26.02.1973
Neðri deild: 57. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2113 í B-deild Alþingistíðinda. (1658)

146. mál, skólakerfi

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Þegar þessi mál voru hér til meðferðar fyrir tveimur árum, hygg ég, í nokkuð öðrum búningi að vísu en þau eru nú, sagði ég um þau nokkur orð og lýsti yfir stuðningi við þá meginstefnu frv. að lengja skólaskyldu um eitt ár og ýmis fleiri atriði, sem í frv. voru. Ég lét jafnframt í ljós, að mér sýndist þurfa að skoða mjög gaumgæfilega mörg þau ákvæði frv., sem lytu að framkvæmd þessarar meginstefnu, einkum í dreifbýlinu, og sér í lagi þyrfti að skoða, hvaða breytingar þyrftu að verða á frv. til þess að það reyndist framkvæmanlegt að koma lengri skólaskyldu á í reynd alls staðar á landinu. Enn fremur benti ég á nokkur önnur atriði, sem þyrfti líka að taka sérstaklega til skoðunar, einkum það að ætla nemendum ekki lengri vinnutíma en fullorðnu fólki, og þau nýju viðhorf, sem uppi væru í því tilliti í þjóðfélaginu og breytt væru frá því, sem áður var, t. d. möguleika manna til heimanáms og annað því líkt. Setti ég fram sem meginsjónarmið í því sambandi, að námið væri vinna og yrði að koma því þannig fyrir, að unga fólkið gæti lokið náminu á eðlilegum vinnutíma á hverjum degi. Það yrði að vera meginstefnan, ef vel ætti að fara, en eins og þetta væri nú, væru þessi mál stödd í hinu versta öngþveiti að þessu leyti til og ástandið beinlínis hættulegt.

Nú eru þessi frv. komin hér fram á nýjan leik, og ég vil endurtaka það, sem ég sagði þá um einn meginþátt þeirra, þ. e. a. s. lengingu skólaskyldunnar, að ég er henni meðmæltur. Ég lít á það sem réttarbót fyrir börn og unglinga, að skólaskyldunni sé breytt á þessa lund, eins og nú er komið málum. Sérstaklega lít ég á þetta sem réttarbót fyrir börn og unglinga dreifbýlisins.

Mér sýnist við nú vera stödd á þeim tímamótum, að það sé aðeins um tvennt að ræða í sambandi við menntun barnanna og unglinganna, sér í lagi í strjálbýlinu: annað hvort að beygja sig fyrir því, að þau verði að læra minna en önnur börn, — það sé önnur leiðin, — eða manna sig upp og drífa inn í löggjöfina og inn í ríkiskerfið þann stuðning, sem nægir til þess, að þessi börn geti haft skilyrði til sams konar menntunar og þau, sem í þéttbýlinu búa. Síðari leiðina vil ég hiklaust fara.

Ég vil ekki beygja mig fyrir því, að það þurfi að vera svo um aldur og ævi, að strjálbýlisbörn og unglingar hafi mun lakari aðstöðu en þéttbýlisbörnin til að afla sér menntunar. En um það er ekkert að villast, að enginn maður býr við jafnrétti í þjóðfélaginu, eins og nú er komið, nema sá, sem hefur aðgang að skólum og aðgang að uppfræðslu, eins og almennt gerist.

Mér skilst það liggi fyrir, að á þéttbýlissvæðum í landinu sé skólasókn í 3. bekk, sem nú er kallaður, í miðskóla um 90% allra barna í vissum árgöngum, en aftur á móti víða í strjálbýlum landshlutum fari sóknin niður í 70%. Þetta er áreiðanlega ekki vegna þess, að börn í strjálbýli séu ekki jafn námfús og börn í þéttbýli, og því síður að það sé eðlilegt, ef allt væri fullkomlega með felldu, að þau geti ekki sótt nám til jafns við hin. Hér er um aðstöðumun að ræða alveg tvímælalaust. Það eru kostnaðaratriði og önnur aðstaða, sem koma þarna til greina, og eins og ég sagði áðan, vil ég ganga í þetta mál þannig, að þjóðfélagið taki hreinlega að sér að leysa kostnaðarhlið þessara mála. Það verður að taka á sig að leysa kostnaðarhlið þessara mála, þannig að þau atriði þurfi ekki að standa í vegi fyrir því, að dreifbýlisbörn geti stundað nám til jafns við hin. Þetta hygg ég, að sé aðalatriðið, að kljúfa þann kostnað, sem því er samfara, að skólaskylda geti komizt í framkvæmd alls staðar á landinu, einnig ýmis tilhögunaratriði, svo sem að haga náminu þannig, að dreifbýlisbörnin geti komið því við að stunda það, og fleiri þess konar atriði,

Mér er sérstök ánægja að lýsa þeirri skoðun minni, að mér sýnist, að einmitt þessi frv. í hinni nýju mynd, sem nú er á þau komin, gangi mjög langt til móts við þetta sjónarmið. Það hafa verið sett inn í þessi frv. mörg ákvæði, sem einmitt miða að þessu, en mér fannst það galli á frv., eins og þau voru lögð fram fyrst, að þó að í þeim væri stefnuyfirlýsing um það, að allir skyldu njóta jafnréttis í þessu, þá vantaði útfærsluna á því, hvernig því yrði komið í framkvæmd.

