01.03.1973
Sameinað þing: 52. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2216 í B-deild Alþingistíðinda. (1741)

Umræður utan dagskrár

Fjmrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Út af fsp. hv. 7. þm. Reykv. er mér ljúft að verða við því að gefa skýringar á því, sem liggur til grundvallar þessum hækkunum.

Í fyrsta lagi vil ég geta þess, að engin breyting hefur verið gerð á verðlagsgrundvelli landbúnaðarvara. Það varð að samkomulagi í 6 manna n., að breyting skyldi ekki verða gerð nú, fyrst samkomulag náðist um aðra liði, sem þar var fjallað um, en það þýðir, að sú grundvallarbreyting, sem réttur var til að framkvæma s. l. haust, verður ekki gerð fyrr en á næsta hausti.

Ástæðan til þeirra hækkana, sem hér er á ferðinni, er því framreikningur á þeim verðlagsgrundvelli, sem búvöruverðið byggist á, og skiptist það í stuttu máli þannig, að kjarnfóðurliðurinn gerir 1.3% af hækkuninni, viðhald og fyrningar 0.2%, kostnaður við vélar 0.5%, flutningskostnaður 0.8%, annar kostnaður 0.6%, rafmagnskostnaður 0.1% og launaliður 7.9%, og er það aðalhækkunin, en það er í samræmi við þá hækkun, sem verður á launum í dag, grunnkaupshækkun og vísitöluhækkun.

Þá vil ég einnig geta þess, að niðurgreiðslum hefur verið breytt í það horf, sem ákveðið var við fjárlagaafgreiðsluna að niðurgreiðslur standa eins og þær voru til 1. des., en felldar niður þær bráðabirgðaniðurgreiðslur, sem þá voru teknar upp, sem voru 2.48 kr. á lítra mjólkur fram að áramótum, — 48 aurar til viðbótar 15. jan., — og einnig 3.97 kr. á kg af 1. flokks kindakjöti. Aðrir liðir eru smærri.

Þá hefur hækkun á vinnslu- og dreifingarkostnaði verið reiknuð 87 aurar, og er þá um að ræða fyrst og fremst hækkun á launalið.

Þessar skýringar vona ég, að séu fullnægjandi fyrir hv. fyrirspyrjanda, enda eru hér sögð þau atriði, sem verðhækkunin byggist á.