26.02.1973
Sameinað þing: 49. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2094 í B-deild Alþingistíðinda. (1644)

158. mál, samningur Íslands við Efnahagsbandalag Evrópu og breytingar á stofnsamningi Fríverslunarsamtaka Evró

Utanrrh. (Einar Ágústsson) :

Herra forseti. Ég vil aðeins nota þetta tækifæri til að þakka hv. utanrmn. fyrir ágætt samstarf að afgreiðslu þessarar till. og fyrir það, hversu fljótt og vel nm. brugðust við að leggja til við hv. Alþ. að samþykkja till. Hefur verið bent á það hér, að samstaðan um þetta mál sé mikil og óvenjuleg, og sízt skal ég úr því draga. Ég vona, að afgreiðsla till. og staðfesting samninganna verði okkur til gæfu, og ég vil skýra frá því, að strax og utanrmn. varð sammála um afstöðu til till., gerði ég þær ráðstafanir, sem nauðsynlegar eru, til þess að hægt verði að skiptast á fullgildingarskjölum fyrir 1. marz, þannig að Íslendingar munu engum rétti tapa, þó að till. sé nokkuð seint á ferðinni.

Eins og hv. frsm. n. gerði grein fyrir, ákveður ríkisstj. þessa fullgildingu í trausti þess, að skilmálar Efnahagsbandalagssamningsins komi til framkvæmda, jafnskjótt og þeir samkv. samningnum sjálfum geta gert það. Höfum við þar auðvitað fyrst og fremst í huga, að Efnahagsbandalagið noti ekki fyrirvara um frestun á eða bann við gildistöku ákvæða um fríverzlun eða tollalækkanir á sjávarafurðum. Ég skal ekki fremur en aðrir spá um það, hvernig bandalagið afgreiðir það mál. Ég vil leyfa mér að vona fyrir hönd okkar allra og með hliðsjón af þeim samskiptum, sem við eigum eftir að eiga við Efnahagsbandalagið og ríki þess, að til þess komi ekki, að fyrirvarinn verði notaður. En erindi mitt hingað var einungis að þakka utanrmn. fyrir góða og jákvæða afgreiðslu.