22.02.1973
Sameinað þing: 48. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2081 í B-deild Alþingistíðinda. (1632)

135. mál, félagsheimili

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Ég get út af fyrir sig tekið undir flest af því, sem hér hefur verið sagt um vanda þeirra félagsheimila, sem eru í byggingu. óhæfileg vanskil félagsheimilasjóðs hafa oft og tíðum valdið heimaaðilum og þá alveg sérstaklega sveitarfélögunum miklum vandræðum og leitt um leið af sér óþarfan kostnaðarauka fyrir þau. Mig langar til að vekja athygli við þetta tækifæri á öðrum vanda, sem ég hef reyndar gert áður, þ, e. a. s. rekstrarörðugleikum ýmissa félagsheimila, sem t. d. við eystra höfum orðið áþreifanlega varir við. Ég flutti að vísu um þetta á síðasta þingi þáltill., þar sem skorað var á ríkisstj. að finna leiðir til úrbóta. Ég hafði þá einnig í huga, hvernig létta mætti einhverjum hluta söluskattsinnheimtunnar af félagsheimilunum, því að það er býsna þungbær skattur og mikil spurning um réttmæti hans í öllum tilfellum af ýmissi þeirri starfsemi, sem í félagsheimilunum er rekin. Að vísu var ekki gerð um þetta bein till. hjá mér þá, en ég minnti á það í framsögu, að þetta væri ein leið til þess að tryggja betur en gert hefur verið rekstrarmöguleika og rekstrarafkomu ýmissa félagsheimila, sem eiga við örðugleika að stríða.

Það er sérstök nauðsyn á því víða úti á landsbyggðinni að tryggja þennan rekstrargrundvöll, alveg sérstaklega vegna þess, að þar þurfa félagsheimilin, held ég, að hlynna og hlúa að hvers kyns menningar- og félagsstarfsemi, og ég veit, að hvers konar örðugleikar í þessum efnum koma niður á þessum hluta starfseminnar, en aðrir hlutar starfseminnar, sem eru ábatavænlegri eru oft látnir sitja fyrir. Ég vildi aðeins við þetta tækifæri minna á þennan vanda. Hann er áreiðanlega nákvæmlega eins til staðar nú og hann var þá, og ég hlýt að ætla það, að það sé nokkur skylda opinberra aðila að sjá til þess, að félagsheimilin kafni ekki undir nafni, heldur megi sem bezt rækja sitt upphaflega hlutverk.

Mig langar aðeins til að koma þeirri ósk á framfæri, vegna þess að þessi till. fékk þá afgreiðslu á þinginu í fyrra, að henni var vísað til ríkisstj. með ósk um jákvæða athugun á málinu, — þeirri ósk til viðkomandi ráðh., að þessi jákvæða athugun mætti fara fram. Ég er að vísu ekki alveg nógu viss um, hvað þessi afgreiðsla þýddi, en ég hef góða trú á hverju því máli, sem vísað er til hæstv. núv. ríkisstj., og geri ráð fyrir því, að þegar einmitt fróm ósk um góða athugun á málinu fylgir með, þá muni því verða sinnt. — Ég vildi sem sagt aðeins koma þessu að, því að verði þetta ekki gert, tel ég mér ekki annað fært en að flytja þáltill. um þetta, þó að í öðru formi verði.