Nú eru í þessum frv. mörg ákvæði, sem lúta að þessu, bæði varðandi tilhögun námsins í dreifbýlinu, að gera þægilegra en áður að koma því í framkvæmd, og eins varðandi greiðslu skólakostnaðar fyrir smærri skólahéruðin, og svo er komið hér inn raunhæft ákvæði um það í 9. gr., að þegar um, er að ræða vandkvæði vegna fjárskorts, þá skuli ríkið hlaupa undir bagga til þess að greiða sjálfan kostnaðinn fyrir nemandann eða heimili hans.

Nú má vel vera, að þessi ákvæði þurfi að verða enn skýrari og fleiri og eitthvað öðruvísi en gert er ráð fyrir í þessum frv. Það vil ég ekki fara út í nú. Ég vil ekki fara að eyða tíma manna hér við 1. umr. þessa máls við að rekja það, hver þessi ákvæði eru, sem bætt hefur verið inn f. Hæstv. ráðh. gat í sinni framsöguræðu um ýmis kjaraákvæði og raunar mörg af þeim ákvæðum, sem þarna koma til, bæði varðandi árlegan námstíma, greiðslu á kostnaði við skóla o. s. frv. Þetta þarf að sjálfsögðu að skoða nánar í þeirri n., sem fær málið til meðferðar, og ganga í að bæta úr því, sem hæta þarf. Meginstefnu frv. er ég samþykkur, sem sé þeirri að lengja, eins og nú er komið málum, skyldunámið um eitt ár og þjóðfélagið leggi fram þá fjármuni, sem þarf, til þess að hægt sé að koma þessu sómasamlega í framkvæmd um allt landið og jafna aðstöðumuninn. Þegar þannig er gengið frá þessu, tel ég hér vera um stórfellda réttarbót að ræða, ekki sízt fyrir börn og unglinga dreifbýlisins.

Þýðingarmikið mál er að gera námsbrautina einfaldari og auðrataðri en hún er nú. Það er mikill liður í þessu nýja kerfi, eins og það er hugsað. Nú eru ótal vegamót og erfitt að átta sig á þeim, en í frv. er gert ráð fyrir því, að vegamótin verði við lok skyldunámsins og því komi brautir í ýmsar áttir í framhaldsnámi. Þegar menn komi á þessi vegamót, fari þeir inn á þá braut, sem þeir vilji eða hafi aðstöðu til, og þar verði ekkert bil á milli, Menn geti gengið leiðina áfram í stað þess, að nú er þetta allt saman ákaflega mikil flækja og raunar erfitt fyrir unga fólkið að átta sig á því, hvernig það á að rata inn í næsta skóla. En nú á þetta að verða tiltölulega einfalt.

Það kemur svo til athugunar og verður að gera sér ljóst, að það skortir mikið á, að þessar framhaldsnámsbrautir séu allar nægilega vel tilbúnar, — það vitum við, — og í það verður að ganga í beinu framhaldi af þessu máli að endurskoða framhaldsskólakerfið. Þar eru áreiðanlega margir veikir punktar í. Það þarf t. d. að stórefla tækniskólana, tækninámsbrautirnar og verknámsskólana. Við þurfum líka viðskiptaskóla eða verzlunarskóla fleiri en við höfum núna, og þannig mætti lengi telja. En það verður ekki allt gert sama daginn.

Maður verður að vonast eftir því, að það verði gengið hart fram í því að endurskoða framhaldsnámskerfið og kannske ekki sízt í að efla þá framhaldsskóla, sem búið er að koma upp á tæknilegum sviðum, en á því er mikill misbrestur. Sumir af þeim skólum í tæknilegum efnum, sem upp hefur verið komið, búa við mikla sveltu og mikil vandkvæði, og skal ég ekki lýsa því hér, en þar á verður að gerast veruleg breyting. Það er ágætt og nauðsynlegt að hlynna að háskólanum og hefur verið gert með miklum krafti, en manni finnst að ýmsir tækniskólar og verklegir skólar hafi orðið mjög útundan.

