27.02.1973
Sameinað þing: 50. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2137 í B-deild Alþingistíðinda. (1673)

288. mál, rekstur annarrar lyfjabúðar í Hafnarfirði

Fyrirspyrjandi (Stefán Gunnlaugsson):

Herra forseti. Hinn 20. jan. s. l. var útbýtt svo hljóðandi fsp. til heilbr.- og trmrh. frá mér:

„Með skírskotun til endurtekinna tilmæla bæjaryfirvalda Hafnarfjarðar til heilbrmrn. um rekstur annarrar lyfjabúðar í Hafnarfirði er óskað svars við eftirfarandi: Þar sem knýjandi er, að stofnsett verði lyfjabúð í „Norðurbæ“ í Hafnarfirði tafarlaust vegna ört vaxandi fólksfjölda og dreifingar byggðarinnar, vill ráðh. hlutast til um, að gerðar verði nú þegar nauðsynlegar ráðstafanir í þeim efnum?“

Hinn 11. nóv. 1969 gerði bæjarstjórn Hafnarfjarðar ályktun, þar sem borin voru fram tilmæli til viðkomandi rn. um, að það heimilaði, að stofnsett yrði ný lyfjabúð í Hafnarfirði til viðbótar þeirri, er fyrir er.

Meginrökin fyrir þeirri beiðni voru þau, að fólksfjöldinn í bænum væri þá þegar fyrir löngu orðinn slíkur, að fyllsta ástæða væri af þeim ástæðum til að veita öðrum leyfi til rekstrar annarrar lyfjabúðar, en íbúafjöldi Hafnarfjarðar var um 9500 haustið 1969 og nálega 10700 1. des. s. l. Auk þess væri byggðin orðin talsvert mikið dreifð í sveitarfélaginu. Þá hefði þjónustunni við bæjarbúa af hálfu lyfjahúðarinnar, sem verið hefur í bænum, hrakað frá því, sem áður var, hvað snertir opnunartíma.

Þegar við hæstv. heilbrmrh. vorum á barns- og unglingsaldri í Hafnarfirði, þurftu Hafnfirðingar ekki að aka til Reykjavíkur að kvöldi eða nóttu til kaupa á lyfjum fyrir sjúka. Það hata Hafnfirðingar orðið að gera í mörg ár. Þó er húsnæði lyfjabúðarinnar hið sama nú og það var í þá daga, þótt innréttingum verzlunarinnar hafi verið breytt. Slíkt ástand hefur í rauninni verið með öllu óviðunandi, og hefði þurft að vera búið að kippa þessu í lag fyrir löngu, en það hefur ekki fengizt lagfært þrátt fyrir kvartanir þar að lútandi. En við tilmælum bæjarstjórnarinnar frá 11. nóv. 1969, sem ég gat hér um áðan, var ekki orðið. Hinn 11. apríl s. l. voru þessi tilmæli enn ítrekuð, og enn skrifar bæjarstjórinn 28. júlí s. l. til viðkomandi aðila út af þessu máli og beinir þeim eindregnu tilmælum til heilbrmrn. og hæstv. heilbrmrh., að hann beiti sér fyrir lausn málsins. Í svari heilbr.- og trmrn., dags. 12. okt. s. l., segir m. a., að ekki verði teknar til meðferðar till. um fjölgun lyfjabúða í Reykjavík og nágrenni, meðan n. til að gera till. um endurskipulagningu lyfjaverzlunarinnar sé starfandi. Enn einu sinni skrifar bæjarstjórn rn. hinn 21. des. s. l. og ítrekar tilmæli bæjaryfirvalda um aðra lyfjabúð í Hafnarfirði. Með skírskotun til margendurtekinna tilmæla Hafnfirðinga um heimild ráðh. til þess, að sett verði á stofn önnur lyfjabúð í Hafnarfirði, og með hliðsjón af því, hversu bæjarbúar hafa lengi mátt bíða eftir úrbótum í þessum efnum, vill þá ráðh. ekki afgreiða þetta mál nú þegar? Ég get ekki séð, að dráttur á afgreiðslu þess þjóni neinum góðum tilgangi, en hefur aftur á móti í för með sér áframhaldandi óþægindi og óþarfa útgjöld fyrir bæjarbúa. Hæstv. ráðh. hefur vald til þess að kippa þessu í lag nú þegar. Ég bið hann vinsamlegast um að gera það.