22.02.1973
Sameinað þing: 48. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2067 í B-deild Alþingistíðinda. (1623)

101. mál, fiskeldi í sjó

Flm. (Sverrir Hermannsson) :

Herra forseti. Ég verð að játa, að við gerð þessarar till. kom mér sízt í hug, að tillögugerðin yrðu túlkuð á þann veg, að með henni væri verið að draga burst úr nefi landbúnaðar í landinu. Kann að vera, að þeim á veiðimálastofnuninni þyki, að úr þeirra nefi sé burst dregið, og mega þeir gjarnan hafa um það þær skoðanir, sem þeim sýnist. En því fer alls fjarri, að það hafi verið hugmyndin, eins og hv. 4. þm. Norðurl. e. hélt hér fram, að skerða hlut landbúnaðarins, og hér í þingi hefði þess í vaxandi mæli gætt, að fluttar væru till., sem gengju í slíka átt. Ég held, að einhver einkennileg minnimáttarkennd hv. þm. sé hér að verki. Vil ég þó taka fram, að ég er af eðlilegum ástæðum ekki eins kunnugur gangi mála hér í þingi og hann. En allt hans tal hljómaði eins og samið væri inn á Veiðimálaskrifstofu og það er kannske ekki verra fyrir það. En allt átti það nú ekki erindi hingað.

Ég verð að segja, að sá þáttur, sem um er fjallað í tillögunni, er mjög sérstaks eðlis. Þótt tekið sé dæmi um þá möguleika, sem sýnast vera fyrir hendi um ræktun lax í sjó einvörðungu, þegar fiskur er kominn af sem maður getur sagt pokaseiðisstigi, þá er þessi aðferð, sem hér um ræðir, allt önnur en sú, sem veiðimálayfirvöld okkar hafa fengizt við, og hv. 4. þm. Norðurl. e. gat þess, held ég, að ráðagerðir hafi verið uppi um árabil um framkvæmdir og tilraunir í sambandi við netkvíar, en ekki náð fram að ganga af þeim sökum, að fé hefur skort. Og það er einmitt þar, sem skórinn kreppir, að til þessara mála hefur ekki verið varið náfægt því nægjanlega miklu fé. En eins og ég sagði, þótt hér væru dæmi dregin af eldi lax í sjó, þá eru fjölmargir aðrir þættir, sem koma við sögu, og e. t. v. ótrúlegir möguleikar, sem eru fyrir hendi um ræktun hvers kyns sjávardýra. Við vitum ekki í dag nema að því kunni að draga, að við getum með einhverjum hætti jafnvel ræktað þorskfisk, og verð ég að segja, að ekki verður með neinum sanni sagt, að tafizt geti að verið sé að draga burst úr nefi landbúnaðarins, ef í slíka tilraun yrði farið. En þetta er gömul saga og alþekkt, að þegar reynt er að þoka fram nauðsynjamálum, þá þykir einhverjum embættisherranum í þjóðfélaginu að sér vikið og tilraun til þess gerð að skerða sitt valdssvið, og þá er gripið til þess ráðs að reyna með öllum hætti að koma í veg fyrir, að það mál nái fram að ganga. Og hér er á ferðinni ein slík tilraun.

Ég ætla ekki að vanmeta það starf, sem veiðimálastofnunin hefur innt af höndum. Ég er ekki heldur maður til að dæma um það. Það liggur þó alveg ljóst fyrir, að hún hefur legið undir mjög harðri gagnrýni og það fé, sem til hennar hefur verið varið, hefur ekki þótt bera ávöxt sem skyldi, að ekki sé meira sagt. En eins og ég sagði, til þess er ég ekki maður að dæma.

Hv. 4. þm. Norðurl. e. gat þess, að ekki væri enn komið þann veg málum, að ástæða væri til þess, að einstaklingar hæfu slíkar framkvæmdir eins og með ræktun fisks í söltu vatni. Og ég tók eftir því í skýrslu, sem kom frá Veiðimálaskrifstofunni á borð þm. fyrir tveim dögum, að allur hennar tilgangur endaði í síðustu mgr., þar sem á það var vinsamlegast bent, að allar slíkar tilraunir væru háðar leyfi Veiðimálaskrifstofunnar. Hv. 4. þm. Norðurl. e. gat þess, að málum væri ekki þannig háttað enn, að það væri til þess ástæða, að einstaklingar hæfu aðgerðir í þessu efni. En ég verð að segja, að þá þykir mér stungin tólg, ef veiðimálastofnunin, sem hefur e. t. v. leyfi til þess samkv. lögum, ætlaði að setja fótinn fyrir það að einstaklingar hæfu slíkar tilraunir. Mér er kunnugt um það, að það er maður hið næsta við mig, sem hyggst nú alveg á næstunni hefja hér á Reykjanesi slíkar tilraunir með eldi fisks í sjó. Og ég gat um það, að reynsla sú, sem Norðmenn hafa fengið af þessu nú á næstliðnum missirum, er mjög glæsileg, svo að ekki sé meira sagt. Ef einstaklingar vilja leggja fé sitt fram til þess arna, má furðu gegna, ef í einhverju ætti að hamla gegn þeirri framtakssemi.

