26.10.1972
Sameinað þing: 9. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 372 í B-deild Alþingistíðinda. (164)

17. mál, fiskveiðar og fiskvinnsla í Norðurlandskjördæmi vestra

Flm. (Pétur Pétursson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja hér till., sem er kannske dálítið nýstárleg, en hún felur í sér í sem fæstum orðum, að í Norðurl. v. verði stofnað sameignarfélag allra þeirra aðila í þessu kjördæmi, sem stunda fiskveiðar á stærri skipum eða vinna úr afla í landi, og að ríkissjóði eða Framkvæmdastofnun ríkisins sé heimilt að eiga í þessu sameignarfélagi verulegan hluta, en þó ekki meiri hluta. Ástæðan til þess, að ég hef leyft mér að flytja þessa till., er fyrst og fremst sú, að þeir sem þarna koma af og til, sjá það býsna vel, hvað þetta kjördæmi er í raun og veru á eftir öðrum landshlutum að ýmsu leyti. Ég geri ráð fyrir, að þetta sé í raun og veru fátækasta kjördæmi landsins. Þess vegna finnst mér vel réttlætanlegt að taka atvinnumál þess alveg sérstaklega til meðferðar. Og þá vaknar spurningin um það, með hvaða hætti er hyggilegast að byggja upp eða endurskipuleggja atvinnumál þessa kjördæmis.

Eins og annars staðar eru náttúrlega fiskveiðar og fiskvinnsla höfuðatvinnuvegur í kaupstöðunum og kauptúnum þarna, og staðreyndin er sú, að þessar einingar, eins og þær eru nú, eru flestar ákaflega smáar og vanmáttugar. Og þá er spurningin, hvort það er ekki hyggilegt að reyna að koma á samvinnu allra þeirra aðila, sem að þessum málum vinna. Hér er um að ræða kaupfélög í einstaka tilvikum og svo einstaklinga og hlutafélög. Á svæðinu eru allmörg frystihús og nokkur önnur aðstaða, nokkur skip, en engu að síður er staðreyndin sú, að stóran hluta úr árinu er svo slæmt atvinnuástand á ýmsum stöðum, að til hreinnar skammar er í raun og veru fyrir þjóðfélagið á þeim tímum, sem nú eru. Þetta hefur eitthvað batnað nú að undanförnu. En árangurinn af slíkri samvinnu hlyti að verða sá, að það mundi verða miklu betra fyrir slíkt fyrirtæki að koma fram og reyna að fá samþykkta verulega stærri áfanga í atvinnumálum kjördæmisins. Ég er sannfærður um, að slík samvinna mundi auka stórlega skilning á milli staða og samvinnu á milli staða, en við vitum það áreiðanlega allir hér, að á því er engin vanþörf í þessu landi, að staðir, sem liggja mjög nærri hver öðrum, fari að vinna meira saman að verkefnunum, eins og þau liggja við hverju sinni. Það eimir enn talsvert af þessari gömlu hreppapólitík, ef svo mætti segja, þar sem ekki má gera eitthvað á þessum stað, án þess að vekja öfund á öðrum stað. Ég held, að það þyrfti að vera heildarskipulag á þessu öllu, og ég held, að þetta hljóti ekki að vera eina landssvæðið, þar sem þetta væri heppilegt, heldur gæti verið um önnur landssvæði að ræða, þar sem samvinna gæti orðið veruleg.

Ég er alveg sannfærður um, að fjárfestingarsjóðir, bankar og aðrir aðilar, sem leggja fjármagn til atvinnulífsins, mundu miklu frekar hlusta á rödd slíks félags eða fyrirtækis, sem væri af þessari stærðargráðu, heldur en þegar hver er að hlaupa fyrir sig. Svo koma fulltrúar staðanna einn eftir annan til þm. og biðja um, að eitthvað sé gert fyrir þá, og þetta þekkja allir. Þetta er allt saman hálfgerð smáskammtalækning, finnst mér. Ég legg til, að ríkissjóði eða Framkvæmdastofnun væri heimilt að taka verulega þátt í þessu fyrirtæki. Mér finnst það eðlilegt, þegar um svona viðfangsefni er að ræða, að þá komi opinberir aðilar til, og ég get ekki meint annað en tilgangur Framkvæmdastofnunar eða Byggðasjóðs sé einmitt sá að vera aðili að slíku stóru verkefni.

Nú er það svo, að ríkisstj. hefur þegar tekið ákvörðun um það að vera mjög verulegur aðili að uppbyggingu atvinnulífs á Siglufirði, og það er þakkarvert. Þar eru þegar í pöntun tveir togarar og meiningin að koma upp stóru fiskiðjuveri. En mér finnst, að þessi viðleitni, sem þarna á sér stað, ætti einnig að ná til annarra nálægra staða, sem þurfa vissulega einnig á uppbyggingu atvinnulífsins að halda. Ég held, að samræmd vinna Siglufj., Hofsóss, Sauðárkróks og Skagastrandar mundi verða til mikils gagns fyrir alla þessa staði og fyrir kjördæmið í heild. Það er nú svo, að það eru komnir allgóðir vegir á milli staðanna. Það er þess vegna ekki neitt óskaplegt vandamál að flytja afla á milli. Ég veit líka, að þetta hefur verið reynt, en mistekizt. En það segir mér alls ekki, að það þurfi að mistakast að nýju. Ég hef enn fremur lagt til, að aðilar heima fyrir eigi meiri hlutann í þessu félagi, en hins vegar komi ríkið að verulegu leyti til aðstoðar. Það mætti gera tilraun í þessa átt,en kannske fæst þetta heldur aldrei samþykkt.

Ég tel, að svona aðgerð yrði allmyndarlegt átak í atvinnumálum eins kjördæmis. Það viðurkenna allir hv. þm., að þarna þarf einhverra aðgerða við, og það er alltaf verið að reyna að gera eitthvað smávegis. En mér finnst ekki hafa verið gert samræmt heildarátak í þessum efnum.

Ég legg svo til, herra forseti, að þessari till. verði vísað til hv. atvmn.