22.02.1973
Sameinað þing: 48. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2073 í B-deild Alþingistíðinda. (1626)

107. mál, íbúðarlán úr Byggingarsjóði ríkisins

Alexander Stefánsson:

Herra forseti. Ég bað um orðið í sambandi við umr. um þessa þáltill., þegar umr, fóru hér fram aðallega milli hv. flm. og hæstv. ráðh., einvörðungu af því, að ég tel mig hafa sérstakan áhuga á húsnæðismálum almennt. Ég taldi alveg sérstaka ástæðu til að taka undir og fagna þeim mikla áhuga, sem kom fram hjá hv. 4. þm. Vestf., flm. þessarar þáltill., í sambandi við hækkun lána til íbúðarhúsabygginga, ekki hvað sízt með tilliti til þess, að hann hafði um áraraðir átt sæti í stjórn Húsnæðismálastofnunarinnar undir viðreisn, þegar húsbyggjendur, úti um landsbyggðina sérstaklega, bjuggu við mikla lánasveltu í kerfinu.

En það, sem kom mér sérstaklega til að biðja um orðið í sambandi við þessa till., var í fyrsta lagi að fagna þeirri ákvörðun ríkisstj. að hækka lánaupphæð í 800 þús. kr., sem vissulega bætir mjög ástandið fyrir húsbyggjendur, þótt ég vilji taka sérstaklega fram, að ég get alveg tekið undir það með hv. flm. þessarar þáltill., að vissulega væri þörf á hærri fjárhæð.

Í öðru lagi vil ég fagna þeim ummælum hæstv. félmrh., sem hann viðhafði við umr. hér, að hann hefði lagt fyrir þn., sem endurskoðar húsnæðismálalöggjöfina, að framvegis verði lánin hækkuð árlega í samræmi við breytingu á byggingarvísitölu. Þetta tel ég vera réttlætismál, sem þurfi að ná fram að ganga sem fyrst. Ég vil í þessu sambandi nota tækifærið til að óska eftir því við hæstv. ráðh., að hann sendi nótu til þessarar opinberu stofnunar um það, að þjónustan við landsbyggðina a. m. k. verði örlítið betri en hún er í dag, þar sem við, sem höfum þurft að leita til hennar utan af landsbyggðinni, verðum að sætta okkur við það, að skrifstofustjóri þessarar stofnunar er ekki til viðtals og framkvæmdastjóri stofnunarinnar aðeins milli kl. 1 og 2 daglega. Á þessu held ég, að þurfi að ráða bót, þó að það sé e. t. v. ekki þingmál.

Í þriðja lagi vil ég nota þetta tækifæri til að undirstrika sérstaklega nauðsyn þess, að endurskoðun húsnæðismálakerfisins verði hraðað, ekki hvað sízt hvað varðar byggingu verkamannabústaða, möguleika sveitarfélaga á byggingu leiguhúsnæðis og möguleika á framkvæmdum úti um landsbyggðina í sama formi og með sama árangri og byggt hefur verið í Breiðholti hér í Reykjavík. Er ekki óeðlilegt að álykta, að sú tækni og reynsla, er fengizt hefur í Breiðholti, ætti rétt á sér úti um land, þar sem þörfin er mest fyrir miklar og skjótvirkar framkvæmdir í íbúðarhúsabyggingum. Mætti t. d. hugsa sér, að Framkvæmdastofnunin tæki að sér að byggja íbúðarhúsnæði á þeim stöðum úti um landið, þar sem þörfin er mest, eftir því kerfi, sem byggt er eftir í Breiðholti.

Á ráðstefnu, er húsnæðismálastjórn boðaði til á s. l. hausti um verkamannabústaðakerfið, kom greinilega í ljós, hversu þetta lánakerfi er vanmáttugt og kemur að litlum notum í flestum sveitarfélögum úti um landið. Þar kom einnig fram mikil gagnrýni á núgildandi húsnæðismálalöggjöf í heild. Töldu margir, að þörf væri á, að stofnunin hefði möguleika í lögum til að afgreiða hærri og meiri lán til byggingar íbúðarhúsa á ýmsum stöðum úti um landsbyggðina, sem mesta húsnæðisþörf hafa og gegna um leið þýðingarmiklu hlutverki í útflutningsframleiðslu þjóðarinnar.

Ég tel mikla nauðsyn að koma því á framfæri hér, að í þeirri endurskoðun, er nú stendur yfir, verði þessi atriði öll athuguð vandlega. Ég vek athygli hv. alþm. á þeirri miklu og brýnu nauðsyn að gera mögulegt að byggja hraðar upp hina mörgu og þýðingarmiklu útgerðarstaði úti um landið. Víðast hvar er skortur á íbúðarhúsnæði eitt mesta vandamálið. Löggjöfin verður að taka fljótt og raunhæft á í þessu sjálfsagða máli.