26.02.1973
Sameinað þing: 49. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2090 í B-deild Alþingistíðinda. (1642)

158. mál, samningur Íslands við Efnahagsbandalag Evrópu og breytingar á stofnsamningi Fríverslunarsamtaka Evró

Geir Hallgrímsson:

Herra forseti. Ég vil ekki láta hjá líða að lýsa ánægju yfir, að full samstaða náðist í utanrmn. um að mæla með samþykkt till. þessarar til þál. um heimild til fullgildingar á samningum Íslands við Efnahagsbandalag Evrópu. Það er sérstök ástæða til þess að leggja áherzlu á, að þessi samstaða náðist á þeim grundvelli, að hæstv. ríkisstj. hefur lýst því yfir, að hún muni nota þessa heimild þegar í stað, þ. e. fyrir 1. marz n. k. Hér er um fullgildingu að ræða á einum mikilvægasta og víðtækasta viðskiptasamningi, sem Íslendingar hafa nokkru sinni gert. Standa vonir til, að þessi samningur ráði miklu um og hafi jákvæð áhrif á efnahagsþróun okkar í framtíðinni.

Enginn vafi er á því, að vel hefur verið haldið á málum af hálfu samningamanna okkar, og er sérstök ástæða til þess að færa þeim beztu þakkir fyrir mikið starf, sem borið hefur góðan árangur.

Um leið og lögð er þannig áherzla á hinar jákvæðu hliðar þessa máls á þessum tímamótum, því að tímamót eru hér á ferðinni í sögu okkar, þá verður ekki hjá því komizt að rifja upp nokkur atriði, sem athygli hafa vakið við meðferð málsins.

Engum blöðum þarf um það að fletta, að nauðsynlegur undanfári þessara samninga við Efnahagsbandalagið var aðild okkar að Fríverzlunarbandalagi Evrópu, EFTA. Þegar aðildin að EFTA var hér til umr. á Alþ., bæði 1968–1969 og svo 1969–1970, þegar hún var samþ., þá flutti Framsfl. frávísunartill. og sat síðan hjá, þegar atkv. voru greidd um aðild að EFTA. Alþb. greiddi atkv. á móti aðild, og var helzt að skilja á málflutningi þess, að við værum að afsala okkur hluta sjálfsforræðis með aðildinni að EFTA. Aðildin væri til þess fallin og til þess gerð að opna dyrnar að Efnahagshandalaginu, sem fékk síður en svo góða einkunn hjá þeim Alþb.-mönnum.

Þegar núv. ríkisstj. var mynduð, mátti því jafnvel búast við því, að Ísland gengi úr Fríverzlunarsamtökum Evrópu og héldi alla vega ekki áfram samningaviðræðum, sem fyrrv. ríkisstj. hafði hafið við Efnahagsbandalagið. En sem betur fer hefur ríkisstj. ekki sagt okkur úr EFTA og enn fremur haldið áfram samningaumleitunum við Efnahagsbandalagið með þeim árangri, að samningur var undirritaður 22. júlí s. l.

Ekki fer lengur á milli mála, að stefnumörkun fyrrv. ríkisstj. var rétt, aðild okkar að EFTA hefur skapað skilyrði fyrir vexti í útflutningi íslenzkra iðnaðarvara, sem ella hefðu ekki verið fyrir hendi, og án aðildar að EFTA hefðum við ekki náð eins víðtækum viðskiptasamningi við Efnahagsbandalagið og nú liggur fyrir og allir flokkar virðast sammála að gera.

