26.02.1973
Neðri deild: 57. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2123 í B-deild Alþingistíðinda. (1660)

146. mál, skólakerfi

Svava Jakobsdóttir:

Herra forseti. Þar sem ég á sæti í n. þeirri, sem kemur til með að fjalla um þetta frv., ætla ég ekki að verja hér löngum tíma til þess að fara í einstök atriði eða einstök ákvæði þess. Ég vil aðeins gera að umræðuefni nú við 1. umr. atriði, sem varða megin stefnu frv., þ. e. a. s. lengingu skólaskyldu og önnur ákvæði, sem stuðla að því að uppræta misrétti í félagslegri aðstöðu nemenda. Þeirri megin stefnu er ég í öllum atriðum samþykk. Í því sambandi vil ég þó vekja athygli á ýmsum atriðum, sem ég hefði gjarnan viljað, að þm. athuguðu nánar og tækju afstöðu til, — atriðum, sem varða í rauninni vinnubrögð í skólum og skólaandann.

Þá er þar fyrst til að taka, að mér virðist frv. hafa batnað í meðförum endurskoðunarnefndar. Það er gleggra og skipulegra og auðveldara að átta sig á því efnislega. Þau atriði, sem bættust inn í frv. við endurskoðunina, sýnast mér líka til bóta. Mörg þeirra eru í samræmi við viðhorf og hugmyndir nútímans, sem sjálfsagt og eðlilegt var, að kæmu inn í nýja grunnskólalöggjöf. Þó hefur mér virzt erfitt að átta mig á sumum atriðum, og ég held, að aðalmeinsemdin felist í því, að þessi nýju viðhorf sum hver ná ekki almennilegri fótfestu í frv. Það er eins og þau reki sig á gamlan grunn, sem menn hafi ekki fyllilega treyst sér til atlögu við. Mér virðist það t. d. ekki í samræmi við 1. málsl. markmiðsgr., 2. gr. frv., að gera ekki ráð fyrir aðild nemenda og foreldra að stjórn skólanna. Til þess að geta búið nemendur undir líf og starf í lýðræðisþjóðfélagi hlýtur að þurfa að byrja á því, sem nærtækast er, þeirra eigin samfélagi. Ef á að taka mark á yfirlýsingunni um lýðræðislegt samstarf, eins og stendur í gr., lýðræðislegt samstarf í skólum, þá hlýtur slíkt að þurfa að ná til allra þátta þess. Að öðrum kosti gefum við nemendum ranga hugmynd um inntak orðsins „lýðræði“.

Ákvæði eru í frv. um stofnun foreldrafélaga og nemendaráða, en n. virðist ekki hafa treyst sér til þess að ákveða þessum ráðum fast hlutverk eða aðild að stjórn skólanna. Foreldrafélaginu er ætlað að fylgjast með skólastarfinu, eins og það er orðað, en nemendaráðum er ætlað að vera skólastjóra og kennararáði til aðstoðar og ráðuneytis um málefni nemenda. Við höfum hér á Alþ. sett lög um skóla, þar sem nemendum er veittur réttur til að hafa fulltrúa í stjórn skólanna. Við höfum gert það í þeirri trú, að við værum að stuðla að auknu lýðræði og betri anda innan skólanna, ef nemendur fengju að tjá sig um eigin málefni á jafnréttisgrundvelli. Það er engin ástæða til að meina nemendum í grunnskóla þessa sama réttar til að hafa áhrif á eigin kjör, nema við viljum halda því fram, að menn hafi ekki vit á því, hvernig þeim líður, fyrr en þeir eru komnir undir tvítugt. Ef nemendur geta verið skólastjóra og kennararáði til aðstoðar og ráðuneytis um málefni sín, eins og frv. gerir ráð fyrir, þá ættu þeir líka að geta greitt atkv. um þessi sömu málefni. Framlag nemenda í grunnskóla yrði sjálfsagt af nokkuð öðrum toga en framlag eldri nemenda, t. d. í stýrimannaskóla eða háskóla, en í eðli sínu væri þetta hið sama og tilgangurinn hinn sami. Menn fá nokkru ráðið um aðstöðu sína og kannske von til þess, að þeir fái bætt úr því, sem þeim kann að þykja aðfinnsluvert í skólanum. Sömu rök má færa fyrir því, að fulltrúar foreldrafélagi fái rétt til setu eða hafi atkvæðisrétt um stjórnunaratriði skóla, og vil ég í þessu sambandi leggja sérstaka áherzlu á nauðsyn þess, að svo verði í heimavistarskólum. Verði þetta frv. að lögum og komist í framkvæmd, munu nemendur verja geysimiklum tíma innan skólaveggja eða við starfsemi á vegum skólans allt til 16 ára aldurs og því mikils um vert, að vel takist til í þessum efnum. Mér er kunnugt um, að margir ágætir skólamenn og kennarar eru sama sinnis og ég í þessu efni. Þá á skólinn samkv. 2. gr. að þjálfa hæfni nemenda til samstarfs við aðra. Þó virðast menn því miður ekki hafa treyst sér til þess að ákveða, á hvern hátt það skuli gert, a. m. k. hef ég ekkert fundið í frv., sem gefi vísbendingu um það.

