27.02.1973
Sameinað þing: 51. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2173 í B-deild Alþingistíðinda. (1715)

115. mál, verðjöfnunarsjóður vöruflutninga

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Ég skal vera stuttorður að þessu sinni. — Það var auðheyrt á hv. 2. landsk. þm., að hann hefur talsvert meiri trú á getu núv. stjórnarsinna í þessu efni heldur en fyrrv., og ég get verið honum alveg sammála um það.

Það var í sjálfu sér ekki nema eðlilegt, að hv. 5. þm. Austf. gæti varla stillt sig um að minna menn á fortíð í þessum efnum, þó að ég sé ekki endilega talsmaður þess, að það eigi að vera að hnýta í menn fyrir það, að þeir sjái að sér. Það á heldur að fagna því, að það birtist áhugi hjá mönnum, í þessum efnum sem öðrum. Ég a. m. k. fagna vissulega í hvert skipti, sem fram kemur hér mál á Alþ., sem er í þá átt að leiðrétta það geysilega misrétti, sem víða birtist í þjóðfélaginu eftir því, hvar búseta manna er í landinu.

Það er einmitt eitt af þeim málum, sem hér er nú til umr. Það er rétt, sem hér hefur komið fram, að það er geysilegt misrétti milli þess fólks, sem byggir hinar dreifðu byggðir í landinu og þéttbýlisstaðina. Og það er vissulega kominn tími til þess, að hv. þm. og stjórnvöld fari að taka hér raunverulega til hendinni og leiðrétta það misrétti, ekki bara á þessu sviði, heldur fjöldamörgum öðrum, sem átt hefur sér stað í þjóðfélaginu að því er varðar mismuninn milli dreifbýlisins og þéttbýlisins. Ég skil ekki, hvaða réttlæti er í því, að landsbyggðarfólk þurfi að borga 20%–30% meira fyrir vörur og þjónustu en fólk hér á Reykjavíkursvæðinu. Meðan slíkt ástand varir, væri a. m. k. eðlilegt að krefjast þess, að bæði launafólk og vinnuveitendur fengju tilsvarandi meira fyrir sína vinnu og sínar afurðir en þeir fá, eins og málum er nú háttað. En það er ekki bara það, að fólk úti í dreifbýlinu þurfi að borga svo og svo miklu meira fyrir að fá vöruna. Það er mikill tröppugangur á því, hvernig því tekst að ná til hennar, þó að það vilji borga meira fyrir hana og verði að gera það. Og með núverandi fyrirkomulagi á vöruflutningum, a. m. k. að vetrinum til, er það að mínu mati gersamlega óviðunandi.

Það er slæmt, að hæstv. samgrh. skuli ekki vera hér. Ég veit, að honum er kunnugt um þessi vandkvæði og hann tekur þau ábyggilega til greina. En ég veit dæmi þess, að á Vestfjörðum, og það er sjálfsagt ekkert síður á Austfjörðum, þurfi menn að bíða allt í 3 vikur eftir því að fá skipsferð með vörur til landshluta síns. Mér er sem ég sæi, eða heyrði, réttara sagt, í fólki hér á þéttbýlissvæðinu, ef það þyrfti að búa við slík kjör, sem þarna er um að ræða.

Hvort sem það er minn flokkur eða einhver annar flokkur eða hvaða þm. sem það eru, sem hreyfa hér málum, sem ég tel, að horfi til heilla, þá fagna ég því innilega. Og það er vissulega þörf að hreyfa þessum málum, og miklu fleiri málum, sem þyrfti að breyta til hins betra og jafna það herfilega misrétti, vildi ég segja, sem átt hefur sér stað, ekki bara núna, heldur verið að þróast á nokkuð löngum tíma milli þess fólks, sem býr í hinum dreifðu byggðum, og þess fólks, sem er hér á þéttbýlissvæðunum. Og það færi betur, að þessu yrði hreyft í víðari merkingu og á fleiri sviðum en því, sem hér er um að ræða, því að þess er vissulega þörf. Ef stjórnvöld, hv. þm., hafa trú á því, að það eigi að byggja landið að sem mestu leyti, þá er fyrir löngu kominn tími til að snúa við af þeirri óheillabraut, sem haldið hefur verið á í þessum efnum, og snúa hjólinu gersamlega við, öfugt við það, sem verið hefur, og styrkja með öllum ráðum og dáð það fólk, sem vill eiga sína búsetu úti á landsbyggðinni og leggja þar með kannske hvað drýgstan þátt af mörkum til þeirrar framleiðslu, sem við öll byggjum fyrst og fremst afkomu okkar á.