26.02.1973
Sameinað þing: 49. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2093 í B-deild Alþingistíðinda. (1643)

158. mál, samningur Íslands við Efnahagsbandalag Evrópu og breytingar á stofnsamningi Fríverslunarsamtaka Evró

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Sérstök ástæða er til að fagna því, að alger samstaða náðist í utanrmn. um afgreiðslu till. um heimild til fullgildingar á samningum Íslands við Efnahagsbandalag Evrópu, Kola- og stálbandalag Evrópu og loks um samþykkt á breytingum á stofnsamningi Fríverzlunarsamtakanna.

Stofnun og þróun Efnahagsbandalags Evrópu er án efa einn mesti sögulegi viðburður okkar tíma, enda þótt hann hafi teygt sig yfir nokkurt árabil. Með þessu Efnahagsbandalagi er gerð grundvallarbreyting á málefnum vestanverðrar Evrópu, og hefur farið svo, að mörgum ríkjum hefur reynzt ærið erfitt að gera upp við sig, hvert viðhorf þeirra á að vera gagnvart bandalaginu, hvort þau eigi að gerast aðilar að því, tengjast því á annan hátt eða hafna því með öllu. Í nágrannalöndum okkar hafa þessi mál orðið með mestu deilumálum og hafa velt bæði ríkisstj. og ráðamönnum. Þarf því engan að undra, þótt mál þetta væri erfitt viðfangs fyrir okkur Íslendinga, enda hafa verið uppi um það deilur.

S. l. áratug hafði þáv. ríkisstj. forustu um að móta stefnu í þessum málum. Í stórum dráttum var hún á þá lund, að Ísland gæti ekki gerzt aðili að Efnahagsbandalaginu, en hins vegar væri lífsnauðsyn að ná einhvers konar tengslum við bandalagið, þannig að við gætum rekið við það eðlileg viðskipti og fylgzt með þeirri hagþróun, sem leiðir af starfsemi bandalagsins. Með því, sem hér gerist í dag, er í raun og veru haldið áfram þessari stefnu, og ég vil lýsa þeirri von minni, að hún verði íslenzku þjóðinni til blessunar.

Það hvílir, eins og hæstv. utanrrh. mun hafa sagt í Brüssel, nokkur skuggi yfir samningi okkar við Efnahagsbandalagið, þar sem eru deilurnar um landhelgismálin. Við erum allir sammála um að gera landhelgina ekki að verzlunarvöru og getum því einnig, vona ég, sameinazt um þá ósk, að Efnahagsbandalagið láti ekki kné fylgja kviði og noti sér ekki til hins ítrasta þá fyrirvara, sem í samningunum eru.

Ég vil minna á, að fyrr á þessu þingi flutti formaður Alþfl., hv. 7. þm. Reykv., þáltill., þar sem Alþ. var ætlað að fela ríkisstj. að fullgilda þá samninga, sem hér um ræðir. Þessi till. er efnislega hin sama og sú, sem í dag er afgreidd. og að skoðun flm. og Alþfl. hefur hún fengið fullkomlega jákvæða afgreiðslu með samþykkt á þeirri till. ríkisstj., sem nú er til umr. Tel ég það ánægjulegan árangur og þakkaverðan.

Ég ítreka, að einhugur um þetta mál er óvenjulegur og mikils virði, og ég vænti, að samstaðan innan utanrmn. reynist einnig vera í þinginu öllu.