Í 43. gr. er tekið fram, að kveða skuli nánar á um uppeldishlutverk skólans í reglugerð, en engin vísbending gefin um, með hvaða hætti það uppeldi eigi að fara fram. Stefnuyfirlýsing í markmiðsgrein eins og 2. gr. felur ætíð í sér hugtök, sem hætta er á, að hver túlki huglægt, og er að mínu viti nauðsynlegt að ákvarða í lögum einhver atriði þessa uppeldishlutverks og hversu það skuli koma fram í kennslunni, engu síður en ákvarða námsefnið sjálft, svo sem gert er í liðum a-j í 43. gr. Það hefði að mínu viti þurft að tryggja með reglugerðarákvæði, t. d. að félagslegum vinnubrögðum ætti að beita í sjálfu náminu.

Í frv. er enn fremur viðurkennt, að félagsstarf skuli vera sjálfsagður liður í grunnskólastarfi, og ætti að vera tryggt, að enginn skóli þurfi að vanrækja þann lið skólastarfsins sakir féleysis. Ákvæði 44. gr. er því mikil framför frá því, sem nú er. En þó finnst mér sem n. hafi ekki heldur hér stigið skrefið til fulls, og er ég enn með markmiðsgr. í huga. Eftir sem áður er það komið undir frumkvæði nemandans og skólastjórnar, hvernig til tekst um félagslíf. Það vill, sem kunnugt er, mjög skiptast í tvö horn um nemendur, hvort þeir taka þátt í félagsstarfi eða ekki. Sumir koma sér aldrei að því sakir feimni, uppburðarleysis eða kannske ámyndaðs kunnáttuleysis. Þessum nemendum þarf að hjálpa áleiðis til samskipta við aðra, koma þeim til að tjá sig um ýmis málefni o. s. frv. Því kemur mér í hug, hvort ekki væri rétt að gera beinlínis að skyldu leiðbeiningu í félagsstarfi. Þetta mætti gera með ýmsu móti, en aðalinntak þessara kennslustunda yrði að virkja hvern einasta nemanda til þátttöku, hvort sem það yrði gert í formi málfunda um tiltekin atriði eða frjálsra stunda, svo sem dæmi munu vera til um í sumum skólum. Þessu hef ég viljað varpa fram til athugunar, ef ske kynni, að eitthvað yrði ljósara um það, hverjar menn hygðu skyldur skólans á uppeldislegu sviði. Og þau atriði, sem ég hef talið hér upp til breytinga, ætti að vera unnt að framkvæma, án þess að kostnaðarauki verði.

Ég hefði viljað, að ákveðnari afstaða hefði verið tekin gegn tví- og þrísetningu skóla. Þegar sú krafa hefur verið borin fram af almenningi, að allir skólar verði einsetnir, hefur því verið borið við, að skólahúsnæði leyfði ekki slíkt. Mér kemur því nokkuð spánskt fyrir sjónir, að þegar samþykkja á ný grunnskólalög, að ekki virðist gert ráð fyrir, að breyta eigi til á þessu sviði. Að vísu er ákvæði í 25. gr. um aðstöðu nemenda í skólanum — mjög mikilvægt ákvæði og stórt skref í átt til félagslegs réttlætis. En í reynd er hlutverk þess svipað og hlutverk skóladagheimila. Sízt vil ég draga úr mikilvægi þess, að skólar verði jafnframt heimili í því skyni, að menn hafi þar aðstöðu til þess að læra til næsta dags. En einmitt þetta orðalag, að menn skuli „búa sig undir kennslustundir næsta dags“, gefur í skyn, að hér sé ekki hugsað til breytinga á kennsluháttum á þann veg, að allt námið skuli fara fram í kennslustund. Það orðalag hefði ég frekar viljað taka upp, og það væri fróðlegt að heyra álit hæstv. ráðh. á, hvað muni hafa valdið, að ekki skuli vera ætlunin að breyta til í þessu efni. En hvort sem sú breyting yrði framkvæmanleg eða ekki, hefði ég talið rétt að kveða skýlaust á um það í þessari gr., að við gerð nýs kennsluhúsnæðis skuli vera aðstaða til framreiðslu matar fyrir nemendur. Að öðrum kosti kemur þetta ekki nema að hálfu gagni.

