28.02.1973
Neðri deild: 58. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2203 í B-deild Alþingistíðinda. (1734)

146. mál, skólakerfi

Friðjón Þórðarson:

Herra forseti. Það er mikið verk að lesa yfir frv. til l. um skólakerfi og grunnskóla, hvað þá heldur að kynna sér málið til nokkurrar hlítar. Í grg, frv. um grunnskóla segir, að það hafi raunar verið í smíðum síðan 4. júlí 1969. Það er því komið hátt á 4. ár. Þar hafa margir lagt hönd að verki, margvíslegra gagna verið aflað og umsagnir látnar í té úr ýmsum áttum um frv. í heild og ýmsa einstaka þætti þess. Nú er það lagt fyrir Alþ. í annað sinn.

Merkur skólamaður sagði í ræðu fyrir tæpum tveimur árum m. a.:

„Sumir stjórnmálamenn virðast allt fram á þennan dag hafa talið sér trú um, að menntamál séu nokkurs konar einkanöldursefni skólamanna, sem ekki komi alvörustjórnmálum við. Aftur á móti sé stórpólitíkin næstum eingöngu í því fólgin að halda hjólum efnahagslífsins gangandi með gengisfellingum og uppbótum á víxl, sem ekki skal út af fyrir sig vanmetið, enda hefur það verið höfuðviðfangsefni íslenzkra stjórnmála síðasta aldarfjórðunginn.“

Það er rétt, sem þarna er að vikið, að oft vill það verða svo, að óþarflega mikið af þingtímanum eyðist í karp um alls kyns ráðstafanir í efnahagsmálum. Andinn verður að þoka fyrir efninu og bíða átekta um sinn, svo sem oft vill verða.

Það er ekki ætlun mín að ræða þetta frv. til l. um grunnskóla í löngu máli að þessu sinni. En örfá orð og aths. fannst mér rétt að láta falla nú þegar við 1. umr. málsins í hv. d., því að vel má fallast á það, sem segir í grg. frv., að vafasamt er, að nokkur löggjöf leggi þýðingarmeiri grundvöll fyrir þjóðarheild og einstaklinga en sú löggjöf, sem ákveður hina almennu grundvallarmenntun landsmanna. Og rétt er það, að tími virðist kominn til að endurskoða fræðslulöggjöfina. Svo sem kunnugt er, voru hin fyrstu fræðslulög samþ. á Alþ. árið 1907 og skólaskyldu komið á. Þau voru endurskoðuð 1926, 1936 og 1946. Hefði sennilega ekki verið úr vegi að halda því tempói áfram og endurskoða lögin á 10 ára fresti, þar sem bent hefur verið á í þessum umr., að löggjöf sem þessi þurfi í raun og veru að vera í stöðugri endurskoðun. Hitt er svo annað mál, að hversu góð og nýtízkuleg sem löggjöfin er á þessu sviði, þá veltur á miklu, hvernig á málum er haldið í framkvæmd, og kannske veltur þar á mestu.

Hæstv. menntmrh. gat þess í framsöguræðu sinni, að Íslendingar verðu um 3600 millj. kr. til skólamála í ár eða sem svaraði 16.8% af heildarútgjöldum fjárl. Hér er um mikið fé að ræða. Þjóðin leggur mikið á sig til að mennta og annast unga fólkið og uppeldi þess. Það er erfitt að segja, hvort þetta svarar kostnaði. Reynslan er þar ein til leiðbeiningar. En ekki fæst allt fyrir peninga. Manngildið verður ekki metið til fjár.

Einn af vinum mínum, sem ég sendi þetta frv. til skoðunar og athugunar, endursendi mér það með svofelldri áritun á forsíðu: „Þetta frv. þarf að skoða sérstaklega með þarfir og getu dreifbýlisins í huga.“ Og þetta er hverju orði sannara. Það verður eitt af því erfiðasta að jafna aðstöðu nemenda til náms, hvar sem þeir eiga heima í landinu, svo sjálfsagt og óhjákvæmilegt sem það er.

Það er rætt um lengingu skólaskyldunnar upp í 9 ár. Ég verð að játa, að ég hef ekki enn öðlast sannfæringu fyrir því, að þar sé rétt spor stigið. hað er e. t. v. meðfram vegna þess, að ég þekkti og þekki svo margt sannmenntað og gagnmenntað fólk með litla eða nær enga skólagöngu að baki, sem hefur valdið þeim verkefnum, sem lífið hefur fært því í hendur, svo vel, að betur verður ekki gert, og tileinkað sér mikinn fróðleik og ómælda þekkingu á mörgum sviðum. En þá segja aðrir: Félagsleg þróun í nútímaþjóðfélagi er ör. Sú þróun kallar á sérmenntað fólk á æ fleiri sviðum. — Þessu er líklega ekki þægilegt að andmæla.

Þá er stefnt að því að lengja skólatímann árlega upp í 9 mánuði. Hér finnst mér einnig, að þurfi að athuga málið vel. Bæði um þetta atriði og hið fyrra vitna höfundar frv. mjög til hinna Norðurlandanna. Það fer að sjálfsögðu vel á því að skyggnast um borð og bekki hjá frændþjóðum okkar og nágrönnum að þessu leyti. Þó er bezt að hafa slíka athugun til hliðsjónar, en ekki eftirspurnar eða fordæmis nema þá að mjög vel athuguðu máli. Enn sem fyrr sýnist mér, að íslenzka þjóðin þurfi víðar að vinna en á skólabekkjum. Og það eru margir unglingar, sem vilja miklu heldur komast sem fyrst út í atvinnulífið, ef þeir hafa alla burði til, en sitja í skóla, sem þeir hafa engan áhuga á. Ég er nær viss um, að mörgum knáum strák fer eitthvað á þá leið, þegar hann ber saman skólann og hin fengsælu fiskimið, t. d. á Breiðarfirði, að honum finnist skólinn vera sem svartur hamar miðað við glampandi sjóinn. Hann kynni þá að hugsa eitthvað svipað og Jónas forðum á ferð sinni fyrir Ólafsvíkurenni:

„Hvort á nú heldur að halda

í hamarinn svartan inn,

ellegar út betur — til þín,

Eggert, kunningi minn?“

Það er hverjum manni hollt og lífsnauðsynlegt að hafa náin kynni af atvinnulífi þjóðar sinnar frá bernsku og æsku. Við lærum fyrir lífið, en ekki skólann, hefur oft verið sagt. Satt er það, að menn mega aldrei gerast skólaþrælar, en góður skólaþegn er sæmdarheiti á hverjum manni.

Í 2. gr. frv. þessa um grunnskóla segir m. a.: „Skólinn skal temja nemendum víðsýni og efla skilning þeirra á mannlegum kjörum og umhverfi, á íslenzku þjóðfélagi, sögu þess og sérkennum og skyldum einstaklingsins við samfélagið.“

Það er að sjálfsögðu margt athyglisvert og ágætt í þessu frv., sem of langt yrði upp að telja: Samfellt skólakerfi, jöfnun námsaðstöðu og menntunarjafnrétti, greiður menntavegur þeim, sem hann vilja ganga, svo að nokkuð sé nefnt. En ég ætla ekki í þessum fáu orðum að fjalla um einstakar gr. frv., þó að ástæða hefði verið til þess, en aðeins láta það verða mín síðustu orð að þessu sinni, að við uppeldi og fræðslu hinna ungu íslendinga verði hér eftir sem hingað til lögð rík áherzla á það, sem þjóðinni hefur reynzt haldbezt á umliðnum öldum, þ. e. kennslu í kristnum fræðum og almennu siðgæði.