27.02.1973
Sameinað þing: 50. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2139 í B-deild Alþingistíðinda. (1676)

149. mál, dreifing raforkuvera

Gísli Guðmundsson; Herra forseti. Þessa fsp. flutti hv. varaþm. Ingi Tryggvason, sem sat hér á þingi í minn stað. Hann hefur látið mér í té grg. með fsp., svo hljóðandi:

„Að undanförnu og einkum nú í vetur hafa verið veruleg brögð að rafmagnstruflunum vegna bilana í háspennulínum. Það kom í ljós, að tafsamt er að gera við slíkar bilanir, og er ómælt það beina tjón, vinnutap og óþægindi, sem af öryggisleysi í rafmagnsdreifingu hlýzt. Ráðagerðir eru uppi um að auka enn til stórra muna raforkuframleiðslu á Þjórsársvæðinu og leggja þaðan m. a. háspennulínu yfir öræfi til Norðurlands. Með samanþjöppun margra stórra raforkuvera á tiltölulega takmörkuðu landssvæði virðist mörgum, að náttúruhamfarir gætu samtímis valdið slíku tjóni á orkuverum og aðflutningslínum, að lamað gæti atvinnulíf á stórum landssvæðum. Þess vegna hef ég spurt, hvort ekki sé varhugavert vegna almenns öryggis atvinulífs og byggðar í landinu að þjappa raforkuframleiðslunni saman á þennan hátt.

Frá upphafi hefur þeirri meginstefnu verið fylgt í raforkumálum að dreifa orkuframleiðslunni um landið. Þegar íbúar stórra landssvæða verða háðir raforku, sem flutt er langar leiðir um reginöræfi, er mjög hætt við, að fullkomið traust verði ekki borið til slíkra orkugjafa. Geta slíkar aðstæður ráðið úrslitum um staðsetningu atvinnufyrirtækja og þannig ýtt undir ákveðna þróun í atvinnuuppbyggingu, sem enn yki á hið margumtalaða jafnvægisleysi í byggð landsins. Því er þess farið á leit við hæstv. iðnrh., að hann geri Alþ. grein fyrir því, hvort ekki sé nauðsynlegt frá sjónarmiði almenns öryggis og atvinnuþróunar að dreifa byggingu hinna stóru orkuvera um landið fremur en að reisa fleiri stór orkuver á mjög takmörkuðu landssvæði.“