27.02.1973
Sameinað þing: 50. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2147 í B-deild Alþingistíðinda. (1690)

291. mál, störf stjórnarskrárnefndar

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson) :

Herra forseti. Eins og fram kom í þeirri þál., sem hv. fyrirspyrjandi las, er gert ráð fyrir þeim afskiptum forsrh. einum, að hann kveðji n. saman til fyrsta fundar. Þeirri skyldu fullnægði ég 12. sept. s. l., þá var n. kvödd saman til fundar, og þar skipti hún með sér störfum. Það má segja, að það hafi dregizt óeðlilega lengi að kveðja n. saman til fyrsta fundar, en á því er sú skýring, að mjög torvelt reyndist að finna tíma, þegar allir nm. gætu mætt. Svo fór að lokum, að á þessum fyrsta fundi, sem haldinn var, gátu ekki mætt nema 5 nm. af 7.

Um störf n. síðan er það að segja, að samkv. þeim upplýsingum, sem ég hef fengið, hefur verið aflað ýmissa gagna til undirbúnings starfi n., m. a. frá útlöndum. Frekari upplýsingar get ég ekki gefið um starfsemi n., enda er vafasamt, hver skipti forsrh. á af þessari þingkjörnu n. að hafa, þó að stjórnarskráin heyri undir forsrh.

Þetta er og verður að vera svar mitt við fyrri lið fsp.

En þá er það annar liðurinn, hvort það sé líklegt, að hægt verði að leggja fram frv. til nýrrar lýðveldisstjórnarskrár fyrir Alþ. 1974. Eins og hv. alþm. heyrðu áðan af þeim lestri, sem fram fór á þessari þál., er gert ráð fyrir ákaflega víðtækri tillögugerð margra aðila í sambandi við endurskoðun stjórnarskrárinnar, og ég held, að það hljóti að liggja í augum uppi, að það taki nokkurn tíma að ná þeim till. saman, vinna úr þeim og semja frv. Ég get að sjálfsögðu ekkert fullyrt um það, hversu störfum stjórnarskrárnefndar miðar fljótt áfram. En ég verð að telja það mjög ósennilegt, að það verði hægt að leggja fram frv. til nýrrar stjórnarskrár fyrir Alþ. 1974. Ég er ekki í neinum vafa um það, að n. mun kosta kapps um að vinna störf sín svo fljótt sem tök eru á, en á hitt vil ég benda, að það er títt, þar sem slík endurskoðun stjórnarskrár hefur farið fram hjá öðrum þjóðum, að sú endurskoðun hefur tekið mörg ár. Og það verð ég að segja, að meira máli skiptir í mínum augum um þá endurskoðun stjórnarskrárinnar, sem talað er um, að hún sé gerð eftir nákvæma athugun, heldur en hitt, hversu fljótt er að unnið. Það mun hér á sannast, að nógu fljótt sækist, ef nógu vel sækist.