01.03.1973
Neðri deild: 59. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2220 í B-deild Alþingistíðinda. (1748)

146. mál, skólakerfi

Pálmi Jónsson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð út af ræðu hæstv. ráðh. Hann byrjaði ræðu sína á því að láta í ljós þá skoðun sína, að kröfurnar um aukið skyldunám, eins og þær birtast í þessu frv., væru forsenda þess, að auknu jafnrétti yrði náð meðal nemenda, hvað sem búsetu þeirra liði, og jafnframt nauðsynleg forsenda þess, að menntun þjóðarinnar yrði með sambærilegum hætti hér og í nágrannalöndum okkar. Ég skal ekki bæta miklu við um þetta atriði frá því, sem ég sagði í ræðu minni í gær, en ég er ráðh. ósammála. Ég hygg, að ef fræðsluskyldan væri framkvæmd með þeim hætti, að ekki væru hindranir á vegi nemenda, sem vilja afla sér menntunar, eftir að núverandi skyldutími sleppir, þá mundi hlutfall nemenda, sem halda ekki áfram námi eftir skyldunám nú, lækka verulega. Ég vil láta það í ljós, að ef horfið væri frá þeirri stefnu, sem frv. boðar um lengingu skyldunámsins, þá væri enn aukin ástæða til þess að auðvelda fólki, sem hverfur út úr skólakerfinu á einhverju stigi þess, inngöngu í skólana að nýju. Og það gerist væntanlega, eins og þegar hefur nokkuð verið byrjað á, með námskeiðum og með sérbekkjum fyrir fólk á ýmsum aldri. Ég hef haft spurnir bæði af kennurum og nemendum úr slíkum bekkjum, og það er samdóma álit þeirra, að þar sé nám sótt af kappi og skili góðum árangri, og hygg ég, að enda þótt næmi kunni að vera meira á öðrum aldursskeiðum, geti árangur skólastarfs einnig orðið með ágætum í þessum aldursflokkum.

Hæstv. ráðh. sagði, að sú stefna, sem frv. boða, rjúfi ekki þá hefð, sem hér hefur gilt um langt sumarleyfi skólanemenda. Þetta kann að vera rétt, ef miðað er við það, sem sums staðar gerist með öðrum þjóðum, en það er ekki blöðum um það að fletta, að hún styttir sumarleyfi þeirra verulega og hindrar, að þeir geti tekið þátt í atvinnulífi til sjávar og sveita jafnlangan tíma og ella væri. Þetta hygg ég, að ekki sé blöðum um að fletta. Það torveldar einnig nemendum að afla sér tekna til þess að geta sjálfir staðið að nokkru leyti undir sínum námskostnaði.

Um þau atriði, sem hæstv. ráðh. minntist á, að sú breyting, sem yrði á skólaskipan, ef þessi frv. verða samþ., hefði ekki áhrif á stofnkostnað við skóla í strjálbýli nema að litlu leyti, þá hef ég við það að athuga í fyrsta lagi, að hæstv. ráðh. mun vera kunnugt, að sú skipan er á þeim málum nú víða um land, þar sem heimavistarskólar eru, að nemendur í yngri aldursflokkum sækja þessa skóla til skiptis. Það blasir við, að með því að gera þessum nemendum skylt að vera í skóla 7–9 mánuði, með tilliti til undanþáguheimilda, þá hljóta að verða verulegar breytingar á þessum skólum hvað stærð snertir og þar með til aukins kostnaðar. Ýmis fleiri atriði má nefna, eins og t. d. það, að með lengingu skólaársins verður rekstur skólanna dýrari og umfangsmeiri.