Samningur Íslands við Efnahagsbandalag Evrópu er undirritaður 22. júlí s. l. Eðlilegast hefði því verið, að till. til þál. um heimild til fullgildingar á samningnum hefði legið fyrir Alþ., þegar það kom saman s. l. haust, en engir tilburðir voru uppi hafðir af hálfu ríkisstj. í þá átt. Því fremur áttu slík vinnubrögð við af hálfu hæstv. ríkisstj., að gert var ráð fyrir því, að samningurinn tæki í raun gildi 1. jan. s. l., en þrátt fyrir fsp. í n. þingsins og í Sþ. fékkst hæstv. ríkisstj. ekki til að taka afstöðu til málsins fyrir áramót. Það var ekki fyrr en eftir að hv. 7. þm. Reykv. flutti till. til þál. um að fela ríkisstj. að fullgilda samninginn, að ríkisstj. mannaði sig upp í að flytja þá till., sem hér er til afgreiðslu. Í fyrri umr. um hana í Sþ., aðeins fyrir tæpum tveim vikum, gekk maður undir manns hönd að fá fram stefnu ríkisstj., hvort samningurinn yrði fullgiltur fyrir 1. marz eða ekki, en án árangurs. Það var ekki fyrr en á fundi utanrmn. s. l. föstudag, að ákvörðun ríkisstj. lá fyrir, og þurfti þá að hafa hraðan á, til þess að fullgilding gæti farið fram fyrir 1. marz.

Því er þetta rifjað upp nú, að ljóst er, að í 7 mánuði, frá 22. júlí til 23. febr., gat ríkisstj. ekki tekið afstöðu til málsins, væntanlega vegna innbyrðis ósamkomulags. Talið er, að Alþb.-ráðh. vildu ekki fullgilda samninginn, en Framsóknarráðh. og ráðh. SF vildu fullgilda hann. Er því sama uppi á teningnum við afgreiðslu þessa máls og ýmissa annarra, því að ákvarðanir eru annaðhvort ekki teknar eða þá aðeins teknar á síðustu stundu.

Það er út af fyrir sig ánægjulegt til þess að vita, að Alþb.-ráðh. réðu ekki ferðinni í þessu máli eins og í flestum málum, sem núv. ríkisstj. hefur með höndum. Ætti það raunar að auka kjark annarra hæstv. ráðh. til að fylgja fremur sannfæringu sinni en skoðunum ráðh. Alþb.

Þótt fullgilding samnings okkar við Efnahagsbandalagið sé eðlileg og sjálfsögð og hafi væntanlega jákvæð áhrif á þróun efnahagsmála okkar, leggur hún okkur einnig skyldur á herðar eða réttara sagt ætti að opna augu okkar fyrir nauðsyn þess að skapa atvinnuvegunum þau skilyrði, að þeir geti notfært sér hinn aukna markað, sem nú er fyrir framleiðslu þeirra.

Hér á ég við, að gagnslítið er að opna með viðskiptasamningi markað 250 millj. manna, nema við séum samkeppnisfærir á þeim markaði. Kostnaðarverðlag okkar innanlands verður að vera í einhverju samræmi við það, sem gerist í viðskiptalöndum okkar. Samkeppnisaðstaða okkar unga íslenzka iðnaðar, útflutningsiðnaðar, var talin mjög góð, t. d. 1970 og 1971, en fór versnandi á síðasta ári. Með þeirri óðaverðbólgu, sem er fyrirsjáanleg, er því miður ekki útlit fyrir, að iðnaðurinn geti sem skyldi þrátt fyrir lækkaða tolla nýtt þá markaði, sem samningurinn við Efnahagsbandalagið á að veita betri aðgang að en áður.

Eins og kunnugt er, var launaskatti létt af fiskveiðum, og ríkisvaldið skuldbatt sig til að greiða jafnháa upphæð til útgerðarinnar að auki við ákvörðun fiskverðs um áramót. Iðnaðurinn hefur talið sig þurfa einnig á slíkum uppbótum að halda og má þá nærri geta, hvort hann er við búinn að taka á sig þær kostnaðarhækkanir, sem nú eru að skella yfir.

Það er og nauðsynlegt að minna á, að fyrrv. ríkisstj. gekkst fyrir skattalagabreytingum, til þess að atvinnufyrirtækin hér á landi byggju við sambærilega skattalöggjöf og atvinnufyrirtæki í öðrum EFTA-löndum, þegar við gengjum í EFTA. Núv. ríkisstj. hefur að vissu marki afnumið eða dregið úr þessum hagkvæmu skattabreytingum.

