27.02.1973
Sameinað þing: 50. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2156 í B-deild Alþingistíðinda. (1702)

292. mál, hafnargerð í Dyrhólaey

Fyrirspyrjandi (Bjarni Guðnason):

Herra forseti. Eins og hv. þm. vita, hefur hafnarmálnunum við Dyrhólaey verið marghreyft hér á Alþ., bæði í formi þáltill. og fsp. Þess er skemmst að minnast, að á síðasta þingi flutti Einar Oddsson sýslumaður þáltill. um rannsókn á hafnarstæði í Dyrhólaey og fylgdi henni úr hlaði með ítarlegri og skilmerkilegri ræðu, þar sem hann rakti þingsögu málsins og vék að helztu rökum, sem hníga til þess, að gerð sé gangskör að hafnargerð við Dyrhólaey. Munu þm. flestum svo kunn þessi rök, að ég tel ástæðulaust að fara út í þau nánar, enda gefst enginn tími til slíks. Ég vil þó geta þess, að þáltill, Einars Oddssonar dagaði uppi eins og allar aðrar till. varðandi þetta mannvirki.

Ingólfur Jónsson, fyrrv. samgrh., ritaði hafnamálastjóra bréf 5. febr. 1971, þar sem kemur fram, að rn. hans leggur áherzlu á, að athugun á hafnarstæði við Dyrhólaey og kostnaði við hafnargerð þar verði haldið áfram og lokið svo fljótt sem unnt er og ef mögulegt er n. k. haust. Ljóst er, að að þessum málum hefur verið unnið fremur slælega, en Einar getur þess, að till. hans virðist hafa haft góð áhrif á vitamálaskrifstofuna. „Mér hefur verið tjáð,“ segir Einar í ræðu í Sþ. 30. nóv. s. 1., „að þar sé nú unnið af krafti að frumskýrslu um málið, þar sem dregnar verði fram þær staðreyndir, sem fyrir hendi eru, síðan er víst ætlunin að gera lauslega kostnaðaráætlun:

Það skal tekið fram til að fyrirbyggja allan misskilning, að þessar fsp., sem ég hef borið fram, koma ekki fram í því skyni að vega á einhvern hátt að tilveru Vestmannaeyjakaupstaðar, síður en svo. Það er stefna Alþ. að reyna með öllum tiltækum ráðum að tryggja byggð í Eyjum, og þeirri stefnu er ég algerlega sammála. En það segir sig sjálft, að höfn við Dyrhólaey yrði veruleg samgöngubót við Eyjar, og hinn væntanlegi hringvegur drægi ekki úr þeirri staðreynd. En hvort sem Eyjar leggjast í eyði eða ekki, virðist höfuðnauðsyn, að ráðamenn þjóðarinnar snúi sér af krafti að því að láta kanna rækilega öll skilyrði til hafnargerðar við Dyrhólaey og geri þar kostnaðaráætlun. Þess vegna hef ég leyft mér að bera fram eftirfarandi spurningar til hæstv. samgrh. á þskj. 318:

„1. Hversu miðar rannsóknum á hafnarstæði við Dyrhólaey? Liggja fyrir nokkrar bráðabirgðaniðurstöður?

2. Er áformað að hefja framkvæmdir í nánustu framtíð?“