Þau atriði, sem ég hef hér gert að umræðuefni, varða framkvæmd stefnunnar, sem mér virðist frv. ætlað að marka, án þess þó að mér finnist það koma nægilega skýrt fram.

Ég vil enn fremur fagna ákvæðinu í frv. til l. um skólakerfi, ákvæði 7. gr. um jafnrétti. Þó er ég ekki heldur nógu ánægð með orðalagið þar. 7. gr. hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Í öllu starfi skóla skal þess gætt, að konur njóti jafnréttis við karla í hvívetna, jafnt kennarar sem nemendur.“

Ég verð í þessu efni að taka upp hanzkann fyrir karla. Ég held, að það verði að tryggja, að þeir njóti jafnréttis við konur líka, og hef ég þar sérstaklega matreiðslukennsluna í huga. Ég skil þessa gr. svo og vil ekki skilja hana öðruvísi en allt nám í heimilisstjórn eða heimilisfræðum, sem er á annað borð skylda, sé skylda fyrir bæði kynin. Ég er ekki samþykk því, sem kemur fram í grg., að jafnrétti felist í því, að öðru kyninu sé ekki bægt frá því, sem hinu er skylda. (Menntmrh.: Ég mætti kannske leyfa mér að leiðrétta. Þarna er um misskilning að ræða. Orðalagi 7. gr. hefur verið breytt, síðan því plaggi var dreift, sem þm. hefur undir höndum.) Nú, ég þakka ráðh, fyrir. Orðalaginu hefur verið breytt, upplýsir ráðh. og hljóðar nú svona:

„Í öllu starfi skóla skal þess gætt, að konur og karlar njóti jafnréttis í hvívetna, jafnt kennarar sem nemendur.“

Það er ekki oft, sem menn fá óskir sínar uppfylltar á stundinni.

Lengingu skólaskyldu og árlegs námstíma er ég hlynnt. Að vísu hefur n. komið til móts við þá aðila, sem hafa gagnrýnt lengingu árlegs námstíma, á þann veg, að menntmrn. getur samkv. frv. heimilað styttingu árlegs starfstíma grunnskóla allt niður í 7 m. fyrir yngstu börnin og niður í 8½ fyrir tvo elztu árgangana. Eðlilegt er að forðast í lengstu lög að senda yngstu börn dreifbýlisins í heimavistarskóla, en mér virðist grunnskólafrv. gera ráð fyrir tveim leiðum til að leysa sérstaklega vandann í erfiðustu skólahéruðunum. Er þar fyrst að nefna heimild 4. gr. til þess að koma á fót útibúum frá aðalskóla skólahverfis fyrir 7–8 ára börn, þar sem heimanakstri til aðalskóla verður ekki við komið. Í öðru lagi er rn. heimilað, ef skólanefnd æskir þess, að koma á fót sumarskóla. sem gæti fullnægt fjórðungi kennslunnar fyrir börn í l.–3. árgangi. Það er sannarlega ástæða til þess að hvetja rn. og skólanefndir til þess að nota þessar heimildargr. og koma því á fót sem fyrst. Það er að mínu viti ábyrgðarhluti af hálfu samfélagsins að svipta barn þeirri reynslu og þroska, sem hlýzt af lestri og námi á því aldursskeiði, sem fróðleiksfýsn þess og áhugi á bókum er kannske einna sterkastur.

Ég veit ekki betur en í þéttbýli sé námstíminn orðinn svo langur víðast hvar sem frv. gerir ráð fyrir. En mér þótti viðhorf hv., síðasta ræðumanns til þessa máls vera nokkuð rómantískt. Við, sem höfum reynslu af því, hvernig er að koma börnum á aldrinum 7–16 ára út úr bænum, — ég vil vekja athygli á því, að hér er um börn að ræða, börn og unglinga, vitum það ósköp vel, að þrátt fyrir allar frómar óskir um, að þau fái að kynnast sveitalífinu og eigi því að vera skemur í skóla, þá er þetta engan veginn framkvæmanlegt. Það eru einfaldlega ekki nóg sveitaheimili til. Og þó að ég vilji sízt af öllu rýra viðleitni sveitarfélaga og kaupstaða, sem hafa skipulagt sumarstarfsemi fyrir þessi börn og unglinga, er það ekkert launungarmál, að þessir vinnuflokkar eru skipulagðir til þess, að unglingarnir hafi eitthvað fyrir stafni. Fæstir unglingar innan 16 ára aldurs komast í byggingarvinnu eða áþekk störf eða til starfa í framleiðslugreinum yfirleitt, þar sem unnið er við hlið fullorðinna. Stórvirkar vinnuvélar koma nú á æ fleiri sviðum í stað hinna fjölmennu vinnuflokka, og þá eru, eins og menn vita, unglingarnir látnir víkja.

