28.02.1973
Neðri deild: 58. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2198 í B-deild Alþingistíðinda. (1733)

146. mál, skólakerfi

Pálmi Jónsson:

Herra forseti. Það orkar ekki tvímælis, að það er vandasamt viðfangsefni að setja löggjöf, sem leggur grundvöllinn að undirstöðumenntun þjóðarinnar um komandi framtíð. Þetta viðfangsefni liggur nú fyrir hv. Alþ. í formi þeirra frv., sem hér eru til umr. þessi frv., sem hér eru flutt, eiga sér nokkuð langan aðdraganda og undirbúning, eins og lýst hefur verið. Ég vil lýsa því yfir, að svo vandasamt mál sem þetta ber fremur að gefa sér enn aukinn tíma til þess að skoða í öllum atriðum heldur en að flaustra því af nú á þeim stutta tíma, sem eftir er þessa þings, og fer það saman við skoðanir ýmissa annarra ræðumanna, sem hér hafa þegar talað. Núgildandi fræðslulög frá 1946 eru orðin yfir aldarfjórðungsgögnum. Þrátt fyrir það eru þau enn ekki komin til framkvæmda í öllum atriðum eða í öllum skólahverfum. Það hefur verið verðugt verkefni á undanförnum árum að sjá til þess, að gildandi löggjöf kæmi til framkvæmda og að þar bæru ekki einstakir hópar þjóðfélagsins skarðan hlut frá borði, eins og raun ber vitni um.

Þótt þau frv., sem hér eru til umr., yrðu lögfest á þessu þingi, er gert ráð fyrir því, að þau yrðu naumast komin til framkvæmda fyrr en að 10 árum liðnum. Grunur minn er sá, að þessi tími kynni að lengjast eitthvað, og er þar stuðningur við þá skoðun mína, sem ég hef lýst hér í upphafi, að við skulum ekki flaustra af málunum, við skulum skoða þau gaumgæfilega, og Alþ. verður að gera sér grein fyrir afleiðingum þess að samþykkja slík frv. í öllum greinum.

Þau sjónarmið, sem ég tel, að brýnast sé að hafa í huga við setningu slíkra laga, sem hér eru til umr., eru : Í fyrsta lagi, að fyllsta jafnréttis sé gætt milli þegna þjóðfélagsins, hvar sem þeir búa, og á milli nemenda þrátt fyrir mismunandi aðstöðu þeirra fjárhagslega. Í annan stað, að þess sé gætt, svo sem kostur er, að árangur skólastarfsins verði sá, sem til er ætlazt, ekki einasta að auka menntun þegnanna, heldur einnig menningu þeirra. Ég skal taka það fram, að eftir þessu frv. sýnist mér stefnan vera sú að gæta jafnréttis meðal þegnanna, bæði frá landfræðilegu og fjárhagslegu sjónarmiði, og er það vel. Ég lít hins vegar svo á, að leiðirnar að þessu markmiði geti orkað tvímælis og þar megi fara eftir fleiri vegum.

Í þessu sambandi vil ég lýsa því hér yfir, að ég efast mjög um, að sú lenging skólaskyldunnar, sem frv. fela í sér, sé heillavænleg. Og ég lýsi því enn fremur yfir, að ég tel, að lenging skólaársins sé varhugaverð. svo að ekki sé meira sagt, og skal ég reyna að styðja þessa skoðun mína nokkrum orðum.

Á undanförnum árum hefur það valdið vaxandi áhyggjum í þjóðfélaginu, hversu tengsl fólksins, sem er í skólum landsins — og þá ekki sízt æðri skólum — við atvinnulífið hafa farið þverrandi og að skólakerfið hefur sýnzt vera með því marki brennt, að það jafnvel verki í þá átt, að fólk fjarlægist atvinnuhætti þjóðarinnar. Í sambandi við lagasetningu af þessu tagi er nauðsynlegt að gefa því sérstakan gaum, hvernig megi ráða bót á þessu. Nú er það svo, að ef skólaár skyldunáms er lengt upp í 9 mánuði, þá sýnist mér, að þar sé verið að stefna í þveröfuga átt í þessu efni. Það er stefnt að því að halda nemendum á skyldunámsstigi inni í skólum svo lengi, að miklu minni tími gefst til en ella, að þeir geti kynnzt af eigin raun og tekið þátt í atvinnulífi þjóðarinnar til sjávar og sveita. En það er einmitt að minni hyggju stórkostlegt uppeldislegt atriði, sem jafnframt hefur þjóðhagslegt gildi. Það hefur verið eitt af einkennum skólakerfisins íslenzka, að nemendur hafa getað aflað sér tekna með því að stunda atvinnu að sumarlagi og staðið þannig sjálfir að nokkru undir þeim kostnaði, sem þeir leggja í við nám sitt. Með því að lengja skólatímann er mjög skertur sá tími, sem nemendum gefst til að afla sér tekna í þessu skyni.

