26.10.1972
Sameinað þing: 9. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 380 í B-deild Alþingistíðinda. (171)

12. mál, samkeppnisaðstaða íslensks skipasmíðaiðnaðar

Flm. (Lárus Jónsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér ásamt þeim hv. 1. þm. Reykn., 2. þm. Vesturl. og 11. landsk. þm. að flytja á þskj. 12 till. til þál. um könnun á samkeppnisaðstöðu íslenzks skipasmíðaiðnaðar við erlendan. Till. þessi var flutt seint á síðasta þingi, en fékk ekki afgreiðslu. Hún er svo hljóðandi:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að láta gera könnun á samkeppnisaðstöðu íslenzks skipasmíðaiðnaðar við erlendan, einkum í þeim löndum, sem nú eða náinni framtíð smíða fiskiskip fyrir Íslendinga. Könnunin skal einkum taka til samanburðar á beinni og óbeinni fyrirgreiðslu viðkomandi ríkisstj. til skipasmíðaiðnaðarins, samanburði á skattlagningu hans, mismunandi vinnulaunum, vinnutíma, svo og þeim þáttum, sem valda mestu um misjafnan beinan og óbeinan launakostnað skipasmíðastöðvanna í hinum ýmsu löndum, og enn fremur skal samanburðurinn ná til misjafnrar aðstöðu til innkaupa á vélum, tækjum og efni til smíðanna. Niðurstaða könnunarinnar verði til leiðbeiningar stefnu Alþ, og stjórnvalda um nauðsynlega fyrirgreiðslu við íslenzkan skipasmíðaiðnað.“

Í grg. till. segir m.a.: „Vitað er, að skipasmíðaiðnaðurinn er sú iðngrein í veröldinni, sem ríkisstj. viðkomandi landa hafa einna mest afskipti að á einn eða annan hátt. Þá er óhætt að fullyrða, að þau kjör, sem verkafólk hefur á Spáni og í Póllandi, svo að dæmi séu tekin, eru ólíkt lakari en hér á Íslandi, sem auðvitað kemur niður á samkeppnisaðstöðu skipasmíðaiðnaðarins, þar sem sú samkeppni á sér stað án tollmúra á skráðu gengi viðkomandi gjaldmiðils.“

Enn fremur segir: Ljóst er, að þegar ráðizt er í eins mikil skipakaup og nú er gert, er nauðugur sá kostur að smíða verulegan hluta þeirra erlendis, þar sem afkastageta íslenzka skipasmíðaiðnaðarins er minni en svo, að hann geti afkastað því verkefni einn. Á hinn bóginn verður að gera þá kröfu til stjórnvalda, að þau afli sér sem gleggstra upplýsinga um samkeppnisaðstöðu íslenzka skipasmíðaiðnaðarins við þær erlendu stöðvar, sem smíða nú þessi skip fyrir Íslendinga, og geri jafnframt ráðstafanir til þess, að sú samkeppni leiði ekki til þess í framtíðinni, að veruleg atvinnustarfsemi flytjist burt úr landinu vegna ójafns aðbúnaðar og fyrirgreiðslu íslenzkra stjórnvalda við íslenzkan skipasmíðaiðnað miðað við það, sem gerist í aðalsamkeppnislöndunum.“

Það hefur komið fram í fjölmiðlum og einnig í svonefndri stefnuræðu hæstv. forsrh., að hæstv. ríkisstj. hyggist beita sér fyrir raðsmíði skuttogara innanlands. Því miður hefur aldrei mér vitanlega komið fram, með hvaða hætti þetta ætti að framkvæma. Það er mála sannast, að hefði slík könnun nú legið fyrir, væri miklu auðveldara fyrir hæstv. ríkisstj. að grípa til raunhæfra ráða til þess að sýna í verkí þennan vilja sinn. Ég vil með einföldu dæmi leitast við að lýsa því, um hversu óeðlilega samkeppni getur verið að ræða milli erlends skipasmíðaiðnaðar og innlends. Mér hefur verið tjáð af mönnum, sem ættu að þekkja til, að ríkisstyrkir á hvern togara, sem samið var um smíði á suður á Spáni fyrir nokkrum árum á föstu verði, um það bil 150 millj. kr., nemi 45 millj. kr. á skip. Þetta merkir, að upphaflegt tilboð spönsku skipasmíðastöðvanna væri í raun 195 millj. kr. í hvert skip á föstu verði. Nú herma fregnir, að þrátt fyrir þetta tapi stöðvarnar um 20 millj. kr. á hverju skipi og séu fyrir þær sakir að komast í rekstrarþrot. Þetta merkir, að raunverulegt kostnaðarverð hvers skips fyrir Spánverja er 215 millj. kr. Þau tilboð, sem Slippstöðin h/f gerði í svipuð skip á sínum tíma og þóttu ekki samkeppnishæf, hefðu samkv. lauslegri athugun nú numið nálægt 200 millj. kr. á skip, og er þá reiknað með allri hækkun vinnulauna. Það er augljóst mál. að það borgar sig fyrir okkur Íslendinga, svo fremi sem gæði skipanna verði eins og til stóð og þau verði afhent, að kaupa skip af Spánverjum fyrir 150 millj., sem kosta þá 215 millj. og hefðu kostað okkur hér heima smíðuð um 200 millj. En kjarni málsins er sá, hvort slík viðskipti borga sig, þegar til lengdar lætur.

Spurningin er, hvort hægt sé að hugsa sér, að íslenzkur skipasmíðaiðnaður geti raðsmíðað skuttogara, þegar slíkir samkeppnishættir ríkja, við þann aðbúnað, sem honum er nú búinn frá hálfu stjórnvalda. í fyrsta lagi sýnist mér það útilokað, og í öðru lagi virðist mér einsýnt, að það sé forsenda heilbrigðrar stefnu Alþ. og ríkisstj., að fram fari úttekt á því, hvort mikil brögð séu að viðlíka samkeppnisháttum og ég hef hér lýst. Vera má, að svo sé ekki og hér sé málum eitthvað blandað. Fyrr en könnun eins og sú, sem hér befur verið lagt til, að gerð verði, hefur farið fram, vitum við ekkert til eða frá um þetta mikilvæga mál, sem á er að byggja. Það sýnir m.a. þá brýnu nauðsyn, sem er á að gera þessa athugun.

Herra forseti. Ég legg til, að till. verði vísað til hv. allshn.