01.03.1973
Neðri deild: 59. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2224 í B-deild Alþingistíðinda. (1749)

146. mál, skólakerfi

Ólafur G. Einarsson:

Herra forseti. Við þessa 1. umr. um grunnskólafrv. þykir mér ástæða til að segja örfá orð, en mun ekki ræða einstakar gr. frekar en þingsköp gera ráð fyrir.

Ég held, að engum blandist hugur um það, að á bak við samningu þessa frv. og þessara frv. beggja liggur mjög mikið starf og mikil vinna hjá grunnskólanefnd, og þessi n. er reyndar enn að störfum, hefur haldið fjölmarga fundi úti um allt land á síðustu mánuðum, og í dag og í gær hefur n. verið ásamt hæstv. menntmrh. á ráðstefnu, sem Samband ísl. sveitarfélaga gekkst fyrir um þessi mál. Mér þykir ástæða til að þakka fyrir þá aðferð, sem hér er viðhöfð, að kynna frv. með þessum hætti. Ég óttast ekki, að þessi aðferð, sem hér hefur verið viðhöfð, hafi í för með sér, að Alþ. verði einhver afgreiðslustofnun þess vegna fyrir þessi frv. Ég held þvert á móti, að menntmn. hv. þd. muni nú fá miklu skýrari umsagnir um þessi frv. en ella, þegar þau hafa verið rædd ítarlega á fjölmörgum fundum kennarasamtaka, sveitarstjórnarmanna og annarra.

Því hefur allmjög verið haldið á lofti í sambandi við frv. um grunnskóla, að með því væri stefnt að sérstakri dreifingu valdsins, og þá er bent á skiptinguna í 8 fræðsluumdæmi. Ég verð að segja það, að eftir því sem ég les frv. oftar, finnst mér, að það sé of mikið gert úr þessari valddreifingu. Ég gæti bent á ýmis dæmi þess, að valdið er eftir sem áður í efstu tröppunni, þ. e. a. s. í rn. Ég efast ekkert um, að það hefur verið ákveðinn vilji fyrir hendi til, að valdinu yrði dreift, en ég held hins vegar, að þessi vilji hafi aftur valdið því, að stjórnunarþátturinn er gerður allt of flókinn. Ég hef ekki talið saman, hve margir aðilar það eru, sem raunverulega hafa áhrif á stjórnina, en ég hygg, að þeir séu yfir 10. Ég ætla ekki að leggja dóm á það, hvort einhverjum þessara n., samstarfsnefnda eða ráða, megi sleppa, en ég læt í ljós vissan ótta um, að þarna sé verið að flækja málin óþarflega mikið.

Ég hef látið í ljós þá skoðun áður, að í sambandi við skólamál, eins og reyndar margt fleira, mætti mjög einfalda samskipti ríkisins og sveitarfélaganna. Og ég læt í ljós vonbrigði yfir því, að það skuli ekki hafa verið höggvið þarna betur á hnútana en mér sýnist gert með þessu frv. Enn þá eru samskipti ríkisins og sveitarfélaganna varðandi skólamál allt of flókin, og þar má sérstaklega nefna hin fjárhagslegu samskipti. Þar hefur verið um miklar flækjur að ræða á undanförnum árum, og ég hefði talið, að nú hefði gefizt gott tækifæri til að greiða úr, en það finnst mér ekki gert, og bendi ég t. d. á 80. gr.

Varðandi skiptingu landsins í fræðsluumdæmi, þá sýnist mér sú stefna vera rétt að miða fræðsluumdæmin við kjördæmin. Umdæmaskipting landsins er þegar allt of flókin, og þess vegna styð ég það, að farið sé eftir þessari skiptingu. Hins vegar læt ég í ljós ýmsar efasemdir um, að þetta dugi. Þar sem ég þekki bezt til, í Reykjaneskjördæmi, efast ég um, að það gagni að hafa eina fræðsluskrifstofu fyrir allt kjördæmið. Ég teldi eðlilegra að hafa þær þrjár. Það eru tvær starfandi nú þegar, í Kópavogi og í Hafnarfirði. Ég held, að það sé erfitt að leggja þessar skrifstofur niður, og ef þær ættu að starfa áfram, væri eðlilegt, að sú þriðja kæmi á Suðurnesjum, t. d. í Keflavík.

Það er gert ráð fyrir því í þessu frv., að fræðslustjóri sé skipaður af ráðh. Ég er ekki sammála þessu, tel heppilegra, að fræðslustjórinn væri ráðinn af landshlutasamtökunum. Mér er ljóst, að ýmislegt mælir með þeirri aðferð, sem gert er ráð fyrir í frv., en ef eitthvað býr á bak við það, að þarna eigi raunverulega að dreifa valdinu, sýnist mér hitt heppilegra. Landshlutasamtökin eiga að reka fræðsluskrifstofurnar, og mér sýnist það rökrétt þess vegna, að fræðslustjórinn sé ráðinn af heimamönnum. Ég held sem sagt, að þarna hafi gefizt betra tækifæri en notað er til að veita sveitarfélögunum meira vald en þau nú hafa. Um þá stefnu virðast allir vera sammála, en það verður aftur minna úr framkvæmdum og tækifærin eru látin ganga sér úr greipum.

Um það atriði, sem sennilega verður hvað mestur skoðanaágreiningur um, um lengingu skólaskyldunnar, ætla ég ekki að tjá mig á þessu stigi. Ég hef ekki gert upp minn hug í því máli. En ef lenging skólaskyldunnar er alger forsenda þess, að því markmiði verði náð, að allir nemendur, hvar sem er á landinu, hafi jafna aðstöðu til framhaldsnáms að loknu skyldunámi, þá hlýt ég að styðja lengingu skólaskyldunnar. En ég held, að það sé líka alger forsenda fyrir lengingu skólaskyldunnar að áður en hún verður lengd, verði lokið byggingu nauðsynlegra mannvirkja í þessu skyni um land allt.

Ég vil að lokum minna aðeins á það, að ótryggur fjárhagsgrundvöllur núgildandi fræðslulaga, held ég, að sé meginorsökin fyrir því, að þau hafa aldrei komizt til fullrar framkvæmdar.