Hæstv. ráðh. sagði, að ekki þurfi lengur vitna við, að búseta valdi þeim mun á skólasókn, sem um er rætt, þegar talað er um, að fleiri haldi áfram í skóla eftir skyldunám í þéttbýli en í strjálbýli. En samt bætti ráðh. við: Enda er það stundum svo, að nemendum á gagnfræðaskólastigi er vísað frá héraðsskólum vegna þrengsla. Þar kemur fram hjá hæstv. ráðh. nákvæmlega það, sem ég ræddi talsvert um í ræðu minni í gær, að ríkisvaldið hefur ekki séð sér fært eða ekki komið í verk að halda uppi svo miklum framkvæmdum í skólamannvirkjum, að þau gætu tekið við nemendum eins og þörf er á strjálbýlinu. Og þetta er höfuðorsök þess, að þessi munur er á á skólasókn barna og unglinga í strjálbýli og þéttbýli. Þarna er orsökin fyrst og fremst, en ekki ákveðin lagasetning, ekki hvort þessi lög eru samþ. eða önnur, sem þarna veldur mestu um. Þrátt fyrir það að þessi lög yrðu samþ. á þessu þingi, þarf enn fjármagn til að hrinda í framkvæmd nægilegum skólamannvirkjum um landið gervallt, til þess að nemendur geti aflað sér þeirrar þekkingar og þess náms, sem þeir óska. Það er fjármagnið, sem ræður, og það er ákvörðun Alþ. um það, hvernig það vill verja þessu fjármagni, sem þarna veldur mestu um. Ég fagna því vissulega, ef það skyldi fara á eftir þeim orðum, sem hæstv. ráðh. hefur látið hér falla, að meira fé verði varið til skólamannvirkja í strjálbýli en verið hefur, svo að það hamli ekki því, að nemendur geti sótt sér fræðslu svo sem þeir óska í sínum heimahögum. En ef það fylgir ekki á eftir, eru þessi orð hæstv. ráðh. fallin um sjálf sig.

Ég get tekið undir það með hæstv. ráðh., að meðferð málsins og undirbúningur hafa á ýmsan hátt verið skynsamleg, og ég vil láta í ljós þakklæti mitt til hæstv. ráðh. og rn. í heild og grunnskólanefndar fyrir þá fundi, sem efnt hefur verið til víðs vegar um land. Þeir hafa, vona ég, orðið til verulegs góðs, bæði til þess að kynna þau frv., sem hér er verið að ræða, og eins til þess, að yfirstjórn skólamálanna í landinu hafi orðið þess vísari, hvað bærist í hugum fólksins víðs vegar um landið, og þannig orðið til að efla tengsl milli þjóðarinnar í heild og yfirstjórnar í fræðslumálum. Það er vissulega til góðs, ef svo hefur til tekizt. Þó vil ég, láta í ljós jafnframt, úr því að þennan þátt málsins ber á góma, að æskilegra hefði verið, að eftir að grunnskólanefnd var búin að starfa það mikið, að hún gæti borið nokkur höfuðatriði málsins undir álit fundarmanna um gervallt landið, þá hefði verið ráðizt í þessi fundarhöld. Þá hefði gefizt meiri kostur á því að taka til greina fleira af þeim atriðum, sem bent var á á þessum fundum, heldur en þegar frv. voru svo til fullmótuð. Hins vegar þakka ég það, sem fram kom hjá hæstv. ráðh., að nokkrar breytingar hafa verið gerðar á frv., síðan þessir fundir fóru fram, t. d. það, sem um var rætt á fundum í mínu kjördæmi, að setja á fót tvær fræðsluskrifstofur á Norðurlandi, eina í hvoru kjördæmi, og fór það mál vitaskuld ekki fram hjá mér, enda var ég á öðrum þeirra funda, sem þar voru haldnir.

Ég vil ljúka þessu með því að segja, að það mætti undravert teljast, ef lenging skólaskyldunnar og skólaársins er svo þýðingarmikil sem látið er í veðri vaka, þegar þess er gætt hversu margir skólamenn, skólastjórar og kennarar, á miðskólastigi hafa látið í ljós andúð við þessa stefnu. Ég hef tekið eftir því í blöðum nú í morgun, að fundur var haldinn um þessi efni hér í Reykjavík í gær. Því miður hef ég ekki nægilega glöggar fregnir af þessum fundi, en mér hefur þó virzt, að þar kæmi fram, að mikil andstaða væri gegn þessari stefnu frv. Það kemur mér vissulega ekki á óvart með hliðsjón af því sem ég hef kynnt mér, bæði úti um land og meðal skólamanna á þessu stigi skólakerfisins. Það er enda svo, að í undirbúningi að þessum frv. og við samningu þessara frv. hafa skólamenn frá þessu stigi skólakerfisins ekki komið þeim þætti, er varðar yfirstjórn skólamálanna frá rn. hálfu. Ég hefði talið æskilegra, að í undirbúningi málsins og við samningu frv. hefði a. m. k. verið meira tillit tekið til þeirra sjónarmiða, sem gætir úti á landsbyggðinni.