22.02.1973
Sameinað þing: 48. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2065 í B-deild Alþingistíðinda. (1622)

101. mál, fiskeldi í sjó

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Í till. til þál. um fiskeldi í sjó á þskj. 126, sem hér er til umr., er lagt til að veita Fiskifélagi Íslands nauðsynlegan fjárhagslegan stuðning til að hafa sérfræðinga í fiskeldi, gera tilraunir með fiskeldi í sjó og kynna sér slíka starfsemi erlendis. Í grg. kemur fram, að eldi sjávarfiska sé ekki komið á fjárhagslega arðvænlegan grundvöll, en á hinn bóginn sé eldi vatnafiska, þ. e. a. s. laxfiska, orðið atvinnugrein í Noregi. M. ö. o. er svo að skilja, að eldi laxfiska í sjó sé það, sem stefnt sé að.

Lög nr. 76 frá 1970, um lax- og silungsveiði, fjalla um veiðimál, en þau eru þannig skilgreind í 1. gr. nefndra laga: „Hvers konar mál, sem lúta að lax-, silungs- og álaveiði, fiskrækt eða fiskeldi.“ Lögin ná til lax og silungs, hvort sem þessar fisktegundir eru í fersku vatni eða söltu. Verður því ekki annað séð en Fiskifélaginu sé ætlað með þáltill. þessari að fara inn á svið laxveiðilaganna, en í þeim er m. a. kveðið á um stjórn þeirra mála, sem heyra undir landbrh. Þá má henda á, að í þáltill. er gert ráð fyrir starfsemi, sem er nú þegar að langmestu leyti í framkvæmd á vegum veiðimálastofnunarinnar á grundvelli ákvæða laxveiðilaganna. Ef slík starfsemi verður rekin á vegum Fiskifélagsins, mun verða unnið í tveimur stofnunum að sama verkefni, ríkisfé, sem getur komið að miklu gagni, ef veitt væri einum aðila, er deilt á tvo, og árangurinn af starfseminni verður óhjákvæmilega miklum mun minni. Að mínu áliti væri lítil hagræðing í slíku. Sjálfsagt er í sambandi við fiskeldi að skipta því niður í málefni og á stofnanir eftir eðli þeirra. Þannig eru að öðru leytinu vatnafiskar og vatnafiskaeldi og að hinu leytinu sjávarfiskar og sjávarfiskaeldi. Vatnafiskaeldi, sem fara mun fram í náinni framtíð, mun vafalaust verða stundað við ströndina í netkvíum eða í víkum og vogum, þar sem verulegur hluti eða allt eldi fer fram í landhelgi einstakra jarða eða landhelgi þéttbýlisstaða. Er rétt m. a. af þeirri ástæðu að tengja tilraunastarfsemina með vatnafiska í sjó við fiskeldi í fersku vatni, enda er vatnafiskur alinn upp í fersku vatni, þar til hann er tilbúinn að fara í sjó. Svo til sömu tæki og tilsvarandi reynslu og þekkingu þarf til á báðum stöðum. Um eldi sjávarfiska gegnir allt öðru máli.

Þegar efni þáttill. er athugað í einstökum atriðum, kemur í ljós, að sú starfsemi, sem þar er rætt um, er nú þegar unnin í veiðimálastofnuninni. Hún hefur á sínum vegum sérhæfða menn, þ. á m. fiskifræðing, sem vinnur að tilraunum með eldi sem aðalverkefni. Laxeldisstöðin í Kollafirði, sem starfað hefur síðan 1961, hefur aðstöðu til tilraunastarfsemi með fiskeldi og þjálfað starfsfólk til að vinna að slíkum tilraunum. Við stöðina hefur fengizt mikil innlend reynsla við fiskeldi, og virðist augljóst, að nota beri þessa reynslu og þekkingu, sem aflazt hefur með tilraunum, við eldi vatnafiska í sjó. Með stækkun á tjörnum laxeldisstöðvarinnar á s. l. sumri eru möguleikar auknir hvað snertir tilraunastarfsemi, m. a. vegna þess að ein tjörnin við flæðarmálið verður með sjóinngöngum. Þá er aðstaða til netkvíaeldis í Kollafirði nokkra metra frá landi. Ráðgert er að nota aðstöðuna á næsta sumri til tilrauna með laxeldi. Mun þá nýtast aðstaða í laxeldisstöðinni og reynsla starfsfólksins þar við tilraunina. Í sambandi við netkvíarnar má geta þess, að slíkar kvíar má einnig nota í stöðuvötnum, og hafa ráðagerðir um tilraunir með netkvíar í stöðuvötnum verið á döfinni undanfarin ár, þótt ekki hafi enn orðið úr vegna fjárskorts.

