01.03.1973
Neðri deild: 59. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2218 í B-deild Alþingistíðinda. (1747)

146. mál, skólakerfi

Menntmrh. (Magnús T. Ólafsson) [frh.] :

Herra forseti. Þar var komið máli mínu í gær, þegar störf í þingflokkum tóku í taumana, að ég var að fjalla um mótbárur, sem fram höfðu komið í umr, við ákvæðum frv. um grunnskóla varðandi lengingu skólaskyldu og skólaárs. Ég þóttist hafa sýnt fram á, að kjarninn í jafnréttismarkmiði frv., sem mér virðast allir hv. þm. fagna, er það stefnumið, að skyldunám eitt sér opni unglingum leiðina til frekara náms. Þetta mark næst með engu móti án þess að auka við núverandi skyldunám í samræmi við kröfur framhaldsskólanna um undirbúningsmenntun. Þær kröfur eru alls engin hótfyndni né meinbægni við nýnema. Þær eru sprottnar af þörfum þeirrar tækni og þeirra fræða, sem við verðum að tileinka okkur, ef við viljum vera nútímaþjóð, halda til jafns við granna okkar og keppinauta í verklegum og félagslegum efnum.

Því heyrist haldið fram, að nær sé að lofa unglingunum að fara rakleitt út í atvinnulífið, frekar en halda þeim á skólabekk fram til 16 ára aldurs. Ég bið menn að hugsa þessa hugsun til enda. Hvert verður hlutskipti þess fólks í nútímaatvinnulífi, sem hefur ekki í æsku aflað sér aðstöðu til að geta notið sérþjálfunar síðar á ævinni? Nútímatækniþróun dæmir það jafnt og þétt úr leik, dæmir það til að láta sér lynda óþokkasælustu störfin og þau lakast launuðu, meðan enn borgar sig að láta mannshöndina leysa þau, eða þá til atvinnuleysis, eftir því sem vélar leysa mannshöndina af hólmi. Bent er á fullorðinnafræðslu, og sízt skal hún löstuð. En hvaða vit er í að reiða sig á hana frekar en nota til náms það æviskeið, þegar næmið er mest og námsvinnubrögðin þjálfuð.

Í þessu sambandi er talað um námsleiða, og vissulega er hann hvimleitt fyrirbæri. En ég bið menn að athuga vel, að óaðskiljanlegur fylgifiskur lengri skólasetu samkv. þessum frv. er ný gerð skóla, ný vinnubrögð í skólakerfinu. Með frv. er horfið fyrir fullt og allt frá hinum gamla ítroðsluskóla, þar sem leitazt var við að koma í hvern og einn sem næst sama þekkingarskammti. Grunnskólinn tilvonandi hefur það yfirlýsta markmið að laga starf sitt að þörfum og séreðli einstaklingsins. Þar með er brotið blað í íslenzkri skólasögu og horfið algerlega frá einhliða bóknámsskóla, sem hossar þeim nemendum, sem alfarið stefna á hefðbundið akademískt nám, þ. e. a, s. menntaskóla og háskóla, en lætur aðra nemendur með annars konar hæfileika sitja á hakanum. Grunnskólinn á að veita val milli jafnrétthárra námsleiða, þar sem ekki er gert á milli bóklegra og verklegra greina. Þess vegna verða eldri deildir grunnskóla að ná til ákveðins nemendafjölda, eigi þær að geta rækt hlutverk sitt. Þess vegna er ekki um að ræða einfalda breytingu á lengd námstíma, sem unnt væri að framkvæma með einu pennastriki, heldur umskipti frá gamalli skólagerð til nýrrar, sem ætla má, að taki áratug að gera að veruleika, og má halda vel á spöðunum, ef sá tími á að nægja.

