26.02.1973
Neðri deild: 57. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2128 í B-deild Alþingistíðinda. (1661)

146. mál, skólakerfi

Ingvar Gíslason:

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. menntmrh. fyrir ágæta inngangsræðu hér, og ég sé enga ástæðu til þess að lengja þetta mál ákaflega mikið. En í þessum fáu orðum mínum mun ég, eins og aðrir ræðumenn, fyrst og fremst víkja að grunnskólafrv. Það er ekki fyrir það, að frv. um skólakerfi sé ekki mikilvægt, því að þar er að finna útlínur og umgerð hins samræmda skólakerfis og auk þess grundvallarákvæðin um skólaskyldu, sem nú er fyrirhugað að lengja um eitt ár.

Í fljótu bragði kem ég ekki auga á, að ástæða sé til aths. um meginatriði skólakerfisfrv., þar sem gert er ráð fyrir þremur stigum hins samræmda og samfellda skólakerfis, þ. e. a. s., eins og það er kallað, skyldunámsstigi, framhaldsskólastigi og háskólastigi. Mér sýnist þetta vera mjög einföld og eðlileg umgerð. Hins vegar er ástæða til þess að minna á það nú, að það er nauðsynlegt, að menn rígskorði ekki menntunarmöguleika fólksins við þess háttar umgerð. Jafnframt því, sem við festum í sessi samræmt og samfellt skólakerfi, þar sem eitt stigið tekur við af öðru, tel ég mikla nauðsyn á því, að Alþ. hafi opin augu fyrir fræðslustarfsemi utan þessa kerfis. Og ég nefni þá alveg sérstaklega lýðskóla, óháða lýðskóla, og fræðslustofnanir í þágu fullorðinna.

Hér eru til umr. tvö frv., frv. til l. um skólakerfi og frv. til l. um grunnskóla, og þessi frv. eru rædd hér samtímis. Eins og áður er fram komið og sjálfsagt er að minnast, eru þessi frv. að meginstofni og grundvallarhugsun hin sömu sem fyrrv. menntmrh. lagði fyrir Alþ. á þinginu 1970–1971, og það er eðlilegt, að þessi frv. fylgist að og séu rædd samtímis. Frv., sem lögð voru fram hér á þinginu 1970, voru ávöxtur allumfangsmikils nefndarstarfs undir formennsku ráðuneytisstjórans í menntmrn. Frv. báru þá þegar með sér greinilega viðleitni til þess að aðlaga skólakerfið breyttum tíma, og það gat ekki dulizt, að höfundar frv. höfðu tileinkað sér viðhorf, sem mótazt höfðu á undanförnum árum, um ýmsar endurbætur og nýskipan skólamála. Því var það, að í frv. til l. um grunnskóla voru ýmis mjög athyglisverð nýmæli, sem skólamenn og áhugamenn um skólamál höfðu ástæðu til að fagna. Ég nefni t. d. ákvæðin um ráðgjafar- og sálfræðiþjónustu, um skólarannsóknir og eflingu skólabókasafna.

En almennt veittu menn meiri athygli öðrum ákvæðum grunnskólafrv., og ég nefni tvennt, lengingu skólaskyldu um eitt ár og lengingu hins árlega starfstíma skólanna. Um þessi atriði fyrst og fremst var rætt manna á meðal úti um land, og þau ollu talsverðum deilum. Þessar breytingar, þ. e. a. s. lenging skólaskyldu og lenging árlegs starfstíma skólanna, snertu í raun og veru fyrst og fremst sveitafólkið í landinu og íbúa hinna ýmsu smærri þorpa, þ. e. a. s. fólkið í hinum dreifðu byggðum landsins, í sveit og við sjó. Í öllum stærri þéttbýlisstöðum mátti segja, að skólaganga barna og unglinga væri í reynd 9 ár, þ. e. a. s. frá 7 ára aldri til 16 ára aldurs, og skólaárið væri nokkuð langt og samfellt. Í sveitum og þorpum horfði málið öðruvísi við. Skólaganga barna var þar að vísu eitthvað misjöfn, en miklu fleiri hættu námi við 14–15 ára aldur en í kaupstöðum, og árlegur skólatími hvers barns var oft aðeins brot af því, sem gerðist í kaupstaðaskólum. Þannig var í reynd mikill munur á skólagöngu sveitabarna og kaupstaðabarna, hvað raunverulega skólasetu snerti.

