27.02.1973
Sameinað þing: 50. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2142 í B-deild Alþingistíðinda. (1680)

289. mál, rannsókn á virkjunarmöguleikum í Skjálfandafljóti

Heilbr,- og trmrh. (Magnús Kjartansson) :

Herra forseti. Hér er í fyrsta lagi um það spurt, hvort fram hafi farið rannsókn á virkjunarmöguleikum við Skjálfandafljót. Slík yfirlitsrannsókn á virkjunarmöguleikum í Skjálfandafljóti hefur farið fram allt frá óbyggðum og niður fyrir Barnafoss. Kannaðir hafa verið möguleikar á virkjun árinnar í þrepum, við Íshólsvatn, Goðafoss og Barnafoss, og athugaðir hafa verið möguleikar á að fá Fnjóská með í neðsta virkjunarþrepinu. Enn fremur hafa verið kannaðir möguleikar á virkjun árinnar sem mest í einu lagi með því að færa hana út úr farvegi sínum við Íshólsvatn og leiða vatnið eftir heiðunum austan Bárðardals niður á móts við Goðafoss og virkja síðan niður í farveginn aftur neðan við Goðafoss og jafnvel neðan við Barnafoss. Um rannsóknir þessar er væntanleg skýrsla í næsta mánuði.

Þá er spurt, hversu ítarleg þessi rannsókn hafi verið og hver sé niðurstaða hennar. Niðurstaða þessarar könnunar, sem er fremur lausleg enn sem komið er, er á þá lund, að orka frá þessum virkjunum sé 90–120% dýrari en frá stórvirkjun eins og Dettifossvirkjun og 40–50% dýrari en frá hagkvæmum virkjunum af miðlungsstærð, og er þá átt við 50–60 megawatta virkjanir. Samkv. áætlunum yrði vinnslugeta heildarvirkjunar Skjálfandafljóts um 1370 gígawattstundir á ári, skipt á 2–3 virkjanir eftir tilhögunum. Til samanburðar er, að vinnslugeta Dettifossvirkjunar er áætluð 1100–1200 gígawattstundir á ári í einni virkjun. Af einstökum virkjunum í Skjálfandafljóti er virkjun við Íshólsvatn skást, en þó um 90% dýrari á orkueiningu en Dettifossvirkjun. Vinnslugeta þeirrar virkjunar er áætluð 390 gígawattstundir á ári. Enda þótt könnunin sé lausleg, þykja þessar samanburðartölur sanna það ótvírætt, að Skjálfandafljót stenzt engan samanburð við önnur vatnsföll, bæði á Norðurlandi og annars staðar, hvað virkjunarhagkvæmni snertir. Ekki þykja því efni til að láta fara fram ítarlegar og þar með kostnaðarsamar rannsóknir á Skjálfandafljóti fyrst um sinn, meðan um marga, hagkvæmari kosti er að ræða. Ástæðan til þessarar neikvæðu útkomu er framar öðru sú, hve rennsli Skjálfandafljóts er lágt. Meðalrennsli þess er milli 1/3 og 1/4 af meðalrennsli Jökulsár á Fjöllum við Dettifoss og enn minni hluti af rennsli Þjórár.