Ég get naumast hugsað mér meira öfugmæli en þegar hv. 9. landsk. þm. er að gera því skóna, að breytingin, sem í frv. felst, geti leitt til þess, að skólaæskan einangrist í hámenntaðri yfirstétt akademískra embættismanna og sérfræðinga. Grunnskólinn er skóli allrar þjóðarinnar. Hvernig má það þá ske, að allur landslýður, eins og hann leggur sig, einangrist frá sjálfum sér í hámenntaðri yfirstétt, — yfirstétt yfir hverjum, ef svo væri? Nei, það er einmitt úrvalsskólinn, sem gerir upp á milli mismunandi hæfileika, sem hlúir að sumum, en stjakar við öðrum og gerir úr þeim úrkast, það er slíkur misréttisskóli, sem er háskalegur samstæðu heilbrigðu þjóðfélagi við nútímaaðstæður. Ég vil benda hv. þm. á, að lenging skólagöngunnar rýfur síður en svo þá íslenzku hefð, að sumarleyfið sé langt og gjarnan notað til starfa við hæfi hvers aldursflokks. Þriggja mánaða sumarleyfi er lengra en þekkist annars staðar. Játa skal, að sumarstörf við hæfi unglinga gerast torfengnari en áður var, en árstíðasveiflur í atvinnulífi okkar eru enn svo miklar, að fjöldi unglinga á kost starfsreynslu, sem ég skal verða síðastur manna til að kasta rýrð á.

Skal nú vikið að aths. hv. þm. við einstakar gr. frv.

Ég vil benda á, að náið samhengi er milli fjölda fræðsluskrifstofa og fyrirsjáanlegrar þróunar í umdæmaskiptingu. Í röskun á því fyrirkomulagi, að fræðsluumdæmi og kjördæmi fylgizt að, getur hlotizt afdrifaríkur stjórnkerfisruglingur. Í þessu sambandi vil ég svara spurningu hv. 3. þm. Norðurl. v., sem innti eftir, hvort nokkurt tillit hefði verið tekið til óska, sem fram hefðu komið á kynningarfundum úti um land. Í kjördæmi hv. þm. voru haldnir tveir fjölsóttir fundir. Á báðum voru gerðar ályktanir til að mótmæla því, að ráð skyldi gert til fyrir einni fræðsluskrifstofu fyrir Norðurland allt. Í því efni vissi grunnskólanefnd ekki betur en hún væri að uppfylla eindregna ósk Norðlendinga. Þegar hið sanna kom í ljós, var brugðið við og gert ráð fyrir tveimur fræðsluskrifstofum á Norðurlandi í samræmi við kjördæmaskipun, og er rækilega frá þessu greint á bls. 135 og 136 í síðari prentun frv. um grunnskóla. Ég get ekki stillt mig um að láta í ljós furðu mína á, að þessi hv. og margfróði þm. skuli ekki fylgjast betur með tíðindum í eigin kjördæmi.

Nokkrar fleiri breytingar voru gerðar á frv. vegna ábendinga, sem fram komu á hinum almennu fundum. Virðist sú, sem heima á í 49. gr. grunnskólafrv., hafa farið fram hjá þeim hv. þm., sem kvartað hafa yfir, að ákvæðið um, að 15 nemendur hið fæsta þurfi að vera í heild að meðaltali, til þess að unnt sé að halda uppi 8. og 9. bekk grunnskóla í skólahverfi, sé rígskorðað. Þetta ákvæði er ekki lengur rígskorðað. Bætt hefur verið inn heimild til að veita undanþágu frá þessari reglu samkv, mati á aðstæðum.

Hv. 8. landsk, þm. flutti skörulega ræðu og drap á margt athyglisvert. Ég tel ástæðulaust að hafna ákvæði um fastráðningu ráðskonu við heimavistarskóla í dreifbýli. Ég get um það borið, og svo hygg ég vera um fleiri, sem reynslu hafa af vist í heimavistarskólum, að heimilisbragur og vera á slíkum stöðum er ekki undir öðru meira komin en þeim starfsmanni, sem sér um matseld og annan viðurgerning. Svo má sá starfsmaður nefnast hvort heldur bryti, matselja eða annað, sem rétt þykir málfróðum mönnum.

