26.02.1973
Efri deild: 63. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2099 í B-deild Alþingistíðinda. (1653)

172. mál, vinnslustöðvar á sviði sjávarútvegs

Alexander Stefánsson:

Herra forseti. Ég vil aðeins koma hér og lýsa því yfir, að ég tel, að þetta frv., sem hér liggur fyrir til umr., eigi fullan rétt á sér, eins og kemur fram í þeirri grg., sem lögð hefur verið fram með frv., sérstaklega hvað varðar þær veiðar, sem háðar eru aflatakmörkunum.

Ég ætla ekki að blanda mér mikið inn í umr. um málið, en það, sem kom mér til að standa hér upp, eru einmitt þær umr. og sú reynsla, sem þegar liggur fyrir í sambandi við skelfisksveiðar á Breiðafirði. Þetta mál hefur verið mjög mikið rætt vestra, og er hv. þm. eflaust kunnugt um þann ágreining, sem þar hefur komið fram, bæði í sambandi við veiðitíma, veiðimagn og veiðiaðferðir, og þá ekki hvað sízt í sambandi við þá vinnslu, sem fram hefur farið við Breiðafjörð á þessum skelfiski og raunar viðar. Ég tel, að það sé þess vegna mjög tímabært, að einhver aðili komi upp hér á landi, sem geti haft hemil á því, að þarna sé hvorki verið að ofveiða fisktegund né fjárfesta í vinnslu umfram það, sem heilbrigð skynsemi ætti að segja til um. Ég tel þess vegna, að það sé nauðsyn, að hér verði settar á hömlur, sem komi að gagni.

En þetta vekur hjá mér löngun til að ræða annað atriði í sambandi við okkar fiskiðnað og fiskveiðar, það er skort á yfirstjórn þessara mála, þegar mikið liggur við. Mér dettur í hug að nefna hér t. d. netaveiðar, þorskanetaveiðar. Sjómenn okkar, a. m. k. við Breiðafjörð, hafa oftar en einu sinni talað um nauðsyn þess, að settar séu ákveðnar tímatakmarkanir í sambandi við þessar veiðar, og staðreyndin er sú, að þorskanetaveiðar hafa verið framkvæmdar nú undanfarið á þann hátt, að bátar hefja veiðar með þorskanetum gjarnan nú orðið í byrjun jan., sem þýðir það, að þeir aðilar, sem vilja stunda línuveiðar, sem eru eðlilegri veiðar á þessu tímabili, jan.-febr., verða að hætta þessum veiðum af þeirri einföldu ástæðu, að þessi veiðarfæri, lína og þorskanet, fara ekki vel saman á sömu miðum. Ég tel, að þetta sé dæmi, sem sýnir, að þarna erum við að framkvæma hlut, sem vill verða oftast eða a. m. k. oftar til tjóns fyrir viðkomandi aðila í staðinn fyrir, ef væri hægt, að ná samkomulagi og setja reglur um, að netaveiðar ættu helzt ekki að hefjast fyrr en 1. marz eða alls ekki fyrr en 15. febr. Þá fengju útgerðarmenn tryggingu fyrir því, ef þeir hefja línuveiðar t. d. í okt., að þá fengju þeir línutímabil alveg til febrúarloka, en allir eru sammála um, að línuútgerð sé hagkvæmust á þessu tímabili.

Ég vildi aðeins varpa þessu hér fram vegna þess, að ég tel, að það sé tímabært, þegar sú staðreynd liggur fyrir, að við þurfum að hagnýta betur okkar veiðisvæði og þær fisktegundir, sem við veiðum, bæði hvað snertir veiðarnar sjálfar og eins í sambandi við úrvinnsluna, að við gefum því gaum í alvöru, að þarna þarf að setja vissar takmarkanir. En mér virðist eftir þeirri reynslu, sem ég tel mig hafa kynnzt í þessum málum, að það skorti mjög á, að sá aðili, sem helzt ætti þarna um að fjalla, þ. e. a. s. sjútvrn. með öllum þeim stofnunum, sem heyra undir það, taki rétt og skynsamlega á málum hvað þetta varðar.