Vegna þeirra, sem kvíða aukningu skyldunámsins, vil ég segja, að sérstök ástæða er til að leggja áherzlu á, að ráðgert er, að það verði námsgreinaval tvö síðustu árin í skyldunáminu. Ég held, að ef þarna væri skynsamlega að farið, mætti greiða mjög mikið fyrir verklegu námi og fyrir atvinnulífinu með því að hafa þessa greiningu skynsamlega á þessum tveimur efstu stigum skyldunámsins, búa til eins konar námsbrautir innan skyldunámsins, sem gætu létt mönnum mikið að fara í framhaldsskóla á verklegum sviðum. Það er enginn vafi á því, að einn veikasti hlekkurinn í okkar menntakerfi er einmitt þessi, að við höfum of fáar námsbrautir, sem leiða menn alveg beina leið inn í atvinnulífið, á þá staði, þar sem vantar fólk. Það eru ákaflega fáar atvinnugreinar, sem hægt er að stunda án þess að hafa einhverja skólaþekkingu. Hvers vegna þá ekki að drífa sig í að lengja skyldunámið um eitt ár og setja inn á skyldunámsstigið eitthvað af því hagnýta námi, sem menn þurfa að eiga kost á, sem sé að raða praktískt námsefni í skólana? Ég tel því, að nú eigi að lengja skyldunámið um eitt ár og koma því praktískt fyrir og reiða ótæpilega fram úr opinberum sjóðum þann kostnað, sem þarf til þess, að dreifbýlisfólkið geti notfært sér þessa menntun, en beygja sig alls ekki fyrir þeirri hugsun, að þar þurfi að vera annars flokks fólk, að því er skólanám varðar. Menn ættu að leggja orku sína í að finna leiðir til að greiða fyrir þessu fólki og gefa því kost á námi til jafns við aðra. Ef mönnum finnst þessum frv. áfátt í því tilliti, sem vel má vera, að sé, þá þarf að bæta þau. Það má vel vera, þótt þessi frv. séu betri en þau, sem áður voru lögð hér fram fyrir tveimur árum um þetta efni, þá skorti enn nokkuð á og kannske verulega.

Mér finnst til bóta að dreifa stjórnkerfi skólanna og færa það út um land.

Ég fagna alveg sérstaklega 25. gr. í þessu frv. um grunnskóla. Ákvæði hennar eru frá mínu sjónarmiði séð yfirlýsing um alveg nýja stefnu í skólamálum. Þar er viðurkennt, að námið er vinna, og það á að gera skólana að vinnustöðum. Það á að vera stefnan. Það er auðvitað engin glóra í því, að nemendur eigi t. d. að vinna svo að segja hvert einasta kvöld heima hjá sér, allan daginn fyrst og síðan á kvöldin, en fullorðna fólkið eigi að vinna einungis á daginn o. s. frv.

Í þessu efni þarf að innleiða alveg ný viðhorf. Ég held, að það sé kannske fáum ljósara en mér, að þó að þessi frv. verði samþ., þá kemst ekki allt í það horf, sem ráðgert er í frv., á morgun eða hinn daginn, enda gert ráð fyrir því, ef ég skil þetta rétt, að það sé allt að 10 ára aðlögunartími til þess að koma stefnu frv. í framkvæmd, og ég efast ekkert um, að það þarf mörg ár til þess. En ég held, að menn komizt heldur aldrei að því marki, sem þarna er sett, nema menn setji sér það og setji það í lög og reyni síðan að vinna að því ár frá ári að koma lögunum í framkvæmd.

Ég skal svo ekki tefja meira tímann. Ég vil gjarnan eiga þátt í því að leggja fram vinnu í menntmn. til þess að fást við þessi frv., og skal ekki standa á mér við það. Að sjálfsögðu er mikil vinna við þetta að eiga, eins og allir hv. þm. skilja. Auðvitað væri mjög æskilegt, að það reyndist hægt að gera þessi frv. að lögum á þessu þingi.

Ég vil að lokum segja, að ég álít, að það sé mjög til fyrirmyndar að mörgu leyti, hvernig unnið hefur verið að undirbúningi þessa máls, og síðasti spretturinn, sem tekinn hefur verið, sé mjög athyglisverður og þakkarverður, t. d. öll sú mikla kynning, sem höfð hefur verið á þessu máli út um allt land. Þetta er dálítið óvenjulegt og mjög ánægjulegt og að mörgu leyti til mikillar fyrirmyndar. Það er búið að fá umsögn mjög margra um þetta mál, óvenjulega margra, og það hefur stórkostlega þýðingu fyrir málið.