Um lengingu skólaskyldunnar er það að segja, að mér sýnist það orka mjög tvímælis, hvort það sé til góðs. Er það víst, að fræðsluskylda sé ekki jafnheppileg leið? Því hefur verið haldið fram, að fræðsluskylda hafi brugðizt hlutverki sínu hér á landi, og það er tekið sem dæmi því til sönnunar, að nemendur í landinu, eftir að skólaskyldu lýkur, sæki ekki framhaldsnám nema sem svarar rúmlega 80% og að meiri hluti hinna 20% nemendanna sé úr strjálbýli og smærri sjávarplássum. Þetta vilja þeir, sem leggja til, að skólaskylda verði aukin, taka sem sönnun fyrir því, að fræðsluskyldan hafi brugðizt. Ég er ekki á sömu skoðun. Fræðsluskyldan hefur að mínu mati brugðizt að þessu leyti vegna þess, að ríkisvaldið hefur ekki lagt fram nægilegt fé til þess að koma áfram skólabyggingum og skapa aðstöðu til þess, að fræðsluskylda gæti komið að notum. Það hefur ekki tekizt að koma upp nægum skólamannvirkjum í heimabyggðum nemenda, svo að þeir gætu með góði móti sótt skóla og aflað sér fræðslu eins og hugur þeirra hefur staðið til. Ef þessum þætti hefði verið hrundið í framkvæmd, ef ríkisvaldið hefði haft úr nægum fjármunum að spila og getað komið upp skólamannvirkjum úti um land, svo að þeirra væri hvergi skortur, þá hygg ég, að þessi mikli munur, sem kemur fram í aths. með frv. um skólasókn nemenda úr strjálbýli og þéttbýli, væri ekki fyrir hendi.

Ég lít svo á, að sú skoðun, sem ég hreyfi hér um efasemdir og andmæli við lengingu skólaskyldu og skólaársins, sé engin hjáróma rödd. Í aths. með þessu frv. eru prentaðar umsagnir ýmissa aðila, sem fengið hafa frv. til meðferðar, og fjölmargir þessara aðila hafa gagnrýnt lengingu skólaskyldunnar og lengingu skólaársins. Ég vil einnig minna á það hér, að skólastjórafundur gagnfræðanámsins, sem haldin var á Reykjum í Hrútafirði 1971, andmælti lengingu skólaskyldunnar. Þar eru þó að verki menn, sem gerzt þekkja, og þar eru ábyggilega ekki menn, sem vilja veg unglinganna og námsferil þeirra illt hér á landi. Ég minni einnig á það, að á þingi Fjórðungssambands Norðlendinga á síðasta hausti var lengingu skólaársins sérstaklega andmælt. Það má heita undrunarefni, hvað margir skólamenn, sem ég hef hitt, hafa borið í brjósti miklar efasemdir og andstöðu við þá lengingu skólaskyldunnar, sem ráðgerð er í þessum frv., og meginorsökin til þessara skoðana skólamannanna sjálfra er sú, að þeir hafa orðið þess varir, hve kennslan gengur betur, eftir að skyldunámi sleppir. Það verkar ekki vel á unga fólkið, að því sé sagt fyrir um það, hvað það eigi að læra, hvenær það eigi að læra og hvað lengi það eigi að læra. Í röðum skólafólks á skylduskyldunámsstigi er jafnan nokkur hópur, sem tekur ekki slíkum fyrirmælum ofan að með jafnaðargeði. Þetta fólk myndar kjarna þess ungafólks í þjóðfélaginu, sem mest hefur borið á með uppreisnarhug gegn yfirvöldum, löggæzlu, jafnvel foreldrum og skólakerfinu í heild. Ég hygg, að þarna sé að miklu leyti að finna rótina undir þeirri uppreisnargirni, sem svo mjög verður vart hjá nokkrum hópi fólks. Þó að ég tali hér um þennan hluta unga fólksins, er sjálfsagt að láta það koma ljóst fram, að hér er ekki um að ræða nema fámennan hóp miðað við heildina. En sá hópur eitrar út frá sér, hann torveldar skólastarfið, og hann kemur af stað vandræðum síðar meir í þjóðfélaginu, eins og raun hefur borið vitni. Þarna er meginorsökin fyrir því, að skólamennirnir sjálfir, einkum á miðskólastigi, hafa margir látið það í ljós, að þeir telji lengingu skólaskyldunnar og lengingu skólaársins fremur til hins verra en hins betra. Hitt er svo augljóst mál, að ef ekki væri horfið að þessari leið, þá þarf að gæta þess, að fræðsluskyldunni sé við haldið og hún aukin, þannig að hún sé ekki orðin tóm, heldur geti nemendur allir, hvar sem þeir búa á landinu og án tillits til fjárhagsástæðna, sótt sér það nám, sem hugur þeirra stendur til, og valið sér námsbrautir og lífsstarf við hæfi.

