01.03.1973
Neðri deild: 59. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2232 í B-deild Alþingistíðinda. (1753)

146. mál, skólakerfi

Menntmrh. (Magnús T. Ólafsson) :

Herra forseti. Aðeins örfá orð vegna þessarar ræðu hv. 9. landsk. þm. Ég kom hér í ræðustól í gær síðastur ræðumanna og hóf mál mitt á því að leiðrétta misskilning, sem hv. þm. hafði orðið á, þar sem hann lagði alranga merkingu í ummæli, sem höfð voru eftir einum af grunnskólanefndarmönnum í blaðaviðtali, — þveröfuga merkingu við það, sem í blaðinu stendur. Þetta gerði ég sökum þess, að þessi maður hefur að sjálfsögðu engin tök á að bera hönd fyrir höfuð sér hér. Hv. þm. sagði, að nm. þessi hefði sagt í blaðaviðtalinu, að hann liti svo á, að þetta frv. fæli í sér mjög róttæka byltingu. Í blaðaviðtalinu var nm. hins vegar að andmæla þeirri skoðun, að það yrði að verða róttæk bylting í skólamálum, það, sem hann og aðrir nm. stefndu að, væri ekki róttæk bylting, heldur róttæk breyting. Nú kemur í ljós, að hv. þm. hefur enn misskilið, því að hann sagði hér áðan, að ég hefði gert þessa athugasemd vegna þess misskilnings, að hann væri að halda því fram, að í frv. fælist róttæk bylting. Það sagði ég aldrei, enda tók ég vel eftir, að hv. þm. tók skýrt fram, að hann teldi þessi ummæli nm. skjóta mjög skökku við það efni, sem í frv. er.