Hv. 5. þm. Norðurl. v. taldi óviðunandi að leggja frv. um grunnskóla fram, án þess að gerð væri grein fyrir stofnkostnaðaráhrifum nýmæla, sem þar er að finna. Ég vil benda hv. þm. á bls. 85 í frv., þar sem bent er á, að kostnaður við skólabyggingar í strjálbýli er að mjög litlu leyti háður ákvæðum frv., heldur ræðst hann af væntanlegri skólaskipan, sem nú er unnið að og hefði verið unnið að, þótt grunnskólafrv. hefði aldrei séð dagsins ljós.

Hv. 4. landsk. þm. taldi það mikinn ljóð á frv. um grunnskóla, að ekki væri gert ráð fyrir aðild foreldra og nemenda að skólastjörn. Hvað foreldra varðar vil ég benda á, að þeir eru kjósendur og hafa þar með áhrif á skipan skólanefnda við sveitarstjórnarkosningar. Bein aðild foreldrafélaga að innri stjórn skóla hefur verið viðhöfð í öðrum löndum og gefizt misjafnlega. Þar hefur sýnt sig, þegar á reyndi, að einungis nokkur hluti foreldra sinnir að jafnaði starfi í foreldrafélögum. Þeim félögum hættir því við að komast undir áhrif fámennra hópa, sem halda fram sérsjónarmiðum af ýmsu tagi og reyna að gera þau gildandi innan skólanna. Hlutdeild nemenda t stjórn grunnskóla er líka annmörkum háð. Eiga 7 ára börn að eignast fulltrúa í skólastjórn? Þykir það of lágur kosningaaldur? Hvar á þá að láta staðar numið í aldursröðinni? Við 14 ár, 12 ár eða 10 ár? Ég fyrir mitt leyti tel, að full aðild nemenda að skólastjórn eigi ekki að hefjast fyrr en í framhaldsskólum, en það fyrirkomulag, sem grunnskólafrv. gerir ráð fyrir, sé hæfilegur undirbúningur fyrir nemendahópinn undir þau umskipti.

Hv. 4. landsk. þm. spurði einnig um álit mitt á því, hvað valdi, að ekki sé ákvæði í frv. um, að allt nám skuli fara fram í kennslustundum. Ástæðan er, að engum kom vitanlega til hugar, að slíkt gæti átt sér stað, og jafnvel þótt svo væri, þætti mér fyrir mitt leyti fyrirkomulagið miður æskilegt. Nemendur þurfa að þjálfa sig í að starfa að vissu marki að verkefnum utan þess ramma, sem skipuleg kennslustund veitir. En jafnframt þarf að forðast að ætla þeim svo mikla heimavinnu, að starfsbyrði gangi úr hófi eða misjöfn aðstaða til heimanáms ráði úrslitum um námsárangur.

Hv. 5. þm. Norðurl. e. spurði, hvort farið hefði fram gaumgæfileg athugun á því, hvers vegna 18% unglinga sæktu ekki, eins og nú standa sakir, þann bekk, sem samsvarar 9. bekk væntanlegs grunnskóla. Ég hygg, að hv. þm. sé jafnvel kunnugt og mér, að slík athugun hefur ekki farið fram. En ég get ekki þar með fallizt á með honum, að þá sé stoðum kippt undan rökfærslu að þeim breytingum á skólastarfinu, sem grunnskólafrv. miðar að, í fyrsta lagi vegna þess, að munurinn á hlutfallstölum nemenda, sem ekki sækja núv. 3. bekk, í þéttbýli og strjálbýli er svo mikill, eða 12.1%, sem á skortir í kaupstöðum, á móti 32.6%, sem á skortir í sveitahreppum, að fylgni fjarveru úr 3. bekk og búsetu í dreifbýli er tvímælalaust staðtölulega marktæk, svo að notað sé hrognamál tölfræðinga. Það þýðir á venjulegu máli, að ekki þarf frekari vitna við en þessara talna til að sjá, að búseta veldur því, að fimmti hver unglingur í strjálbýli fer á mis við framhaldsmenntun, sem svarar til lokabekkjar grunnskóla. Sama niðurstaða er í öðru lagi staðfest af því, að árlega er þó nokkuð um það, að nemendum sé vísað frá skólavist í héraðsskólum, gagnfræðaskólum strjálbýlisins, vegna þrengsla.