Ég tek eindregið afstöðu, eins og ég hef sagt áður, til lengingar skólaskyldu. Hæstv. ráðh. fór um það þeim orðum í framsöguræðu sinni, að ég tel ekki ástæðu til að endurtaka það. En ég hygg þó, að það sé nauðsynlegt, að við reynum að knýja fram einhvers konar upplýsingar um þá unglinga, sem hafa fram að þessu hætt námi 15 ára gamlir. Hvar eru þessi 18% og þá sérstaklega þeir, sem ekki eru úr strjálbýlinu? N. hefur dálítið hrakizt undan með þetta ákvæði. Hún hefur á síðustu stundu bætt því inn í frv., að unglingum sé heimilt að taka sér ársfrí úr skóla, ef þeir stundi vinnu, sem geti talizt þeim til tekna í valgrein. Ég ætla á þessu stigi málsins ekki að taka afstöðu til þess, hvort þetta er heppilegt eða ekki. Það kann að vera, að það reynist vel. En það kann líka að fara svo ef unglingur kann illa við sig í skóla og fer þess vegna út í atvinnulífið, að hann eigi enn verr með að snúa aftur að ári liðnu. Það hefur heyrzt, m. a. hér í þingsölum, að það sé óheppilegt að lengja skólaárið vegna unglinga, sem haldnir séu námsleiða, eða unglinga, sem til vandræða séu í skólum, þeir séu betur komnir til sjós eða uppi í sveit, eins og það hefur verið orðað. Mér hefur alltaf þótt þetta mjög undarleg afstaða. Ég hef alltaf litið svo á, að togarar og sláttuvélar væru atvinnutæki, ekki uppeldisleikföng. Og enda þótt við þykjumst hafa tekið eftir því, að engum unglingi sé alls varnað og hann geti þrátt fyrir allt orðið nýtur starfsmaður, — ef við þá fréttum nokkurn tíma af honum aftur, þá er ekki þar með sagt, að hann hefði ekki getað orðið góður skólaþegn, ef honum hefði verið boðið upp á betri skóla og meiri hjálp. Það er hlutverk skólans að leita orsaka örðugleikanna og reyna að ráða bót á þeim. Sé það ekki gert, meðan unglingurinn er í skólanum, þá er sannarlega erfiðara um vik að hjálpa honum, þegar hann er horfinn út í atvinnulífið. Og ég geri ráð fyrir, að það hljóti að vera sjónarmið flestra foreldra, að þeir kjósi heldur, að þeir aðilar séu til á vegum skólans, sem hjálpi unglingnum, ef hann á í erfiðleikum, fremur en missa hann út í misjöfn veður, ef svo mætti að orði komast.

Til styrktar máli mínu um lengingu skólaskyldu vil ég vekja athygli á hefti af Menntamálum með grein eftir Sveinbjörn Björnsson eðlisfræðing. Að vísu er greinin skrifuð árið 1966, en mér er tjáð af kunnugum, að niðurstöður hennar séu enn í fullu gildi. Í greininni gerir Sveinbjörn grein fyrir niðurstöðum af rannsókn, sem hann gerði að beiðni þáv. skólastjóra Tækniskólans um samanburð á námi í dönskum, norskum og íslenzkum unglinga- og gagnfræðaskólum. Ályktun af niðurstöðu rannsóknarinnar var í stuttu máli sú, að mikið skorti á, að nám íslenzkra unglinga í stærðfræði, eðlisfræði og efnafræði væri jafngilt námi á sambærilegu aldursstigi í Danmörku og Noregi. En það kemur kannske líka okkur Íslendingum á óvart, að þetta gildir ekki aðeins um raungreinar, heldur einnig um erlend tungumál. Raunin virðist vera sú, að við höfum vanrækt undirstöðumenntunina. Þetta kemur ekki aðeins niður á framhaldsskólunum, menntaskólum og sérskólum, sem taka við, heldur líka á þeim einstaklingum, sem halda ekki lengra en út skylduna.