01.03.1973
Sameinað þing: 52. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2215 í B-deild Alþingistíðinda. (1740)

Umræður utan dagskrár

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Í morgun var tilkynnt um eina mestu hækkun á landbúnaðarvörum, sem orðið hefur. Mjólk hækkaði í morgun um 6.15 kr. hver lítri, rjómi í fjórðungshyrnum um 6.10 kr., smjör um 53.50 kr. kg, ostur 45% um 43 kr. kg, súpukjöt um 31.90 kr. kg og kartöflur um 17.50 kr. 5 kg poki. Engin fullnægjandi skýring hefur verið gefin á þessum hækkunum samhliða tilkynningunni um verðbreytinguna, en þessar hækkanir munu hækka vísitölu um rúmlega 3.5 stig, og þessa 3.5 stiga vísitöluhækkun verða launþegar að bera bótalaust í 3 mánuði. Það gefur auga leið, að sú kauphækkun, sem einnig varð í dag almennt hjá launþegum í landinu, mun að verulegu leyti hverfa, eyðast, vegna þessara hækkana á íslenzkum landbúnaðarafurðum. Og af þessari 3.5 stiga hækkun á vísitölunni munu launþegar eftir 3 mánuði aðeins fá bætt 2 stig. 1½ stig verða þeir samkv. gildandi reglum að bera bótalaust til frambúðar. Ég vil af þessum sökum leyfa mér að spyrja hæstv. landbrh., hvort hann sé fús til að gefa skýringar á þessum hækkunum og hugsanlegum fyrirætlunum hæstv. ríkisstj. í þessu sambandi.