Hv. 8. landsk., sem hér talaði næstur á undan mér, taldi, að það væri rómantík liðinna tíma, að börn og unglingar á skólaaldri þyrftu að kynnast atvinnulífi þjóðarinnar og gætu fengið störf við sitt hæfi á þessum tíma. Ég er honum alls ekki sammála. Ég lít svo á, að það sé ekki síður þörf á því fyrir börn og unglinga þéttbýlisins, en fyrir sömu aldursflokka úr strjálbýli að kynnast atvinnulífi og taka þátt í því frá blautu barnsheini. Og ég hygg, að allir landsmenn viti, hvað foreldrar í þéttbýli leggja mikið upp úr því að koma börnum sínum í snertingu við einhverja tegund atvinnulífs, þegar á unga aldri. Ég lít svo á, að ef ekki væri horfið að þeirri lengingu skólaársins, sem þetta frv. gerir ráð fyrir, og þar með felldur niður nokkur kostnaður, sem þeirri lengingu skólaársins er samfara, mætti taka nokkra fjármuni til þess að auðvelda börnum og unglingum í þessum aldursflokkum að kynnast atvinnulífinu, efna til námskeiða og stofna sumarbúðir, þar sem þau gætu lagt hönd á plóginn í tengslum við atvinnulífið við sjó og í sveit, þjóðfélaginu til heilla og sjálfum sér til hagsbóta og sáluhjálpar.

Ég skal ekki fara mörgum fleiri orðum um þennan þátt málsins. Það er þó ljóst, að ef lengingu skólaskyldunnar væri hafnað og lengingu skólaársins hafnað, þá er viðhaldið í því kerfi, sem forsvarsmenn þessa frv. hafa kallað, að myndi gjá á milli skólaskyldunnar og framhaldsmenntunar í landinu, bæði í menntaskólum og sérskólum. Þarna er vitaskuld nokkur hnútur, sem þarf að leysa. En ef þetta stig fræðslukerfisins væri með þeim hætti, sem ég hef nefnt, að fræðsluskyldu væri viðhaldið, hygg ég, að nemendum væru brautirnar opnar. Ég skal þá ekki fara fleiri orðum um þennan þátt.

Ég hafði hugsað mér að drepa á nokkrar af einstökum gr. frv. Þegar hefur verið drepið á flest af því, sem ég hafði hugsað mér að ræða um. T. d. minnti hv. 8. landsk., sem talaði hér áðan, á bekkjardeildirnar, en það getur verið mjög bagalegt á einstökum stöðum, ef ekki fengist leyfi til þess að halda uppi bekkjardeildum á seinni stigum skyldunámsins fyrir færri nemendur en 15. Það hefur verið minnzt á það kerfi, sem ætlað er að koma upp af fræðsluskrifstofum, ráðgjafar- og sálfræðiþjónustu, og þann þátt, sem í þessu kerfi er ætlað að vera fólginn um dreifingu valdsins í yfirstjórn skólamálanna. Í þessum þætti málsins er að mínu viti sérstök ástæða til þess að gefa því gaum, að kerfið sé ekki flækt um of og að með þessu sé ekki einungis verið að fjölga þeim þrepum, sem þarf að ganga upp í gegnum yfirstjórn fræðslumálanna, til þess að ákvarðanir verði teknar. Það þarf að greina, svo sem frekast má vera, á milli ákvörðunarvalds fræðsluumdæmanna, fræðsluskrifstofanna og fræðsluráðanna í héruðunum og rn. Þetta atriði hygg ég, að sú n., sem þetta frv. fær til meðferðar, ætti að taka til sérstakrar athugunar.

Einnig vil ég drepa hér á 24. gr. frv., sem hefur verið gagnrýnd í mín eyru. Þar eru birtar reglur um það, hvernig með skuli fara skiptingu kostnaðar á milli einstakra sveitarfélaga, sem mynda sama skólahverfi, ef ekki næst samkomulag. Og þar segir, að skiptingin skuli miðast við eftirfarandi meginatriði:

a. Íbúafjölda.

b. Tekjur sveitarfélaganna næstliðið ár.

c. Þann barnafjölda, sem hverju sveitarfélagi ber að senda í skólann.

d. Kennslustundafjölda samkv. námsskrá í þeim bekkjum, sem aðild sveitarfélagsins miðast við.

