26.02.1973
Sameinað þing: 49. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2087 í B-deild Alþingistíðinda. (1637)

Umræður utan dagskrár

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Ég hef kvatt mér hér hljóðs utan dagskrár vegna útvarpsfréttar núna í hádeginu, þar sem frá því var greint, að fiskibátar á miðunum út af Hvalbak hefðu orðið fyrir miklum ágangi brezkra togara og þeir hefðu það jafnvel við orð, að þeir yrðu að flýja miðin af þeim sökum. Í þessari frétt var það einnig staðhæft, að brezkir togarar væru að veiðum innan 12 mílna markanna, og sömuleiðis fylgdi þessari frétt það, að engin varðskip hefðu sézt á þessum slóðum, svo að dögum skipti.

Ég vil engan dóm leggja á þessa frétt út af fyrir sig, en ég vil benda á það, að ef satt reynist, þá er hér um býsna alvarlegt mál að ræða, og reyndar er fréttin sem slík alvarleg, hvort sem hún er sönn eður ei. Það er ekki aðeins, að þetta sé alvarlegt mál fyrir þá menn, sem þarna eiga hlut að máli, okkar fiskimenn, heldur er þetta um leið alvarlegt mál varðandi okkar landhelgismál sjálft.

Ég vil aðeins mega beina þeim eindregnu tilmælum til hæstv. dómsmrh., að hann láti kanna rækilega þetta mál, hvað hæft kunni í því að vera, og það hlýtur um leið að vera sjálfsögð krafa, að ef einhver fótur reynist fyrir þessum fréttum, verði þegar í stað reynt að bæta úr, svo sem kostur er, þannig að slíkt ófremdarástand, sem þannig er frá greint, að sé á miðunum, haldist ekki lengur.