Starfsmenn veiðimálastofnunarinnar og ráðgefandi verkfræðingur hennar hafa um árabil fylgzt náið með því, sem gerist erlendis í fiskeldismálum, þ. á m. með eldi vatnafiska í sjó. Hafa nefndir aðilar farið til útlanda í kynnisferðir í þessu sambandi og eru því vel kunnugir því, sem verið hefur og er að gerast á umræddu sviði, auk þess sem þeir hafa mikla reynslu og þekkingu á íslenzku umhverfi. Aðstaða til fiskeldis, bæði í fersku vatni og í sjó, hafa verið kannaðar víða um land af sérfræðingum veiðimálastofnunarinnar. Nú hin síðustu ár hafa farið fram skipulegar kannanir á eldisaðstæðum, til þessa aðallega á Norðurlandi og Suðvesturlandi, en ráðgert er að kanna allt landið á næstu árum. Leiðbeininga- og upplýsingastarfsemi um vatnafiskaeldi hefur verið rekin af veiðimálastofnuninni, og verður hún aukin, eftir því sem stofnuninni vex fiskur um hrygg.

Af því, sem að framan segir, er augljóst, að tilraunum með eldi fiska í sjó er þegar ætlaður staður í lögum. Vatnafiskaeldi, hvort heldur er í fersku vatni eða í sjó, er landbúnaðarmál og fellur undir lög um lax- og silungsveiði. Tilraunir um eldi sjávarfiska og önnur sjávardýr heyra undir Hafrannsóknastofnunina, sbr. 17. gr. l. nr. 64 frá 1965, um rannsóknir í þágu atvinnuveganna, en þar segir í 5. lið, með leyfi forseta: „Rannsóknir á fiskrækt og öllu, sem að því lýtur, áburð í sjó o. s. frv: Af þessu verður séð, að ef Alþ. veitir Fiskifélaginu fé til tilrauna með fiskeldi í sjó, er verið að fara aftan að laxveiðilögunum og lagaákvæðum um Hafrannsóknastofnunina. Fé til tilrauna með eldi fiska í sjó ber því að veita nefndum stofnunum, og þær hafa mesta möguleika og þekkingu til að gera slíkar tilraunir, hver á sínu sviði.

Eitt atriði þessarar till. vil ég mjög taka undir. Það er brýnt að auka fjárframlög til slíkra rannsókna. Það er vaxandi áhugi hjá bændum og ýmsum fleirum að fara út í fiskrækt, og ýmsir telja, að þar sé um álitlega búgrein að ræða. En tilraunir á þessu sviði eru enn ekki komnar á það stig, að réttmætt sé fyrir einstaklinga að leggja út í kostnaðarsamar framkvæmdir á þessu sviði. En þar sem allt bendir til, að þessi búgrein gæti komið til með að verða arðvænleg, ef rétt er á haldið, þarf að stórauka rannsóknir á þessu sviði og undirbyggja leiðbeiningaþjónustu enn betur en hægt hefur verið að gera fram að þessu, áður en áhugamenn fara út í slíka framleiðslu, a. m. k. að ráði. Ef þannig er farið að, gæti það komið í veg fyrir mistök, sem gætu orðið mörgum einstaklingi dýr og tafið fyrir því, að fiskrækt í sjó og vötnum yrði að atvinnugrein, sem gæfi álitlegan hlut í þjóðarbúið.

Hér á hinu háa Alþ hafa í vaxandi mæli verið bornar fram till., sem fela það í sér að skerða á ýmsan hátt hlut landbúnaðarins. Sú þáltill., sem hér er til umr., er ein þeirra. Þó vil ég ekki ætla að óreyndu, að flm. þessarar till. hafi gert það í þeim tilgangi, heldur af hinu, að þeir hafa ekki kynnt sér málið nægilega og ekki hugsað út í, hvað í raun og veru felst í till. Ég vænti þess, að hv. flm. taki málið á ný til athugunar og komi sjálfir fram með brtt., sem feli í sér, að þeim stofnunum, sem eðli sínu samkv. eiga og eru bezt færar til þess að gera tilraunir á þessu sviði, verði falin þau verkefni, sem till. fjallar um. Hins vegar þarf að knýja á um auknar fjárveitingar í þessu skyni. Það er fyrst og fremst þær, sem á stendur, en ekki á lagalegum grundvelli, þekkingu eða aðstöðu til að gera slíkar rannsóknir.

Áður en ég lýk máli mínu, vil ég mælast til þess við hv. n., sem fær þessa till. til meðferðar, að hún sendi Búnaðarþingi till. til umsagnar, þar sem þingið situr nú að störfum.