Varðandi það, að verið sé að fara aftan að lögunum í þessu efni, þá kann að vera, að í strangasta skilningi laganna eigi þetta allt að vera undir hatti veiðimálastofnunarinnar. Það kann vel svo að vera. En ef á að hindra framgang þessa mikla stórmáls með því, að hægt sé með lagakrókum að heimfæra það undir einhverja stofnun í landinu, sem á framkvæmdum liggur og hefur ekkert framkvæmt, sem máli skiptir, í sambandi við ræktun á þessu sviði a. m. k., þá læt ég það alveg vera. Þá eru þar ekki hugsjónamenn að verki, sem vilja veg þessa máls mikinn. Ég vil enn fremur benda á, — það kann að hafa komið fram í umr. þá, þegar samþ. var hér 17. apríl 1968 þáltill., að sú tillögugerð bryti í bága við lög, — en allt að einu varð þetta þó að samþykkt Alþingis, að ríkisstj. skyldi láta fara fram athugun á möguleikum vísindalegrar tilraunastarfsemi í fiskrækt og uppeldi nytjafiska í einstökum fjörðum, er hentugir kynnu að þykja til slíkrar starfsemi, og samráð skyldi haft við Hafrannsóknastofnunina og Fiskifélag Íslands.

Hv. 4. þm. Norðurl. e, gat þess, að aðstæður hefðu verið kannaðar víða um land í þessum efnum. Það kann að vera. En ég held, að það sé þó allt á algeru frumstigi. Og tilgangur þessarar till. er sá að reyna að hrinda þessu máli fram, svo að um muni.

Veiðimálastofnunin mun hafa starfað a. m. k. með sína laxeldisstöð allt frá árinu 1961. Í ýmsu hefur árangur náðst, en ég held þó, að það sé almannarómur, að árangur hafi ekki náðst neitt nálægt því eins mikill og menn bundu vonir við, og allavega langt frá því, ef miðað er við það fjármagn, sem til starfseminnar hefur runnið. Ég dreg alls ekki í efa, að veiðimálastofnunin hafi á að skipa hæfum mönnum. En hér er um svo stórvaxið verkefni að tefla, að það er fullkomin ástæða til þess, að að málefninu vinni fleiri stofnanir, og að halda því fram, að það sé ekki eðli málsins samkv. að fela þetta verkefni Fiskifélagi Íslands, það fæ ég a. m. k. ekki skilið. En af sjálfu leiðir, að þessar stofnanir mundu vinna saman. Maður mundi a. m. k. ætla um stofnanir, sem eru reknar, a. m. k. önnur og hin að nokkru leyti fyrir opinbert fé, að menn, sem þar vinna að málum, beri til þess gæfu að starfa saman að svo mikilvægum verkefnum sem hér um ræðir.

Ég hef ekkert á móti því, öðru nær, að þessari till. verði vísað til Búnaðarþings. En ég vænti þess fastlega, að þar verði ekki litið á þetta sem svo, að hér sé verið að gera einhverja tilraun til þess að skerða hlut landbúnaðarins í landinu. Allt, sem að fiskrækt í vatni lýtur, er vissulega búgrein, og eins má kalla þetta búgrein, fiskrækt í sjó, — að svo miklu leyti sem fiskræktin yrði á afmörkuðum svæðum og undir manna höndum, má enn fremur kalla það búgrein. En ég er reiðubúinn að styðja allar till., sem í þá átt ganga að efla sem mest þá mikilvægu búgrein, sem fiskeldi í vatni er. Við höfum vissulega náð mjög miklum árangri í fiskrækt í vatni, og hin aukna laxgengd undanfarin ár er talin vera tvímælalaust því að þakka. Þarna á veiðimálastofnunin vissulega hlut að máli. En það eru fleiri, miklu fleiri, sem þar eiga hlut að máli, og sem betur fer hefur þetta ekki verið einokað af veiðimálastofnuninni, þessi tilraunstarfsemi um fiskrækt, því að mér er nær að halda, að þess muni finnast dæmi, að árangur hafi, a. m. k. miðað við fjármagn, náðst betri af öðrum aðilum en veiðimálastofnuninni. Þessi skoðun mín verður leiðrétt, ef menn hafa til þess rök. Og það verð ég að segja, að hefði verið illa farið, ef hefði átt að hindra þær merku tilraunir og þær merku framkvæmdir, sem ýmsir einstaklingar hafa gert á þessu sviði. En ég gat ekki betur skilið af máli hv. 4. þm, Norðurl. e. en að hann vildi meina, að allt þyrfti þetta að vera undir hatti veiðimálastofnunarinnar: að þessu væri verið að vinna, það væri óráð, að fleiri aðilar kæmu þarna, menn skyldu fara varlega í sakirnar, en sem þakkarvert er tók hann undir það, að stórauknu fjármagni þyrfti að verja til þessa.

