vaxtarhraða fisksins. En hins er að gæta, að seiðadauði var afar lítill, þannig að næstum öll þau seiði, sem sleppt hafði verið í flotkvína, voru á lífi og höfðu dafnað með þeim ágætum, sem ég hér nefndi.

Á það skal lögð áherzla, að hér er um fyrstu tilraun að ræða og alls engin ástæða til þess að láta hugfallast, þótt mistakist að einhverju eða öllu leyti, hvað þá ef hún tekst með þeim hætti, sem allt bendir til, að hún muni gera.

Í sambandi við þetta mál varðar miklu sú staðreynd, að hér á landi búum við enn við hreinan og ómengaðan sjó, og vonandi verður svo um alla framtíð, þar sem vonir standa til, að þjóðir heims taki höndum saman og snúi vörn í sókn gegn hinum ógnarlega vágesti, sem mengun sjávar er. Takist ekki að forðast stórmengun sjávar, þurfum við hvort sem er ekki um að binda.

Sérfróðir menn á sviði fiskeldis í sjó upplýsa, að mjög víða við strendur Íslands séu kjörin fiskræktarsvæði innfjarða. En í þessu efni skortir á um allar rannsóknir. Því þarf þegar í stað að hefjast handa um að kortleggja þá staði umhverfis landið, þar sem möguleikar eru vænlegastir, og hefja rannsóknir og mælingar því til staðfestu. Vakin hefur verið sérstök athygli á stöðum eins og við Hornafjörð og í Lóni austur, við Nípsfjörð í Vopnafirði og firðina, sem liggja suður úr Ísafjarðardjúpi, svo sem Mjóafjörð og Hestfjörð. Þá er Breiðafjörður talinn bjóða mjög fjölbreytta möguleika. Við tilraunir á öðrum löndum hefur komið í ljós, að vexti fiska í sjó má mjög flýta með því að hita sjóinn upp, t. d. í 10 gráður. Við það margfaldast vaxtarhraði fisksins. Líkt má telja, að víða hátti þannig til í landinu, að til þess mætti nota heitt vatn í jörðu.

Þegar sérfræðingar hafa lokið við að kortleggja landið með tilliti til hagkvæmni í fiskrækt og áhugamenn hafa einnig hafið búskap í stórum stíl í þessari grein, er mjög mikilvægt, að Fiskifélagið og menn þess hafi til þess aðstöðu að stunda ítarlega leiðbeininga- og upplýsingastarfsemi. Mér er fullkunnugt um það, að ýmsir áhugamenn hafa tekið um það ákvörðun að hefjast nú fljótlega handa um tilraunir á þessu sviði. Allt kostar þetta mikið fé, en til mikils er líka að vinna. Á sama tíma og Íslendingar berjast fyrir lífshagsmunum sínum í landhelgismálinu, hygg ég, að það yrði þeim til enn meira hróss, ef þeir hæfust myndarlega handa um fiskrækt í stórum stíl. Eitt með öðru mundi það styrkja málstað okkar. Um leið og við krefjumst réttar okkar til fiskimiðanna við strendur landsins, erum við einir að axla ábyrgð á vexti og viðgangi fiskstofnanna innan lögsögu okkar. Við verðum að vera menn til þess að gæta þess mikla forðabúrs, sem Íslandsmið eru, ella höfum við fyrirgert rétti okkar.

Á sviði fiskeldis blasa við stórkostleg verkefni, sem bíða þess eins, að unnin verði. Okkur ber skylda til að hefjast þegar í stað handa og af því afli, sem um munar. Við þurfum að láta það strax ásannast, Íslendingar, að við kunnum fleira en að drepa fisk.

Forseti. Ég vil svo leyfa mér að leggja til, að þegar þessari umr. lýkur, þá verði málinu vísað til hv. fjvn.