28.02.1973
Efri deild: 64. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2184 í B-deild Alþingistíðinda. (1728)

183. mál, lögreglustjóri í Hafnarhreppi í Austur-Skaftafellssýslu

Páll Þorsteinsson:

Herra forseti. Eins og þetta frv. ber með sér, er það stjfrv., og ég hefði vænzt þess samkv. venju, að sá hæstv. ráðh., sem frv. flytur, mundi mæla fyrir því við 1. umr. Nú kemur í ljós, að hæstv. ráðh. er ekki í húsinu og hefur ekki aðstöðu til að vera á þessum fundi, en málið eigi að síður tekið til 1. umr., og þykir mér þá rétt að segja um það nokkur orð, áður en það fer til nefndar.

Ég vil þá þegar í upphafi þessarar umr. taka fram, að ég fagna því, að þetta frv. er fram komið, og vil þakka hæstv. dómsmrh. fyrir, að hann flytur frv. og beitir sér fyrir þessu máli.

Höfn í Hornafirði er einn þeirra staða á landinu, sem eru í örum vexti. Ég skal nefna nokkrar tölur, sem tala skýru máli um það, hvað vöxtur kauptúnsins er ör. Það eru ekki liðin nema 75 ár, síðan fyrstu húsin voru reist á Höfn, og voru þá byggð 3 hús í landi jarðarinnar Hafnarness. Um tæplega 5 áratugi var Höfn hluti af Nesjahreppi, en fyrir 26 árum, rúmum aldarfjórðungi, var Nesjahreppi skipt og Hafnarhreppur gerður að sérstöku sveitarfélagi. Þá voru íbúar Hafnarhrepps um 300, en nú er íbúatalan í kauptúninu komin á 11. hundrað. Þetta sýnir, að á 20 árum hefur íbúatalan á þessum stað þrefaldazt og á 30 árum fjórfaldazt. Á hinum síðari árum hefur íbúafjöldinn á Höfn vaxið svipað frá ári til árs. Á þessu sviði hefur verið nokkurn veginn jöfn og samfelld þróun, en ekki sveiflur ætla má, að þessi þróun haldi áfram næstu ár og áratugi, og margt bendir til þess, að hún örvist, fremur en búast megi við afturkipp. Hornafjörður er og verður mikilvæg fiskihöfn. Fiskimiðin úti fyrir Suðausturlandi eru meðal hinna beztu hér við landið, og á Hornafirði hefur verið lagður afli á land allt árið, jafnt sumar sem vetur. Með stækkun landhelginnar má búast við stórauknum afla á þessum slóðum. Íbúar 5 sveitarhreppa sækja verzlun og ýmis önnur viðskipti til Hafnarkauptúns, svo að staðurinn hefur að baki blómlegt landbúnaðarhérað. Og augljóst er, að með tilkomu hringvegarins, þ. e. a. s. tengingu akvega sunnan jökla, verður Höfn mikill ferðamannabær, miklu meiri ferðamannabær en orðið er, þótt þar sé nú þegar allmikil ferðamannaþjónusta. Verði þessi þróun framvegis á sama veg og hún hefur verið að undanförnu, eins og gert er ráð fyrir, þá mun íbúafjöldi Hafnar í Hornafirði enn þrefaldast á um það bil 20 ára tímabili.

Af þessu og ýmsu fleiru, sem hér skal ekki rakið, má draga þá rökréttu ályktun, að eftir tiltölulega stuttan tíma verði Höfn orðin stærra byggðarlag en sumir kaupstaðir landsins eru nú hver fyrir sig, t. d. Ísafjörður, Siglufjörður, Sauðárkrókur, Ólafsfjörður, Húsavík, Seyðisfjörður og Neskaupstaður. Ekki verður hjá því komizt að hafa allmikla löggæzlu á Höfn, eins og aðstaða er þar nú. Augljóst er þó, að þá starfsemi verður að efla, eftir því sem mannfjöldi þar vex. Straumur innlendra og erlendra ferðamanna þangað eykst, og æ fleiri skip frá ýmsum stöðum leita þar hafnar. Hornafjörður er eina innflutningshöfnin í Skaftafellssýslu. Þar er leyst af hendi tollgæzla, og sú starfsemi hlýtur að aukast. Í ört vaxandi byggðarlagi þarf jafnframt að sinna fleiri og fleiri viðfangsefnum og fyrirgreiðslu við almenning, sem lögfræðilega þekkingu þarf til að leysa af hendi, ef vel á að fara. Samkv. frv. þessu á lögreglustjóri í Hafnarhreppi að hafa á hendi dómsvald, lögreglustjórn, tollgæzlu, innheimtu á gjöldum og störf, sem hreppstjóri hefur annazt o. fl. Þessi embættismaður mun því vissulega fá næg verkefni við að fást.

