27.02.1973
Sameinað þing: 50. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2151 í B-deild Alþingistíðinda. (1695)

291. mál, störf stjórnarskrárnefndar

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson) :

Herra forseti. Aðeins örfá orð. Ég hef ekki miklu við þá skýrslu að bæta, sem hæstv. forsrh. gaf hér. N. hélt fund og kaus sér formann og varaformann, og það er upplýst, að ég lenti í formannssætinu. Hv. þm., sem hér talaði og harmaði mjög drátt á störfum n., hv. þm. Gunnar Thoroddsen, 5. þm. Reykv., deilir með mér ábyrgð og þátttöku í forustu n., því að hann er varaformaður hennar. Ég trúi því ekki, að þm. hafi vænzt þess, að stjórnarskrárnefnd lyki störfum á nokkrum mánuðum. Það er satt, hún fer seint og hægt af stað, en þýðir engan veginn, að hún geti ekki tekið sig til að halda tíðari fundi en gert hefur verið á fyrsta sprettinum.

Menn eru búnir að vera nokkuð þolinmóðir í stjórnarskrármálinu, frá því að lýðveldið var stofnað á Íslandi 1944, og hefur ekki bært mjög mikið á eldmóði manna fyrir því að knýja fram samningu á nýrri lýðveldisstjórnarskrá. Þá fóru menn nokkrar reisur til útlanda til að safna stjórnarskrám og gerðu ýmislegt fleira, sem e. t. v., ef gluggað er í þau gögn, getur orðið að þætti í störfum þessarar n. Ég vil a. m. k. vona það.

Það var sem sé rétt áður en þing kom saman, að n. skipti með sér störfum og fór þá að gera ráðstafanir til að safna gögnum, og lengra er störfum ekki komið. Ég held, að þm. verði að búa sig undir það, að meðan þing starfar, verður ekki auðvelt að halda tíða fundi í stjórnarskrárnefnd, í 7 manna n. Hitt er annað mál, að þegar þingstörfum og þingönnum lýkur, verður n. auðvitað að sinna sínu starfi. En eins og bent var á hér áðan, á að senda þetta mál til umsagnar fjöldamargra aðila, og það getur enginn vænzt þess, að þau komi og úr þeim sé unnið á nokkrum vikum eða mánuðum.