Ég gæti haldið áfram lengi dags að samsinna ýmsum atriðum í ræðu hv. þm., sem til máls hafa tekið, en valdi þann kost að drepa á þau atriðin, sem mér fannst einkum kalla á andmæli. Læt ég þá útrætt um efnisatriði málsins, en vík að málsmeðferðinni, sem allmjög hefur borið á góma.

Reið þar á vaðið hv. 7. þm. Reykv. og átaldi, að frv. skyldi ekki hafa verið endurflutt ári fyrr. Studdi hann þá skoðun einkum þeim rökum, að menntmn. hv. d. hefði fjallað um þau til fullnustu að kalla á útmánuðum 1971. Á þessa skoðun get ég ekki fallist. Ekki er að efa, að nm. hafa kynnt sér frv. gaumgæfilega þá, en fundargerðabók ber með sér, að n. fjallaði einungis um þau á tveim fundum, 3. og 10. febr. 1971. Á hinum síðari var ákveðið að senda frv. 8 aðilum til umsagnar, og síðan verður ekki séð, að þau hafi komið til umr.

Ekki felli ég mig heldur við uppástungu hv. þm. um, að vænlegt hefði verið að lögfesta frv. án rækilegrar endurskoðunar með það fyrir augum að láta slíka endurskoðun fara fram eftir tveggja til þriggja ára reynslu. Sá háttur var einmitt hafður við afgreiðslu eins þeirra mörgu frv., sem hv. þm. bar fram sem menntmrh. á þingi fyrir kosningarnar 1971, frv. um Kennaraháskóla Íslands. Mér er ekki kunnugt um aðra en hv. þm., sem telja að fenginni reynslu, að sá afgreiðslumáti, sem þá var viðhafður, hvetji til eftirbreytni.

Afstaða mín er, að vanda beri sem mest til undirbúnings mála sem þessara, og það tel ég nú hafa verið gert. Nokkrir hv. þm, hafa fundið að því, að frv. komi til umr. seinna á þinginu en heppilegt sé. Á þetta get ég fallizt. En þegar fyrirsjáanlegt var, að svo mundi fara, var allt gert til að afstýra, að þetta þyrfti að verða málinu til tafar. Frv. var dreift til hv. þm. fyrir jól í uppkasti, sem lítt hefur breyzt í endanlegri gerð. Nær samtímis var þeim dreift til skóla, skólanefnda, sveitarstjórna, kennarafélaga, stéttarsamtaka og opinberra stofnana. Umsagnar var beinlínis óskað frá 44 aðilum. Munu þær umsagnir nú þegar teknar að berast og voru að sjálfsögðu ætlaðar hv. þn. til afnota við athugun málsins. Kynning frv. meðal almennings var eins rækileg og ég lýsti í framsöguræðu. Var 3000 eintaka upplag frv. að mestu þrotið í janúarlok. Ég vísa á bug þeim ummælum hv. 9. landsk. þm., að þessi vinnubrögð beri keim af, að komið sé fram við Alþ. sem afgreiðslustofnun. Ég tel það líka hafa komið rækilega í ljós í þessum umr., að þm. hafa fengið tækifæri til að athuga frv. rækilega og mynda sér skoðun á þeim og einstökum atriðum þeirra. Þótt vart geti ég djarft úr flokki talað um þingreynslu, hygg ég fátítt, að frv. séu rædd svo nákvæmlega í einstökum atriðum við 1. umr. o g raun hefur nú á orðið. Vil ég því ítreka þá skoðun, að forsendur séu nú til, að Alþ. taki afstöðu til málsins. Meginstefnan hefur verið rædd og skýrð svo ítarlega, að vart er unnt að búast við, að þar verði stórlega um bætt úr þessu. Framkvæmdaatriðin, sem um eru skiptar skoðanir, eru að mínu áliti frekar færri en fleiri en búast mátti við, eins umfangsmikið og frv. um grunnskóla er. Því vil ég ljúka máli mínu með þeirri eindregnu ósk, að Alþ. það, er nú situr, geri frv. að lögum.