Tengsl Austur-Skaftafellssýslu og Vestur-Skaftafellssýslu um stjórnsýslu og sveitarmálefni hafa tekið breytingum á ýmsum tímum. Um langt skeið fyrr á öldum voru sýslurnar tvö lögsagnarumdæmi og höfðu hvor sinn sýslumann. T. d. má minnast þess, að á tímabilinu frá 1730–1740 var Skúli Magnússon, síðar landfógeti, sýslumaður Austur-Skaftfellinga um þriggja ára skeið, og mun hann þá hafa haft aðsetur í Bjarnanesi. Langt er þó síðan Skaftafellssýslur voru gerðar að einu lögsagnarumdæmi, en samkv. lögum frá 1877 er Skaftafellssýslu þá skipt í tvö sýslufélög, að því er sveitarmálefni snertir. Í þessum lögum segir: „Skeiðarársandur skilur sýslufélög Skaftafellssýslu eins og sýslur að fornu. Hvort þessara sýslufélaga hefur sinn fjárhag og sveitarmálefni út af fyrir sig.“ Þessi skipan helzt enn. Austur-Skaftafellssýsla og Vestur-Skaftafellssýsla eru eitt lögsagnarumdæmi, en hvort þessara sýslufélaga hefur sinn fjárhag og sveitarmálefni út af fyrir sig.

Sýslumaður Skaftafellssýslu situr í Vík, eins og kunnugt er. Fyrr á árum, t, d. á fyrsta þriðjungi þessarar aldar, var aðstaða sýslumannsins þannig, að hann, eins og allir aðrir á þeim tíma, ferðaðist um lögsagnarumdæmið á hestum. Á þeim tíma var Höfn lítið byggðarlag, hluti af Nesjahreppi og umsvif þar lítil. Sýslumaður lét þá að jafnaði nægja að ferðast um Austur-Skaftafellssýslu einu sinni á ári hverju, venjulega í júnímánuði. Þá stjórnaði hann sýslufundi og hélt manntalsþing í hreppnum. Að öðru leyti veittu hreppstjórar þá sýslumanni fullnægjandi aðstoð hver í sínum hreppi. Á s. l. 20–30 árum hefur aðstaðan að þessu leyti breytzt á ýmsan hátt. Skeiðarársandur hefur upp á síðkastið verið lítt yfirstíganlegur þröskuldur á þjóðveginum. Þegar sýslumaðurinn í Vík hefur þurft að ferðast til Hafnar og um Austur-Skaftafellssýslu, helming lögsagnarumdæmisins, þá hefur leið hans legið frá Vík til Reykjavíkur um tæpa 200 km, síðan í flugvél frá Reykjavík til Hornafjarðar, og þjóðvegurinn um Austur-Skaftafellssýslu á báða vegu frá Höfn, milli Lónsheiðar og Skeiðarársands, er ámóta vegalengd eins og leiðin milli Víkur og Reykjavíkur. Ætli nokkur sýslumaður eða bæjarfógeti á landinu þurfi jafnmikið á sig að leggja við ferðalög til þess að ferðast um starfssvæði sitt.

