26.02.1973
Sameinað þing: 49. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2089 í B-deild Alþingistíðinda. (1641)

158. mál, samningur Íslands við Efnahagsbandalag Evrópu og breytingar á stofnsamningi Fríverslunarsamtaka Evró

Frsm. (Þórarinn Þórarinsson) :

Herra forseti. Utanrn. hefur haft til athugunar till. til þál. um heimild til fullgildingar á samningum Íslands við Efnahagsbandalag Evrópu og við Kola- og stálbandalag Evrópu og enn fremur um samþykkt á breytingum á stofnsamningi Fríverzlunarsamtaka Evrópu. N. mælir með því, að þessi þáltill. verði samþ.

Áður en n. tók endanlega afstöðu til till., hafði utanrrh. skýrt henni frá því, að ríkisstj. mundi fullgilda samningana, strax og Alþ. hefði veitt heimild til þess. Sennilegt er því, verði heimildin veitt í dag, að gengið verði frá fullgildingunni á morgun. Ríkisstj. mun jafnhliða skýra forráðamönnum Efnahagsbandalagsins frá því, að Ísland fullgildi samninginn við Efnahagsbandalagið í trausti þess, að öll viðskiptaleg réttindi, sem samningurinn gerir ráð fyrir, komi að fullu til framkvæmda við fullgildingu hans. En þetta er þó ekki sett fram sem skilyrði. Hér er að sjálfsögðu fyrst og fremst átt við það, að Efnahagsbandalagið noti ekki þann fyrirvara, að tollalækkun á sjávarvörum sé háð því, að samkomulag hafi náðst í landhelgisdeilunni. Ég vil láta það koma skýrt fram sem skoðun mína og ég hygg allra þm., að það mundi mjög torvelda samkomulag við Breta og Vestur-Þjóðverja í landhelgisdeilunni, ef Efnahagsbandalagið gripi til þess að beita þessum fyrirvara. Þess vegna verður að vona í lengstu lög, að bandalagið geri ekki slíkan óvinafagnað.

Hæstv. viðskrh. gerði ítarlega grein fyrir efni þessara samninga við fyrri umr. málsins. Ég tel því óþarft að rekja efni þeirra, heldur vísa til ræðu ráðh. um þetta efni.

Mér finnst rétt að rifja það upp, áður en ég lýk máli mínu, að víða annars staðar hefur afstaða til Efnahagsbandalagsins orðið meira deilumál en nokkurt annað mál. Það er því ástæða til að fagna því, að hér mun þetta mál verða afgreitt með samstöðu alls þingheims. Vonandi tekst okkur að halda svo á öðrum utanríkismálum í framtíðinni, því að fátt er mikilvægara fyrir smáþjóð en að geta staðið sameinuð út á við.

Ég leyfi mér svo að leggja til í nafni n., að þáltill. verði samþ.