Ástæða er til að taka til ítarlegrar rannsóknar alla samkeppnisaðstöðu atvinnuvega okkar, bæði úlflutningsatvinnuvega, iðnaðar og sjávarútvegs, svo og þeirra atvinnuvega, sem selja vörur og þjónustu á heimsmarkaði, en þeir munu mæta aukinni samkeppni frá innflutningi eftir fullgildingu þessa viðskiptasamnings. Slíkt ætti í raun og til frambúðar að hafa þau áhrif, að viðskiptakjör landsmanna allra fari batnandi. En slík ítarleg rannsókn á samkeppnisaðstöðu atvinnuvega okkar þolir enga bið, einkum og sér í lagi vegna þess, að öll þróun undanfarin missiri bendir til þess, að sú samheppnisaðstaða hafi versnað.

Eins og kunnugt er, er einn megintilgangur Efnahagsbandalagsins og þeirra viðskiptasamninga, sem það gerir við EFTA-löndin, að stuðla að örum hagvexti, fullri atvinnu og hagkvæmri verkaskiptingu landa og þjóða á milli með því m. a. að fella tollmúra. Við væntum þess, að Efnahagsbandalagsríkin muni ekki nota þá fyrirvara að láta ekki tollalækkanir á sjávarafurðum okkar ganga í gildi, eftir að við höfum fullgat samninginn. Um það skal ég hins vegar ekki spá. Alla vega njóta iðnaðarvörur okkar tollalækkana þegar í stað, og verði bið á því, að sjávarafurðir okkar fylgi með, verður hún væntanlega stutt og helzt engin.

Samkv. samningnum er gert ráð fyrir því í 30. gr., að sameiginleg nefnd, samstarfsnefnd Íslands og Efnahagsbandalagsins, starfi að framkvæmd hans og úrlausn ýmissa mála, sem af framkvæmdinni rísa. Í þeirri samstarfsnefnd ber að leggja áherzlu á, að eðlileg verkaskipting ríki milli Íslands og Efnahagsbandalagsríkjanna.

Nú er vitað, að bæði Bretland og Vestur-Þýzkaland veita fiskveiðiatvinnuvegum sínum slíka styrki, að jafna má áhrifum þeirra við áhrif verndartolla. Ef fiskveiðar þessara landa nytu ekki þessara styrkja, væru þær ekki samkeppnisfærar við íslenzkan sjávarútveg. Þá mundu Íslendingar eðli málsins samkv. hafa það hlutverk í þeirri efnahagssamvinnu, sem öllum er fyrir beztu, að veiða og vinna fisk fyrir þennan stóra markað. Íslendingar ættu að geta unnið að því í framhaldi af fullgildingu þessa viðskiptasamnings að fá þjóðir Efnahagsbandalagsins til þess að fella niður eða draga úr þeim styrkjum og uppbótum, sem jafna má til verndartolla, að svo miklu leyti sem þannig er unnið á móti eðlilegri verkaskiptingu þjóða á milli.

Herra forseti. Þar sem tilgangur þessa viðskiptasamnings er, eins og áður segir, að stuðla að örum hagvexti og bættum lífskjörum, kann svo að vera, að ýmsir yppti e. t. v. öxlum og telji hér aðeins dæmi um tilgangslaust lífsgæðakapphlaup að ræða, eins og nú á dögum er stundum komizt að orði. Full atvinna og eðlileg verkaskipting á raunar að fylgja í kjölfarið, og sést þegar af því, að tilgangslaus er þessi samningur ekki. En samhliða treystir samningurinn og eflir þau menningarlegu, sögulegu og stjórnmálalegu tengsl, sem við höfum átt og viljum gjarnan eiga við Evrópuþjóðir. Ekki er því ofsagt, að við stöndum á mikilvægum tímamótum við fullgildingu þessa samnings. En við verðum að búa í haginn og leggja okkur fram, ef við eigum að hafa af honum gagn, eins og efni standa til. Það verða stjórnvöld, atvinnuvegir, atvinnufyrirtæki og landsmenn allir að gera sér ljóst.