Verkefni við lögfræðileg störf og margháttaða fyrirgreiðslu hafa og vaxið að miklum mun og fara enn vaxandi. Aðstaða á Höfn er orðin þannig, að óhjákvæmilegt er að hafa þar trausta löggæzlu. Sýslumaður getur ekki sökum mikillar fjarlægðar haft daglega umsjón með þeirri starfsemi, og aðstaða hans er vissulega óhæg, þegar ýmis rannsóknarefni ber að höndum óvænt, svo sem þegar varðskip færa til hafnar á Hornafirði skip, sem tekin hafa verið í landhelgi að meintum ólöglegum veiðum, og hefja þarf rannsókn málsins tafarlaust. Ég er þess fullviss, að sýslumaður Skaftafellssýslu hefur jafnan viljað sinna svo vel sem aðstæður leyfa þeim málum á Höfn, sem embættið varða. Gildir það jafnt um þann mann, sem nú gegnir embættinu, og um þá, sem áður hafa skipað það sæti. En þrátt fyrir það hefur oft komið fram hjá Austur-Skaftfellingum og einkum íbúum Hafnarhrepps, að vegna mikillar fjarlægðar sýslumanns skorti nokkuð á, að honum sé auðið að veita á Höfn svo góða þjónustu sem skyldi. Það eru orðin allmörg ár síðan þetta mál var fyrst tekið til umr. í Austur-Skaftafellssýslu, og þessu máli hefur jafnan verið haldið vakandi þar í héraðinu síðan. Mér er kunnugt um, að sýslunefnd hefur gert sýslumanni grein fyrir þessu sjónarmiði heimamanna á Höfn, og mér er einnig kunnugt um, að hreppsnefnd Hafnarhrepps hefur rætt þetta mál við sýslumann og borið fram ákveðnar óskir um aukna lögfræðilega þjónustu í Höfn. Um nálega 30 ára skeið hefur sá háttur verið á hafður í Austur-Skaftafellssýslu, að árlega hafa verið haldnir í héraðinu fulltrúafundir, þar sem rædd eru og gerðar ályktanir um ýmis málefni, er héraðið varðar. Margar samþykktir eru fyrir hendi frá þessum fundum, þar sem einróma hefur verið farið fram á, að löglærður fulltrúi sýslumanns Skaftafellssýslu hefði fast aðsetur á Höfn og starfaði þar eða komið verði á fót embætti sérstaks lögreglustjóra á Höfn. Fleiri hugmyndir hafa og komið þar fram um breytta skipan á þessu sviði.

Samkv. þessu frv. skal frá og með næstu áramótum leggja niður starf hreppstjóra í Hafnarhreppi, en í þess stað skal starfa þar lögreglustjóri, sem er lögfræðingur og fullnægir lögmæltum skilyrðum til skipunar í héraðsdómaraembætti. Með þessu frv. eru því tekin til greina eindregin og margítrekuð tilmæli Austur-Skaftfellinga um aukna lögfræðilega þjónustu á Höfn. Ég hóf mál mitt á því að þakka hæstv. dómsmrh. fyrir að flytja þetta frv. Ég vil nú, áður en ég lík þessu máli, víkja að því, sem ráðherrar hafa áður gert í því skyni að koma til móts við óskir Austur-Skaftfellinga í sambandi við þetta mál. Mér er einnig ljúft og skylt að minnast þess og þakka það. Á þeim tíma, þegar hv. 2. þm. Eyfirðinga. Magnús Jónsson, gegndi embætti fjmrh. og hv. l. þm. Reykv., Jóhann Hafstein, gegndi embætti dómsmrh., var fyrir þeirra atbeina og í samræmi við óskir frá mér og fleiri Austur-Skaftfellingum tekin upp fjárveiting til þess, að sýslumaður Skaftafellssýslu gæti ráðið til starfa við embættið löglærðan fulltrúa. Það var þá tekið fram, m. a. í grg. fjárlagafrv., að þetta væri gert með tilliti til aukinnar starfsemi á vegum embættisins í Austur-Skaftafellssýslu. Austur-Skaftfellingar gerðu sér vonir um, að þá væri miðað við, að fulltrúi sýslumanns hefði fast aðsetur á Höfn og starfaði þar á vegum sýslumannsembættisins, en þetta hefur ekki orðið svo í framkvæmd. Á þeim tíma, þegar hv. 2. þm. Reykv., Auður Auðuns, gegndi embætti dómsmrh., var þetta mál rætt á ný með sérstöku tilliti til aðstöðu og verkefna á Höfn. Það féll í minn hlut að eiga þær viðræður við þáv. ráðh. ásamt oddvita Hafnarhrepps og sveitarstjóra á Höfn. Þáv. dómsmrh., hv. 2. þm. Reykv., athugaði málið með velvilja og af góðum skilningi. Fyrir áhrif frá honum, þáv. dómsmrh., var komið á fót á Höfn vísi að skrifstofu á vegum sýslumannsembættisins og þar valinn til starfa maður, sem unnið hafði m. a. sem lögregluþjónn, en hefur ekki lögfræðimenntun. Því miður hefur reynslan af þessari tilhögun á starfi ekki orðið svo góð sem vonir stóðu til. Og þannig er nú komið eftir tiltölulega stuttan tíma, að sá vísir að skrifstofu, sem búið var að setja á fót á Höfn, er því miður lagður niður og sú fyrirgreiðsla, sem þar var veitt um stuttan tíma, ekki lengur með því sniði. Fyrir því er að mínum dómi ríkari ástæða en ella væri til þess að stíga nú það skref, sem lagt er til með þessu frv., að tekið verði, og ég vona það og vænti þess, að samstaða verði hér á þinginu um samþykkt þessa frv.