27.02.1973
Sameinað þing: 51. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2183 í B-deild Alþingistíðinda. (1722)

20. mál, vistheimili fyrir vangefna

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Ég vil þakka hv. allshn. afgreiðslu hennar á tillögu okkar þremenninganna, og ég vil einnig lýsa því yfir fyrir okkar hönd, að við föllumst fullkomlega á þær breytingar, sem lagt er til að gerðar verði á till. Það er einmitt mjög í samræmi við anda og tilgang tillöguflutnings okkar, að þessi mál verði rannsökuð sem allra bezt, og það var síður en svo ætlun okkar að málefni þessa fólks yrðu eingöngu rannsökuð eða athuguð í þeim landshlutum, þar sem við eigum búsetu. Það er því í raun og veru okkur fagnaðarefni, ef slík allsherjarrannsókn færi fram, slík allsherjarkönnun, og hún mætti þá leiða til þess, að í þessu máli yrði um almennar framfarir að ræða frá því, sem nú er, fyrir landið allt. Við erum ekki heldur í neinum vafa um það, að ef þessi rannsókn verður framkvæmd, muni hún leiða glögglega í ljós, hvar þörfin á þessum vistheimilum er brýnust. Við erum ekki í nokkrum vafa um það, að í þeim landshlutum, þar sem þessi vistheimili eru ekki, þá muni koma glögglega í ljós, að þeirra sé full þörf.

Ég verð að segja, að ég furða mig örlítið á umsögn landlæknis um þessa till. okkar, en veit, að hann hangir þarna í gömlum kenningum, byggðum á niðurstöðum dansks sérfræðings, sem hingað var fenginn til að athuga þessi mál, og voru þær á þá leið, að hér væri ekki um meiri fjölda en svo að ræða, að aðeins ein stofnun væri möguleg. Ég held, að þetta sé alveg rétt hvað snertir örvitana, þeir hljóti allir að vera á einni og sömu stofnun. En hvað snertir ýmsa aðra vangefna held ég, að þetta sé alls ekki rétt, enda hafa forráðamenn Styrktarfélags vangefinna snúið mjög frá þessari braut, sem danski sérfræðingurinn markaði á sínum tíma, og halda því nú alveg ákveðið fram, að grundvöllur fyrir slík vistheimili sé víðar. Samkv. þessum kenningum landlæknis ætti t. d. Sólborgarheimilið á Akureyri, sem er til hreinnar fyrirmyndar í rekstri, að vera óhæft.

Ég held, að þessi umsögn landlæknis sé byggð eingöngu á þessari gömlu kenningu, sem hefur þegar reynzt vera að miklu leyti röng.

Ég vil sem sagt f. h. okkar flm. fagna þessari afgreiðslu og veit, að till. muni hljóta hér stuðning. Hún hefur fengið góðar undirtektir hér áður. Og ég vona, að sú heildarkönnun, sem hér er lagt til, verði leiðin til þess, að málefna þessa fólks verði enn betur sinnt. Sérstaklega vænti ég þess, að rannsóknin leiði í ljós varðandi það, sem við lögðum áherzlu á, að vistheimili fyrir vangefna yrðu reist í þessum fjórðungi, á Vestfjörðum og Austurlandi, að þeirra sé þar full þörf.