Frv. um grunnskóla frá 1970 gekk mjög ákveðið út frá því snjóarmiði, að þessum skólagöngumismun skyldi eytt þannig, að öll börn, hvort sem væri í sveit eða kaupstað, skyldu vera í skóla jafnlengi, bæði hvað snertir árafjölda og mánaðafjölda á ári. Í frv. var ákveðið stefnt að því að lengja skólagöngu sveitabarna og gera hana jafna því, sem þegar var orðið í kaupstöðunum. Mismunandi skólaganga eftir búsetu skyldi hverfa. En í ljós kom, að þessi afdráttarlausa stefna átti andbyr að mæta, og þessi andbyr kom frá sveitafólkinu sjálfu. Það var ekki andstaða gegn þeirri lýðræðislegu grundvallarhugsun frv., að aðstaða til skólagöngu yrði jöfnuð. Undir þá stefnu munu allir taka. En sveitafólkið benti á hina margvíslegu örðugleika, sem á því eru að gera skólastarf í sveit og kaupstað að öllu leyti eins í framkvæmd, þótt annars sé gengið út frá sömu grundvallarforsendu um lýðræðislegt skólakerfi. Sveitafólkið benti m. a. á þá staðreynd, að við íslenzkar aðstæður er óhjákvæmilegt að vista mikinn fjölda barna og unglinga að heiman vegna skólanáms. Það verður ekki hjá því komizt að senda börnin að heiman meira og minna. Foreldrar verða að sjá af börnum sínum og börnin verða að sjá af foreldrum sínum. Hér er um að ræða mannlegt og tilfinningalegt vandamál, sem varla er hægt að láta kyrrt liggja.

Hið eldra frv. um grunnskóla tók ekki nægilegt mið af þessu vandamáli, og ég hygg, að það hafi verið meginorsök þess, hversu andstaðan gegn því reyndist mikil þrátt fyrir ýmis merk ákvæði og lofsverð markmið. Þessi tiltekni agnúi á frv., sem ég hef gert að umtalsefni og var vissulega mikill, átti að líkindum rót sína að rekja til þess, að í hinni upphaflegu n., sem fjallaði um grunnskólamálið, átti enginn sá fulltrúi sæti, sem þekkti af eigin reynslu viðhorf sveitafólksins til lengdar skólaskyldu og árlegs skólatíma.

Í aths. við þetta frv. segir nú, að frv. hafi tekið miklum stakkaskiptum frá því, sem var um hið fyrra frv., og ég get fallizt á þetta. Eftir að hafa gengið í gegnum allstífan hreinsunareld nefndarvinnu og mjög víðtækrar kynningar og umr. fjölmargra aðila víðs vegar um land liggur frv. nú fyrir þessari hv. þd. í endurbættri útgáfu. Það er tæpast á mínu færi og raunar engin ástæða til þess af minni hálfu að rekja breytingar þær, sem gerðar hafa verið, en ég hygg, að flestar breyt. séu til mikilla bóta. Ég held, að við höfum nú fyrir framan okkur betra frv. en það, sem lagt var fram fyrir tveimur árum. Sérstaklega fagna ég því, að grunnskólanefndin hefur gert sér far um að líta með skilningi á viðhorf sveitafólks í sambandi við framkvæmd skyldunámsins, án þess að hún hviki frá meginstefnu frv. um sem jafnasta skólasetu barna og unglinga, hvar sem er á landinu.

