27.02.1973
Sameinað þing: 50. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2157 í B-deild Alþingistíðinda. (1703)

292. mál, hafnargerð í Dyrhólaey

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson) :

Herra forseti. Um það er spurt í fyrsta lagi, hversu miði rannsóknum á hafnarstæði við Dyrhólaey og hvort nokkrar bráðabirgðaniðurstöður liggi fyrir. Já, það hefur miðað nokkuð við rannsóknir þessar, og skýrsla sú, sem ég er með hér í höndum, allmikil bók, fjallar um þær niðurstöður, sem þessar rannsóknir hafa leitt til.

Í öðru lagi er spurt, hvort áformað sé að hefja framkvæmdir í nánustu framtíð. Það mun ekki fara fram hjá neinum, hvorki hv. fyrirspyrjanda né öðrum hv. alþm., þegar ákvarðanir verða teknar um framkvæmdir varðandi það að byggja höfn við Dyrhólaey, því að það er mannvirki, sem áreiðanlega fer ekki fram hjá fjárveitingavaldinu, og er hér um að ræða kostnaðarupphæðir, sem nema a. m. k. milljörðum kr., þúsundum millj. kr. Ég gæti í raun og veru látið alveg nægja sem svar við þessari fsp. og þættist þá gera henni full skil — að benda hv. fyrirspyrjanda á hina miklu skýrslu, sem hér er og hefur verið á sínum tíma send skrifstofu Alþingis í þremur eintökum og vitamálaskrifstofan hefur nokkur eintök af. En ég skal játa, að skýrslan er ekki í svo stóru upplagi, að unnt sé að láta öllum þm. hana í té, enda er þetta nokkuð dýr skýrsla, hvert eintak kostar allnokkurt fé. En allir þm. Sunnl. hafa fengið skýrsluna í hendur, og einnig voru á sínum tíma nokkur eintök send bæjarstjórn Vestmannaeyja. Þó held ég rétt vegna annarra þm. að upplýsa nokkur atriði úr inngangsgrg. þessarar miklu skýrslu.

Þá er í fyrsta lagi bréf, sem vitamálastjóri lét fylgja til mín, þegar hann afhenti þessa skýrslu á s. l. hausti, en hann mun hafa gengið frá skýrslunni 20. sept. s. l. haust. Í þessu bréfi segir m. a.:

„22. marz 1956 var samþ. á Alþ. þál. um rannsókn á gerð fiskihafnar við Dýrhólaós. Þann 8. febr. 1961 var síðan samþ. á Alþ. þál., þar sem ríkisstj. var falið að láta fara fram rannsókn á möguleikum til hafnargerðar í Þykkvabæ í Rangárvallasýslu og við Dyrhólaey í Vestur-Skaftafellssýslu. Samgrn. fól mér“ — þ. e. a. s. vita- og hafnamálastjóra — „að annast framkvæmd þessara athuguna, og hefur síðan verið að þeim unnið af starfsliði Hafnamálastofnunarinnar. Rn. hefur fylgzt með gangi málanna. Hin fyrstu ár var safnað grunnupplýsingum og gerðar frumathuganir. S. l. tvö ár hefur hins vegar verið unnið að gerð lokaskýrslu þeirrar, sem hér fylgir og byggir á áður nefndum frumgögnum og forsendum, sem Hafnamálastofnunin hefur talið réttastar. Í skýrslunni er gerð grein fyrir athugunum og forsendum á sem breiðustum grundvelli og þeim niðurstöðum, sem meginmáli skipta á þessu stigi, áður en frekari ákvarðanir eru teknar um hafnargerðina. Gerðar hafa verið tvær till. að höfn við Dyrhólaey ásamt kostnaðaráætlunum með það fyrir augum, að þær áætlanir verði notaðar við samanburð valkosta. Till. ber því eigi að skoða sem endanlegar hvað varðar gerð og legu hafnarinnar, heldur sem líklegar lausnir, og þá fyrst og fremst stefnt að því, að raunhæfar kostnaðartölur fáist. Of margar af forsendum í félagslegu tilliti skortir, svo að hægt sé að gera raunhæfa mynd af þörf fyrir höfn eða einstök hafnarmannvirki á svæðinu. Skýrslan er hugsuð sem einn þáttur, þ. e. a. s. verkfræðiþátturinn, í væntanlegri heildarathugun, sem leiðir til ákvörðunar um framvindu þessa máls.

