27.02.1973
Sameinað þing: 50. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2134 í B-deild Alþingistíðinda. (1667)

156. mál, fjöldi og ráðstöfun ríkisjarða

Fjmrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Á þskj. 290 er fsp. sú, sem hv. 6. landsk. þm. var að lýsa, og eru svör við henni á þessa leið :

Fjöldi bújarða í eigu ríkisins eru 820. Af þeim eru í Reykn. 41, í Vesturl. 101, í Vestf. 90, í Norðurl. v. 64, í Norðurl. e. 122, í Austurl. 176 og í Suðurl. 226.

Í byggð af þessum 820 jörðum eru 626. Af þeim eru 33 í Reykn., 83 í Vesturl., 45 í Vestf., 52 í Norðurl. v., 94 í Norðurl. e., 137 í Austurl. og 182 í Suðurl.

3. liðurinn: Nytjarðar frá öðrum bújörðum eru 115 jarðir af þessum eyðijörðum. Af þeim eru 4 í Reykn., 14 í Vesturl., 25 í Vestf., 12 í Norðurl. v., 15 í Norðurl. e., 25 í Austurl. og 20 í Suðurl.

Og þá eru jarðir leigðar öðrum en bændum, þ. e. 52 jarðir. Af þeim eru 4 í Reykn., 1 í Vesturl., 11 í Vestf., engin í Norðurl. v., 9 í Norðurl. e., 5 í Austurl. og 22 í Suðurl.

Óráðstafað er svo síðasti liðurinn. Þær eru 27. Af þeim er engin í Reykn., 3 í Vesturl., 9 í Vestf., engin í Norðurl. v., 4 í Norðurl. e., 9 í Austurl. og 2 í Suðurl.

Út af síðasta lið spurningarinnar, þar sem er spurt, til hve langs tíma jarðir séu jafnaðarlega leigðar, er þetta svarið, og almennt um spurningarnar er eftirfarandi grg.:

Ríkisjörðum hefur fækkað allmikið í seinni tíð. Bæði hafa þær verið seldar til sveitarfélaga og einstaklinga, og í annan stað falla alltaf nokkur býli úr tölu sjálfstæðra jarða vegna þess, hve lengi þær hafa verið óbyggðar. Eru það einkum mjög litlar jarðir, gamlar hjáleigur, sem leggjast þá undir aðaljörðina. Samkv. ábúðarlögum skal jörð teljast sjálfstætt býli, þar til lögum skal jörð teljast sjálfstætt býli, þar til liðin eru 25 ár frá því, að hún var síðast í byggð. Af eyðijörðum eru hlutfallslega langflestar á Vestfjörðum eða nákvæmlega helmingur ríkisjarðanna í því kjördæmi. Munar þar mest um Grunnavíkur- og Sléttuhreppa, sem báðir eru horfnir úr tölu sveitarfélaga. Annars eru eyðijarðir á víð og dreif um allt land. Mjög margar eyðijarðir eru of litlar til þess að reka á þeim nógu stórt bú til að framfleyta meðalfjölskyldu. Eru þær annaðhvort nytjaðar af nágrannabændum til slægna og beitar eða þær, sem fjarlægar liggja, til sameiginlegar sumarbeitar úr næstu sveitum eða sveitahlutum. Um eyðijarðir á Suðurlandi skal það tekið fram, að a. m. k. 15 þeirra eru í umsjá Landgræðslunnar. Ríkisjarðir eru byggðar til lífstíðar eða erfðaleigu, eins og lög mæla fyrir. Ef umsækjendur eru margir, ganga innansveitarmenn að öðru jöfnu fyrir. Einnig er leitazt við að meta getu þeirra til búrekstrar, og þegar þörf krefur, er haft samráð við sveitarstjórn, þar sem jörðin er.

Þetta svar vona ég, að nægi hv. þm. við fsp. hans. En út af því, sem hann tók fram í formála, vil ég geta þess, að n. hefur unnið að því að gera ný lög um leigu jarða, eignarrétt og annað, og liggur nú frv. fyrir Búnaðarþingi um jarðalög. Verður málið síðar lagt fyrir Alþ., þegar hefur verið að fullu frá undirbúningi þess gengið.