27.02.1973
Sameinað þing: 50. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2140 í B-deild Alþingistíðinda. (1677)

149. mál, dreifing raforkuvera

Heilbr.- og trmrh. (Magnús Kjartansson) :

Herra forseti. Sem svar við þessari almennu fsp. vil ég segja þetta:

Almennt séð verður að telja eðlilegt að stefna að því að reisa stór orkuver alls staðar, þar sem kostur er á hagkvæmum virkjunarmöguleikum til slíks. Svo vill til hér á landi, að hagkvæmt vatnsafl til virkjunar er nokkuð dreift um landið. Mest er af því á Suðurlandi og Austurlandi, nokkuð á Norðurlandi, en minna á Vesturlandi og Vestfjörðum. Skilyrði þess, að skynsamlegt geti talizt að dreifa stórum orkuverum á þá landshluta, sem taldir voru, er samt, að fyrir hendi sé raforkukerfi til að tengja þessi orkuver saman eða því sé komið á fót jafnhliða eða rétt á undan virkjununum. Að öðrum kosti getur svo farið, að eigi sé unnt að notfæra sér þá hagkvæmni, sem virkjunarstaðurinn ræður yfir.

Það er yfirlýst stefna núv. ríkisstj, að vinna að því að koma upp meginraforkukerfi, sem nái til allra landshluta. Þetta er mikið verkefni, sem sjálfsagt tekur alllangan tíma að leysa. Fyrsti áfangi þess er sú línulögn milli Norðurlands og Suðurlands, sem ríkisstj. hefur ákveðið.

Virkjunarrannsóknir Orkustofnunar hafa verið skipulagðar frá því sjónarmiði, að kanna beri álitlega virkjunarstaði, hvar á landinu sem þá er að finna. Þannig hafa verið rannsakaðir virkjunarstaðir á Suðurlandi, þ. e. á Þjórsár- og Hvítársvæðinu, Austurlandi, Norðurlandi, þ. e. Jökulsá á Fjöllum, Skjálfandafljót, Jökulsárnar í Skagafirði, Blanda, auk jarðgufuvirkjunar við Kröflu, og á Vestfjörðum á Arnarfjarðarsvæðinu. Þessar rannsóknir eru misjafnlega langt komnar, en unnið er að þeim öllum, eftir því sem fjárveitingar hrökkva til. Slíkar rannsóknir um landið allt nokkurn veginn eru forsenda ákvarðana um virkjunarframkvæmdir víðs vegar um landið. Þær beinast fyrst og fremst að þeim virkjunaratriðum í hverjum landshluta, sem hagkvæmastir þykja, en það eru einkum stórvirkjanir. Grundvallarhugmyndin á bak við það að haga virkjunarrannsóknum á þann veg eru, eins og að framan er rakið, að eðlilegt sé að gera ráð fyrir samtengingu raforkuvera um meginhluta landsins. Slík samtenging gerir mögulegt að virkja þar, sem hagkvæmt er, og jafnframt að velja atvinnufyrirtækjum staði í hinum ýmsu landshlutum, eftir því sem heppilegt er talið hverju sinni.

Varðandi öryggissjónarmiðið er rétt að taka það fram, að Orkustofnun hefur nokkuð athugað það mál og það áður en Vestmannaeyjagosið gaf nýtt tilefni til þess. Um þetta lét stofnunin í okt. s. l. taka saman sérstaka skýrslu um náttúruhamfarir og virkjanir eftir Hauk Tómasson jarðfræðing. Þar er komizt að þeirri niðurstöðu, að eðlilegt sé að taka nokkurt tillit til áhættunnar og skaða af völdum náttúruhamfara við val á virkjunarstöðum. Það verður ávallt matsatriði, hve mikið tillit skuli tekið til slíkra áhættu. Líkurnar á skaða af þessum sökum eru mjög litlar, en skaðinn hins vegar oft mjög mikill, ef hann verður á annað borð, eins og við verðum vitni að einmitt þessa dagana. Hér er sem sagt örðugt að koma við tölulegu mati. Orkustofnun hefur í hyggju að reyna að gera þessum málum eitthvað betri skil.

Í bili er varla unnt að segja meira en gert er hér að framan, að eðlilegt sé að taka nokkurt tillit til áhættunnar, t. d. með því að velja virkjunarstaði til skiptis innan og utan gosbeltisins eða á stöðum innan þess, sem eru svo fjarlægir, að þeir hafi ekki áhrif hver á annan. Forðast ber eftir föngum að eiga nokkru sinni öll eða flest meginraforkuver landsins á sama áhættusvæði, a. m. k. ef slíkt er unnt án umtalsverðra fórna í virkjunarhagkvæmni.