22.02.1973
Sameinað þing: 48. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2079 í B-deild Alþingistíðinda. (1631)

135. mál, félagsheimili

Flm. (Friðjón Þórðarson):

Herra forseti. Á þskj. 204 hef ég leyft mér að flytja till. til þál. varðandi félagsheimili ásamt hv. 2. og 5. þm. Norðurl. v. Till. er þess efnis, að, Alþ. álykti að skora á ríkisstj. að gera nú þegar ráðstafanir til að inna af hendi hið fyrsta lögboðnar greiðslur til félagsheimila.

Víða um land hafa á undanförnum árum verið byggð myndarleg félagsheimili. Þau hafa fengið byggingarstyrk samkv. sérstökum lögum, áður l. frá 1947, nú l. nr. 107 frá 1970. Samkv. 1. gr. l. er með félagsheimilum átt við samkomuhús, sem hvers konar menningarfélög, sem standa almenningi opin án tillits til stjórnmálaskoðana, eiga og nota til fundarhalda eða annarrar félagsstarfsemi. Sama gildir um samkomuhús sveitarfélaga.

Í félagsheimilasjóð rennur hluti af skemmtanaskatti, eftir því sem nánar segir í lögum um skemmtanaskatt. Til þess að hefja byggingu félagsheimilis, sem notið fær styrks að lögum, þarf leyfi menntmrh. Það leyfi er háð ýmsum skilyrðum. Bygging svo stórra og vandaðra húsa er mikið átak og kostar ærið fé. Þeir, sem ráðast í slíkt fyrirtæki, þurfa venjulega á öllu að halda til að koma verkinu áfram. Hámarksaðstoð samkv. lögum er 40% af byggingarkostnaði. Hefur svo verið allt frá 1947. Áður nefndur tekjustofn hefur jafnan reynzt of lítill. Hefur því myndazt langur hali af ógreiddum ríkisframlögum ár frá ári. Þetta er að sjálfsögðu mjög bagalegt fyrir þá, sem í þessum framkvæmdum standa og treysta á fyrirheit löggjafar- og framkvæmdavalds í þessum efnum. Það eru yfirleitt ekki fjársterkir aðilar, sem byggja félagsheimili, oftast nær fátæk sveitarfélög og eignalaus félög af öðru tagi, sem leggja út í slíkar framkvæmdir af ríkri nauðsyn til þess að skapa skilyrði fyrir félags- og menningarlíf á ákveðnu byggðasvæði.

Samkv. breytingu þeirri, er gerð var á l. um félagsheimili á árinu 1970, skal verja 10% af árlegu ráðstöfunarfé félagsheimilasjóðs til menningarsjóða félagsheimila. Þessa fjár njóta ekki nema fullbyggð félagsheimili og það á óbeinan hátt, þannig að umrædd lagabreyting hefur í raun og veru einungis rýrt tekjur félagsheimilasjóðs um 10% árlega. Það er því enn lengra í land, að sjóðurinn geti staðið við sitt að þessu leyti, en áður var.

Á prentuðu fskj. með till. þessari er yfirlit um hag og horfur félagsheimilasjóðs. Af því sést, að mikið vantar á, að skuldbindingum hins opinbera sé fullnægt eða verði lokið innan hæfilegs tíma. Þó að menntmrh. veiti engin ný leyfi til byggingar félagsheimila, líða enn mörg ár, þar til unnt verður að standa að fullu við þær skuldbindingar, sem þegar er til stofnað.

Till. þessi er flutt. eins og segir í grg., til að vekja athygli á þessu máli og leita úrræða til að hraða umræddum greiðslum og létta því fólki róðurinn, sem vinnur að því að byggja upp aðstöðu til félags- og menningarlífs í byggðum landsins. Ég leyfi mér að vænta þess, að till. verði tekin til skjótrar og ítarlegrar athugunar í viðkomandi þn.

Það vill svo til, að einmitt þessa dagana er Búnaðarþing að störfum, og ég sé í dagblaðinu Tímanum, að mál sama efnis hefur verið þar á dagskrá og till. samþ. í þessu efni, sem ég ætla að leyfa mér að lesa upp, af því að hún gengur mjög svo í sömu átt, með leyfi hæstv. forseta, — þessi till, mun hafa verið samþ. nú fyrri hluta vikunnar:

„Búnaðarþing beinir þeirri áskorun til Alþ. og menntmrh., að tekjur félagsheimilasjóðs verði auknar, svo að hann geti innt af hendi lögboðnar greiðslur til byggingar félagsheimila jafnharðan og byggingarkostnaður liggur fyrir. Ef ekki finnast nýir tekjustofnar til eflingar félagsheimilasjóði, vill Búnaðarþing benda á þann möguleika, að frestað verði til ársloka 1976 að láta 10% skemmtanaskatts renna til menningarsjóðs félagsheimila, heldur fái félagsheimilasjóður hann óskiptan þennan tíma.“

Ég leyfi mér svo að leggja til að málinu verði frestað að þessari umr. lokinni og vísað til hv. allshn.