27.02.1973
Sameinað þing: 50. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2132 í B-deild Alþingistíðinda. (1664)

140. mál, virkjun Jökulsár eystri í Skagafirði

Heilbr.- og trmrh. (Magnús Kjartansson):

Herra forseti. Spurt er, hvað líði athugun á aðstöðu til virkjunar í Jökulsá eystri í Skagafirði.

Orkustofnun hefur nú um nokkurt skeið haft með höndum rannsóknir á möguleikum til virkjunar Jökulsánna eystri og vestri í Skagafirði. Þannig eru fyrir allnokkru byrjaðar reglubundnar vatnamælingar í báðum ánum niðri í byggð, við Skatastaði í Austurdal og við brúna í Vesturdal. Auk þess var fyrir tveimur árum gerður út sérstakur leiðangur, er fylgdist að staðaldri með rennslinu frá jöklinum um tveggja mánaða skeið að sumri og bar það saman við rennslismælingar niðri í byggð. Orkustofnun hefur farið yfir áætlanir, sem aðrir hafa látið gera um virkjun í Eystri-Jökulsá. Enn fremur hefur hún rannsakað orkuvinnslugetu slíkrar virkjunar í samvinnu við aðrar virkjanir á Norðurlandi. Á s. l. sumri fóru jarðfræðingar og verkfræðingar á vegum stofnunarinnar að báðum ánum til að skoða staðhætti. Á síðasta sumri lét stofnunin einnig mæla land meðfram báðum ánum allt frá Flatatungu upp nálægt Ábæ í Austurdal og góðan spöl upp fyrir Goðdali í Vesturdal. Verður teiknað kort af öllu þessu landssvæði nú á útmánuðum eftir ljósmyndum, sem teknar voru úr lofti. Þessar ljósmyndir eru nú þegar tiltækar. Slík kortlagning er alger forsenda þess, að unnt sé að gera sæmilega trúverðugar virkjunaráætlanir.

Hæfileg virkjunarstærð verður væntanlega á bilinu 25–40 megawött eftir tilhögunum. Til greina virðist koma annars vegar virkjun í Jökulsá eystri einni, en hins vegar virkjun neðan við ármót Eystri- og Vestari-Jökulsár. Árleg orkuvinnslugeta virkjunar þarna liggur væntanlega á bilinu 200–300 gígawattstundir á ári, einnig eftir tilhögunum. Til samanburðar má geta þess, að öll orkuvinnsla á Norðurlandi nú fer að nálgast 150 gígawattstundir á ári. Lítill vafi er á því, að hagkvæmni slíkrar virkjunar yrði meiri, eftir að tenging milli Norður- og Suðurlands er komin á, en án slíkrar tengingar, sökum aðgangs að stærri orkumarkaði.

Þær lauslegu kostnaðaráætlanir, sem hingað til hafa verið gerðar, benda ekki til þess, að um sérlega ódýra orku yrði að ræða frá virkjunum í Jökulsánum í Skagafirði, en samt ekki til svo dýrrar orku, að rétt hafi þótt að hætta rannsóknum á virkjunarstaðnum. Þess er vænzt, að nýjar áætlanir, byggðar á niðurstöðum þeirra rannsókna, sem nú standa yfir, gefi öruggari svör við spurningunni um hagkvæmni virkjana þarna. Háspennulína sú, sem byrjað var á sumarið 1972 milli Akureyrar og Sauðárkróks, liggur ekki langt frá þessum virkjunarstað og auðveldar mjög flutning raforku frá virkjun þarna á markað.

Rannsókn þessi á skagfirzku Jökulsánum er liður í rannsóknum Orkustofnunar á hugsanlegum virkjunarstöðum á Norðurlandi, sem ráðast mætti í, eftir að samtenging Norðurlands og Suðurlands hefur gerbreytt öllum aðstæðum til að koma orku frá norðlenzkum virkjunarstöðum á markað. Af öðrum slíkum möguleikum á Norðurlandi má nefna Dettifoss, sem er stórvirkjun, um 160 megawött eða 1100 gígawattstundir á ári eða þar um bil, virkjanir í Skjálfandafljóti, ýmsar tilhaganir, virkjun Blöndu ofan í Blöndudal, en sú virkjun yrði af svipaðri stærð og Dettifoss, og loks jarðgufuaflsstöðvar. Alla þessa möguleika hefur Orkustofnun nú til athugunar.