Allra virðingarfyllst,

Aðalsteinn Júlíusson.“

Um tilganginn með starfinu segir vitamálastjórinn m. a. þetta:

„Áhugi hefur lengi verið fyrir byggingu hafnar við Dyrhólaey og hugmyndir uppi þar um allt frá því um aldamót. Landið við Dyrhólaey liggur vel við einum beztu sveitum landsins, og fengsæl fiskimið eru skammt undan. Erfið hafnarskilyrði hafa hins vegar komið í veg fyrir, að hafizt yrði handa um hafnargerð. Áður en mikil vinna er lögð í athuganir og rannsóknir og útreikninga vegna lokahönnunar hafnar við Dyrhólaey, er rétt, að tekin sé ákvörðun um, hvort hafnargerðin komi yfirleitt til greina nú vegna erfiðra aðstæðna og mikils kostnaðar. Ef bygging hafnarinnar verður talin möguleg, þarf nokkurra ára rannsóknir og undirbúningsvinnu, áður en að lokahönnun hafnarinnar verður komið. Megintilgangur þessarar skýrslu er að auðvelda valdhöfum að taka ákvarðanir um framgang þessa máls með því að upplýsa um tæknilega og kostnaðarlega hlið hafnargerðar við Dyrhólaey.

Með nútímatækni er hægt að byggja örugga höfn við Dyrhólaey fyrir vöruflutninga- og fiskiskip. Miðað er við, að höfnin sé alltaf fær til inn- og útsiglingar fyrir skip allt að 6 þús. rúmlestir, brúttótonn, nema í aftökum fáeina daga á ári, og að öruggt lægi sé í höfninni í öllum veðrum. Hafnargerð við Dyrhólaey er hins vegar mjög örðug viðfangs. Hafrót er mikið við ströndina, og ölduhæð er með því mesta, sem gerist hér við land, þar sem hafnir hafa verið byggðar. Stormar eru tíðir. Mikill sandburður er meðfram ströndinni, sem breytt getur siglingaleiðum á grunnsævi skyndilega. Vegna hafróts og sandburðar verða ytri garðarnir, hinir eiginlegu brim- og sandvarnargarðar, að ná út á mikið dýpi, ella brotnar aldan í og framan við hafnarmynnið. Sigling inn og út yrði þá oft ófær, auk þess sem mikill sandburður yrði við hafnarmynnið, sem kosta mundi þrotlausar dýpkanir. Áætlað er, að hafnarmynnið verði á um 12 metra dýpi miðað við meðalstórstraumsfjöru. Stór ytri höfn er auk þess nauðsynleg, svo að hafaldan nái að deyfast þar það mikið, að nægileg kyrrð skapist við hafnarbakka í innri hafnarkvíum:

Ég hleyp hér yfir langan kafla, en þar er minnt á, að þessar áætlanir báðar um höfn vestan Dyrhólaeyjar og austan Dyrhólaeyjar eru, miðað við verðlag 1972, eitthvað á 3. milljarð kr., eitthvað milli 2 og 3 þús. millj. kr. Bið ég menn að hugleiða í sambandi við það, að brúttófjárframlög til allra hafna á Íslandi eru nú aðeins 10. hluti þess eða um 200 millj. kr., svo að hér er óneitanlega um stórt mannvirki að ræða á íslenzkan mælikvarða. Til þess að lýsa aðstöðunni segir þarna til viðbótar því, sem ég nú hef lesið:

„Við Dyrhólaey er við hrikaöfl náttúrunnar að etja, og allar breytingar á eðlilegu jafnvægi geta haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar, ef ekki er farið að öllu með gát. Færi svo, að hafnargerð yrði ekki hafin á næstunni, hafa þær athuganir og rannsóknir, sem gerðar hafa verið og gerðar verða, samt mikið gildi fyrir landið, bæði frá hagrænu og vísindalegu sjónarmiði, þar sem þær eiga ekki aðeins við Dýrhólaeyjarsvæðið, heldur meginhluta suðurstrandarinnar.“

Enn segir svo í inngangsorðum vitamálastjórans:

„Ýmsar athuganir og rannsóknir hafa verið gerðar á síðustu 20 árum á hafnarskilyrðum, einkum við Dyrhólaey. Í þessari skýrslu er gerð grein fyrir þessum rannsóknum og tæknilegum forsendum hafnargerðar þar og byggingarkostnaði fiski- og vöruhafnar, sem þjónað gæti fiskiskipaflota, er gerður væri út frá ca 2000 manna byggðarlagi, og annað eðlilegri flutningaþörf nágrannasveita.“

Ég held, að það sé eðlilegast, að þeir hv. alþm., sem hafa sérstakan áhuga á að kynna sér þessa ítarlegu og miklu skýrslu, — sem mikið starf liggur á bak við óneitanlega, einkanlega á síðustu tveimur árum, — þeir fái eintak af skýrslunni. Eins og ég áðan sagði, hafa þm. Sunnl. fengið þessa skýrslu í hendur, og bæjaryfirvöld Vestmannaeyja fengu hana á sínum tíma líka, en aðrir þm., fyrirspyrjandi og aðrir, sem áhuga hafa á málinu, munu geta fengið a. m. k. nokkur eintök af þessari ítarlegu skýrslu á skrifstofu vita- og hafnamálastjóra.

Þetta er það, sem ég tel ástæðu til að segja nú varðandi það, sem spurt var um höfn við Dyrhólaey.