Það, sem sérstaklega er við þetta að athuga, er b-liðurinn, að miða við tekjur sveitarfélagsins næstliðið ár. Allir, sem til þekkja í strjálbýli, vita, að þau tilvik geta komið, að einstök sveitarfélög, sem standa saman um byggingu samskóla og mynda eitt skólahverfi, geta hent þau tilvik, að mjög mismunandi þurfi að leggja á íbúana eftir sveitarfélögunum útsvör og önnur gjöld til sveitarfélags. Ef svo bæri t. d. við, að eitt af þessum sveitarfélögum þyrfti að kaupa jörð, sem ella lenti í höndum aðila, sem óæskilegt væri talið, og kosta til þess milljónum króna, þá gefur auga leið, að það þyrfti að afla sveitarfélaginu meiri tekna. Ef einhver sérstök óhöpp bæri að höndum, sem sveitarfélagið þyrfti sjálft að ráða bót á, þá þyrfti einnig að auka tekjur þessa sveitarfélags með þyngri gjöldum á þegnana. Og ef eitthvert sveitarfélagið er með á prjónunum sérstakar framkvæmdir af öðru tagi, sem kosta fé, þá gildir allt að einu hið sama. Það væri þá í hæsta máta óréttlátt að miða við þennan stofn. Miklu réttara er að miða við t. d. álagðan tekjuskatt, því að þar er grundvöllur fundinn, sem er hinn sami stofn fyrir alla aðila skólahverfisins og mismunar ekki sveitarfélögunum eftir þeirri aðstöðu, sem þau lenda í að öðru leyti. Og í síðasta lagi má benda á, að forráðamenn einstakra sveitarfélaga geta hagað álagningu sinni á þegnana með hliðsjón af þessari gr., ef hún stendur óbreytt, og hygginn sveitarstjórnarmaður mundi, ef fært væri, draga úr álögunum á þegnana og afla sveitarfélaginu minni tekna til þess að losna við að borga meiri hlut til samskóla. Ég hygg, að ég þurfi ekki að skýra það meira, sem mér finnst að þessari gr., og vænti, að hún verði tekin til athugunar við skoðun málsins.

Ég skal ekki víkja að fleiri gr. Það eru nokkrar fleiri, sem ég hafði í huga, en að þeim hefur þegar verið vikið af öðrum ræðumönnum.

Fram hefur komið, að talið er, að kostnaðaraukning við þá breytingu, sem fyrirhuguð er eftir þessum frv., sé 290 millj. kr. á rekstri skólanna. Hæstv. ráðh. sagði hér í fyrradag, að enginn vissi, hvað breytingin mundi kosta í stofnkostnaði skólanna. Ég hygg, að það séu harla óvenjuleg vinnubrögð að leggja frv. fram á Alþ., sem vitað er, að kosti slíka fjármuni sem þetta frv. og gera ekki tilraun til þess að leggja fram neinar áætlanir um það, hvað það muni kosta. Og ég tel það harla ólíklegt, að frv. verði afgreitt, ef ekki verður gerð grein fyrir því, hvaða fjármuni það muni kosta ríkið á komandi árum, ef það yrði samþykkt. Það er vitaskuld eitt af þeim meginatriðum, sem hv. Alþ. þarf að taka tillit til við afgreiðslu stórmála, hvaða fjármagn þarf til þess að hrinda þeim í framkvæmd.

Ég skal ljúka þessum orðum mínum með því að segja, að fjölmargt í þessu frv. er að mínu mati til hins betra. Ég endurtek það, sem ég minnti á í upphafi, að jafnréttishugsjónin, sem fram kemur í frv., er í samræmi við eitt af þeim meginsjónarmiðum, sem samning slíks frv. hlýtur að verða að hyggjast á. En sá grunur læðist að mér, að þótt þetta frv. væri afgreitt á þessu þingi, þá yrði jafnréttið viðurkennt að fullu á pappírnum, en hætt er við, að þegar því er fýst yfir, að ætla megi, að það muni taka a. m. k. áratug að ná því, að lögin yrðu framkvæmd, þá mundi enn sem fyrr hlutur þeirra, sem versta eiga aðstöðuna, liggja eftir og jafnréttið ekki verða í raun mikils virði fyrir þá. Þennan ugg minn vil ég þegar láta koma fram og vænti þess, að reynt verði að synda fram hjá því, að þessi uggur minn reynist vera réttur, ef frv. verður afgreitt.

Ég lýsi því enn yfir, að höfuðtilgangur að öðru leyti en hvað jafnrétti snertir hlýtur að miðast við það að sjá til þess, að árangur skólastarfsins verði sem beztur, að þar verði sinnt mismunandi eiginleikum nemendanna, þeim gefist kostur á að búa sig undir fjölþætt lífsstarf og að með aukinni menntun fylgi aukin menning. Og aukin menning, hygg ég, að verði ekki síður tryggð með því að skapa fullnægjandi aðstæður fyrir nemendur til að sækja skólanám af frjálsum vilja með fræðsluskyldu, án þess að skólaskyldan sé lengd og skólaárið lengt.