27.02.1973
Sameinað þing: 50. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2146 í B-deild Alþingistíðinda. (1687)

290. mál, gufuaflsvirkjun til rafmagnsframleiðslu

Heilbr.- og trmrh. (Magnús Kjartansson) :

Herra forseti. Ég skal aðeins segja örfá orð. Ég vék að þessu atriði um öryggið í svari mínu við fyrstu fsp. Inga Tryggvasonar. Dettifossvirkjun yrði t. d. á sama sprungusvæðinu og Þjórsárvirkjanirnar eru í námunda við. Og ég tel, að við verðum að huga mjög gaumgæfilega að þessu. Það eru til virkjunarstaðir utan þessa sprungusvæðis, til að mynda á Norðurlandi í Blöndu, og þar að auki er svo Austurland, þar sem hægt er að ráðast í mjög stóra virkjun utan þessa svæðis. Ég tel, eins og ég gat um áðan í svari mínu, að að þessu verði að huga.

Út af samtengingarmálunum vil ég benda á það, að forsenda þess, að hægt sé að ráðast í stórvirkjanir fyrir norðan, eins og verður að gera, annaðhvort í Blöndu eða Dettifossi, og hvort tveggja, þegar fram líða stundir, er, að um sé að ræða markað fyrir orkuna frá slíkum virkjunum. Einmitt þess vegna er það hagsmunamál Norðlendinga, að orkusvæðin séu tengd saman.