27.02.1973
Sameinað þing: 50. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2159 í B-deild Alþingistíðinda. (1704)

292. mál, hafnargerð í Dyrhólaey

Fyrirspyrjandi (Bjarni Guðnason) :

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. félmrh. fyrir svörin. Því miður verð ég að segja það, að lítið kom fram í þeim, en hæstv. ráðh. er það ekki láandi, því að málin standa þannig, að það er erfitt að taka á þessu flókna vandamáli. Þessi mikla skýrsla frá hafna- og vitamálaskrifstofunni, sem liggur fyrir, er sjálfsagt athyglisverð, og hafði ég hugboð um hana. Það virðist hafa legið alllengi á þessari skrifstofu nokkur tregða til að taka föstum tökum á þessu máli. og ég vil sérstaklega vekja athygli þingheims og þá hæstv. félmrh. á því, að skömmu síðar en skýrsla sú, sem hann minntist á, kom út, birtist einnig önnur skýrsla eftir Pálma Jóhannesson verkfræðing, sem heitir Athugasemdir við verkfræðilega skýrslu vita- og hafnamálaskrifstofunnar um hafnarframkvæmdir við Dyrhólaey. Pálmi Jóhannesson verkfræðingur hefur kannað þessi mál ítarlegar en aðrir þeir, sem nú vinna á þessari fyrrgreindu skrifstofu, og dregur hann í efa ýmsar meginniðurstöður, sem hæstv. félmrh. minntist á, bæði hvað varðar kostnað og ýmis önnur veigamikil atriði. Ég vil aðeins benda á það, að á bls. 21 í þessari skýrslu er birt niðurstaða. Þar er t. d. gert ráð fyrir, að kostnaðurinn sé 1.5 milljarður ísl. kr., en ekki á 3. milljarð. Það er gert ráð fyrir, að höfnin sé byggð í áföngum, og ýmiss konar meginatriði eru þar tekin fram, sem stangast mjög á við niðurstöður þeirrar skýrslu, sem hæstv. félmrh. minntist á. Ég vil líka minna á, að það er til rækileg ritgerð eftir Sigurbjart Jóhannesson, sem er félagsleg byggðarannsókn á Mýrdalnum, og þær forsendur, sem þar liggja fyrir um gerð hafnarinnar. Ég tel, að þetta séu svo veigamiklar skýrslur, að ekki sé unnt að einblína á skýrslu embættismannanna. Ég hef lesið þessi gögn eftir beztu getu, og ég vil leggja eindregið að hæstv. félmrh. að skipa n. sérfræðinám, verkfræðinga og annarra, og reyna að taka þessi mál föstum tökum. Það er óþolandi að velkjast með svona stórmál annars vegar milli tregra embættismanna á vita- og hafnamálaskrifstofu og hins vegar djarfhuga verkfræðinga og heimamanna, sem vilja, að þetta mál sé tekið föstum tökum, en allt stendur fast. Ég held, að það væri afskaplega nauðsynlegt að gera einu sinni rækilegan skurk í þessu máli og eins og ég segi fá n. þar til hæfra manna til þess að setjast niður og gera áætlun, sem menn geta þó a. m. k. dregið þær ályktanir af, hvernig eigi að halda málinu áfram. Mér sýnist málið velkjast ár eftir ár og ekkert sé gert raunhæft í því. Ég vil eindregið mælast til þess, að hæstv. samgrh. taki nú af skarið um þetta efni, því að mér sýnist, að ekkert muni geta gerzt í þessu máli, nema hæstv. samgrh. láti að sér kveða.