26.10.1972
Sameinað þing: 9. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 377 í B-deild Alþingistíðinda. (167)

17. mál, fiskveiðar og fiskvinnsla í Norðurlandskjördæmi vestra

Eyjólfur H. Jónsson:

Herra forseti. Það gerist skammt stórra högga á milli í þjóðnýtingaráformum hv. flm. þessarar þáltill., sem hér er til umr. Ég var nú að líta á þskj. og sá þá, að hann leggur einnig til að þjóðnýta alla tryggingastarfsemi í landinu. Þetta er kannske smámál. sem við ræðum hér, miðað við það. Það á sem sagt að byrja, að hans dómi, mjög víðtæka þjóðnýtingarstarfsemi á Íslandi, og raunar getur hann þess í sambandi við þá þáltill, sem hér er til umr., að rétt kynni að vera að gera svipaðar ráðstafanir í öðrum landshlutum, það sé ekki bara hugmyndin að þjóðnýta útgerð og fiskvinnslu í Norðurl. v., heldur ættu önnur kjördæmi að huga að því, hvað þetta sé stórfengleg hugmynd.

Ég gleðst raunar yfir því, að flm. sagði hér áðan, að hann hyggist ekki knýja þetta fram gegn vilja heimamanna. Auðvitað mundi ég ekki vilja það, sagði hann eða eitthvað í þá áttina.

En þáltill. hljóðar þannig, að Alþ. álykti „að fela ríkisstj. að hlutast til um, að stofnað verði.“ Hvernig getur maður skilið þetta öðruvísi en þetta eiga að gera, og raunar kom fram í frumræðu flm., þegar bann sagði, að stjórnvöld mundu greiða fyrir slíku fyrirtæki miklu frekar en þeim litlu, þá kom það auðvitað í ljós, að stjórnvöld hafa það í hendi sér að knýja heimamenn til þessarar sameiningar, ef þau ætla sér það, einmitt með þessu ráði, sem hv. flm. benti á, með því að ráða yfir fjármagninu og segja: Herrar mínir, ef þið fallizt ekki á till., sem sjálft Alþ. er búið að samþykkja, þjóðnýtingartill., fáið þið enga fyrirgreiðslu. Við ætlum að láta féð í stórfyrirtækið. Hann kann ráðin. Hann þekkir svolítið inn á stórfyrirtæki, þar sem fjármagn hins opinbera er notað.

Að um frekju og framhleypni væri að ræða? Hvað er það annað en frekja og framhleypni að flytja till. um, að öll fyrirtæki heils kjördæmís séu þjóðnýtt, án þess svo mikið sem að tala um málið við einn einasta forráðamann fyrirtækjanna? Ég get ekki kallað það annað. Ég held, að allir séu mér sammála um það. Auðvitað má flm. hafa sína skoðun á málunum, en það er lágmarkskurteisi að tala við fólkið heima fyrir, jafnvel þó að það hefði verið andvígt hans till. Ég hefði þá ekki kallað það neina frekju, ef hann hefði flutt hana engu að síður. Hann má hafa sínar skoðanir. En hann hlaut að verða að tala við forráðamenn fyrirtækjanna, áður en hann fer með þetta mál inn á Alþ. Ég sný ekki aftur með, að það er hvort tveggja í senn frekja og framhleypni.

En hvort allt sé í bezta lagi í okkar kjördæmi, því miður er mjög langt frá því. Það þarf mjög að efla atvinnulífið þar. En ég sagði, að mjög hefði þó miðað í áttina á undanförnum árum með stofnsetningu þeirra fyrirtækja, sem komin eru á fót, og ég álit, að það sé sá visir að atvinnurekstri, sem á að geta stórelfzt í þessu kjördæmi.

Hann spurði: Hvaða till. eru aðrar? Það er einfalt mál. Þær till. eru að efla þau fyrirtæki, sem fyrir eru, safna auknu fé til þeirra, stofna ný í eigu fólksins sjálfs og halda áfram þeirri stefnu, sem fólkið hefur markað sér og það ætlar sér að fylgja. Auðvitað eru erfiðleikar núna vegna rangrar stjórnarstefnu, og það er kannske ekki tímabært að gera þetta á þessum vikum. En það getur verið skemmra en menn halda í dag, þangað til brúkleg stjórn verður í þessu landi, og þá skulum við sameinast um að styrkja fyrirtækin heima fyrir.