Ég vara við því, ef á að fara að verða skæklatog út af þessu mikilsverða máli milli stofnana, sem að þessu eiga að vinna eðli málsins samkv. Það er alþekkt fyrirbrigði, að embættismannavaldið hér á landi bregður mjög hart við, ef því finnst, að sé verið að draga, eins og ég sagði, burst úr nefi sér, og það vill ógjarnan sleppa því, sem það hefur hönd á fest. Það er allt of mikið um það, að þeir deili og drottni, og minna um það, að þeir, sem raunverulega hafa og eiga að hafa til þess vald að ráða, eins og hið háa Alþ., fari í raun réttri með völdin. Enda þótt til séu lög um afmörkuð til handa veiðimálastofnun, hlýtur hið háa Alþ. að ráða því sjálft, ef því sýnist svo, að fela öðrum aðilum verkefni á svipuðu sviði. Mér er alveg ljóst, að ef á drepa þetta í dróma með því að vísa til þess einvörðungu, að þetta sé í athugun hjá veiðimálastofnuninni, þá líða ár og dagar, þangað til við sjáum nokkurn árangur, sem máli skiptir. Hér er verið að reyna að gera tilraun til þess að opna augu manna fyrir nauðsyn þess, að stórauknu fjármagni sé til þessa varið. Og ég hefði að óreyndu vænzt þess, að allir hv. þm. mundu undir þetta taka og leggja lið sitt til þess, að svo mætti verða. En þótt mér sé ekki geðfellt að væna hv. 4. þm. Norðurl, e. um það, þá er mér nær að halda, að hann gangi hér erinda forustumanna á veiðimálastofnuninni. Ég skil það vel það er mannlegt af þeim, að þeir vilji halda þessu í sínum höndum, því að það mætti e. t. v. skilja það sem svo, að það væri nokkurt vantraust á þeirra starf, að svo yrði ekki áfram, því að vissulega er þeim ætlað einnig að starfa að þessu. En ég bendi einnig á, eins og ég hef áður gert að vísu, að þetta er miklu fjölþættara verkefni en veiðimálastofnuninni hefur verið ætlað og framfarirnar í þessum efnum eru svo stórstígar, að það er mál til komið, að við Íslendingar förum að fylgjast náið með þeim.

Hv. þm, gat þess, að veiðimálastofnunin fylgdist með því, sem væri að gerast úti í löndum í þessum efnum. Ég vil þá spyrja: Hvar liggja þær upplýsingar fyrir? A. m. k. fæ ég ekki séð af þeim ritum, sem hingað hefur verið dreift af hálfu veiðimálastofnunarinnar, að þar sé neitt, sem sé hönd á festandi.

Mér berast þær fregnir frá mönnum, sem hafa aðeins haft af þessu spurnir í Japan, að þar hafi menn náð mjög langt í þessum efnum, og það varðar miklu fleiri tegundir fisks en nokkurn tíma koma nærri fersku vatni. T. d. má geta þess, að Bretar hafa náð athyglisverðum árangri í ræktun sólkola og sandhverfu og fleiri tegunda.

Nei, það er út í hött að ætla sér að setja fót fyrir þetta mál með því að halda því fram, að það sé verið að skerða hlut landbúnaðarins. Þar er verið að seilast um hurð til lokunar. Og einnig er það út í hött, að það sé verið að ætla einhverjum aðila, sem óeðlilegt mætti kallast, að fjalla um þessi mál, þegar lagt er til, að Fiskifélag Íslands hafi þetta verkefni með höndum. Hvort tveggja er fjarri öllu lagi. Og enda þótt svo mætti kannske segja, að hér væri um verkefni að tefla, sem veiðimálastofnunin ætti að hafa með höndum, og að sumu leyti eðlilegt, að hún yrði efld til þess að vinna það, þá er samt sú reynsla fyrir hendi, að við þurfum fleiri aðila til að takast á við þetta mikilvæga verkefni, og umfram allt þarf að hrinda verulegu átaki í framkvæmd. Við megum ekki láta tímann líða, svo sem verið hefur, án þess að taka rösklega til höndum. Það er undirstöðuatriðið.