Eins og frv. er nú úr garði gert, ætti að vera kleift að haga framkvæmd skólaskyldu og öðru skólastarfi í eðlilegu samræmi við óskir þær og skoðanir, sem fram hafa komið hjá mörgu sveitafólki og talsmönnum bændastéttarinnar. Að vísu er mér ljóst, að enn munu heyrast raddir um það, að heimild til styttingar árlegs starfstíma grunnskólans sé ekki nægilega rúm. Sjálfsagt munu ýmsir verða til þess að krefjast enn meiri styttingar en frv. gerir ráð fyrir. Ef slíkar kröfur koma fram, er aldrei nema eðlilegt, að alþm. íhugi þær nánar, eins og nauðsynlegt er að gera um allar ábendingar, sem berast kunna, eftir að málið er nú lagt fram í nýjum búningi. Þó að ég viðurkenni, að grunnskólanefndin hafi unnið ágætt starf í sambandi við endurskoðun frv., þá leysir það ekki alþm. undan þeirri skyldu að gaumgæfa hverja gr. þess, áður en það verður að lögum.

Frv. um grunnskóla lýsir óneitanlega miklum metnaði þeirra, sem að því standa. Með frv. er stefnt að því, að Íslendingar komi upp barna- og unglingaskólum, sem jafnast á við það, sem gerist meðal skyldra menningarþjóða. Ég fellst á þessa stefnu og lýsi því sem minni skoðun, að með því sé viðhaldið stefnumörkun, sem í rauninni var grundvölluð þegar með setningu fræðslulaga árið 1907.

Frv. það, sem hér liggur fyrir, boðar vissulega enga byltingu í skólamálum. Menn þurfa ekki að óttast það þess vegna. Það er miklu minni breyting en margir vilja vera láta, þótt lögfest sé 9 ára skólaskylda og árlegur skólatími lengdur að auki. Hér er miklu fremur um stigsmun að ræða en eðlisbreytingu. Það getur ekki talizt til byltingar, þótt stefnt sé að því á 10 árum að jafna sem verða má skólagöngu allra barna og unglinga í landinu og færa starfsaðstöðu skólanna til nútímahorfs. Ég held, að það væri í miklu ósamræmi við metnað Íslendinga á öðrum sviðum þjóðlífsins, ef við settum okkur lágt markmið í skólamálum og þá sérstaklega hvað varðar skyldunámið. Hitt er svo annað mál, að við verðum án efa að halda vel á spöðunum, ef okkur á að auðnast að gera stefnumið grunnskólafrv. að veruleika í ýmsum greinum. Það kostar ekki einasta mikið fjármagn, heldur krefst það fyrst og fremst nægilegs úrvals og framboðs starfskrafta. Frv. um grunnskóla gerir ráð fyrir mjög víðtækri sérfræðiþjónustu í sambandi við kennslu og uppeldisstörf. Hvað það snertir, setur frv. markið býsna hátt miðað við þá starfsgetu og sérmenntun, sem nú er fyrir hendi í landinu. Ef þessu marki á að verða náð, er augljóst, að þegar í stað verður að hefjast handa um skipulega menntun nauðsynlegra sérfræðinga, enda hefur það ekki farið milli mála, að allt þetta kerfi stendur og fellur með hæfu starfsfólki. Hér er mikill vandi á höndum, og ég held, að yfirstjórn fræðslumála verði öðru fremur að heita sér á þessu sviði nú á næstu árum.

Herra forseti. Ég mun ekki á þessu stigi þræða efni þessara frv. um skólamál frá orði til orðs, enda kemur til kasta þn., sem ég á sæti i, að fjalla nánar um þessi mál. En ég vil minna á það, að hér er um ákaflega veigamikið mál að ræða, sem snertir hvern einasta mann í landinu og hverja fjölskyldu í landinu á einn eða annan hátt. E. t. v. er engin löggjöf svo nátengd fjölskyldulífi og persónulegum högum samfélagsþegnanna sem skóla- og fræðslulöggjöfin. Það skiptir því miklu máli, að hún sé vel úr garði gerð og m. a. í sem nánustu samræmi við almenningsálitið í landinu svo og raunverulega getu þjóðfélagsins til þess að framfylgja ákvæðum hennar.