27.02.1973
Sameinað þing: 50. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2141 í B-deild Alþingistíðinda. (1679)

289. mál, rannsókn á virkjunarmöguleikum í Skjálfandafljóti

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Það er um þessa fsp. eins og þá, sem var á dagskránni áðan, að hún var flutt af hv. varaþm., Inga Tryggvasyni, sem sat hér á þingi í minn stað, og hefur hann látið mér í té um hana grg., svo hljóðandi:

„Á Norðurl. e. blasir nú við rafmagnsskortur. Þótt hinn nýi áfangi Laxárvirkjunar verði tekinn í notkun á þessu ári, endist sú orkuviðbót skammt, sem þar fæst. Nú þegar er umtalsverður hluti þeirrar raforku, sem notuð er á Laxárvirkjunarsvæðinu, framleiddur með dísilvélum. Óvissa er um, hvenær og hvernig raforkuþörf Norðurl. e. verður fullnægt. Veldur það því m. a., að algerlega er óvíst, hvort heimili verða upphituð með rafmagni í því íbúðarhúsnæði, sem flutt verður í á þessu ári, en eftirspurn eftir raforku til húsahitunar er mikil á Norðurlandi. Og þörf iðnfyrirtækja fyrir raforku fæst ekki fullnægt. Augljóst er því, að almenningur á Norðurl. e. lætur sig miklu skipta, að orkuþörf þar verði leyst fljótt og örugglega. Ýmsir möguleikar eru til raforkuframleiðslu í þessum landshluta, og er af ýmsum litið svo á, að í Skjálfandafljóti séu hagkvæm skilyrði til virkjunar. Þess vegna er þeim spurningum hér beint til hæstv. iðnrh., hvort fram hafi farið rannsókn á virkjunarmöguleikum í Skjálfandafljóti, og ef svo er, hversu ítarleg sú rannsókn hafi verið, er fram hefur farið, og hver sé niðurstaða hennar.“