01.03.1973
Neðri deild: 59. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2233 í B-deild Alþingistíðinda. (1754)

146. mál, skólakerfi

Björn Pálsson:

Herra forseti. Ég hafði ekki ætlað mér að tala aftur í þessu máli, en menn hafa verið svo málglaðir núna, að það gerir ekkert til, þótt ég segi fáein orð. Annars er mér ákaflega óljúft að vera að deila við hæstv. menntmrh. Hann flytur mál sitt af mikilli sanngirni og hógværð, þar að auki er þetta mál í raun og veru ekki hans fóstur, heldur var það fyrrv. menntmrh., sem lét semja frv., og hann er að basla við að ala þarna upp afkvæmi annars manns. Þó að fyrrv. menntmrh. sé á vissu sviði mjög gáfaður maður og ákaflega vel máli farinn, þá er það mín persónulega skoðun eða það hefur skapazt sú skoðun hjá mér, að frv., sem koma á hans vegum, séu meira og minna gölluð og jafnvel mjög heimskuleg mörg. T. d. var það hér á árunum í frv. til barnaverndarlaga, að það átti að hafa tveggja ára fangelsi, ef menn létu unglinga upp að 18 ára aldri vinna eftir kl. 5 á daginn eða helgi daga eða eftirvinnu — viðurlög við því áttu að vera tveggja ára fangelsi. Þetta var stöðvað hér, og það var líklega að mestu leyti sjálfstæðismönnum að þakka. Þetta var fellt niður, þegar þessi lög voru afgreidd, og fleira var gott í þeim lögum, sem ég skal nú ekki eyða tíma í að tala um.

Vafalaust er nú búið að laga eitthvað, þetta frv., frá því að það kom fyrst fram. Ég las það aldrei ítarlega. Ég er ekki í menntmrn. og hef ekki talað mikið um skólamál, en ég fór nú að kynna mér þetta frv. og las það allt saman, en er ekki búinn að kynna mér það nógu rækilega til að geta skrifað um það, ég þarf að gera það betur. Ef það er meiningin að knýja frv. í gegnum þingið lítið breytt, þá þarf ég sannarlega að fara að skrifa og sýna fólkinu fram á, hvað frv. er gallað. Og það skal ég alveg fullvissa ykkur um, ef þið ætlið að hafa 9 mánaða skólaskyldu fyrir unglinga, að það verður ekki framkvæmt þannig. Ég er sannfærður um, að menn láta ekki unglingana í skólana.

Ég vil þakka Jónasi Árnasyni, hv. 5. þm. Vesturl., fyrir bréfin, sem hann las hér upp. Það kom margt fram í þeim, sem er nákvæmlega eins og ég var að halda fram í gær. Það er auðheyrt, að það voru mjög greindar konur, sem skrifuðu þessi bréf. Það má vera, að þar sé ýmislegt umdeilanlegt, en í aðalatriðum var ég þeim alveg sammála. M. a. þetta: Það er algerlega óþolandi fyrir fólkið í dreifbýlinu að vera að halda unglingunum 9 mánuði í skóla. Hvað er um 7 ára börnin? Það er heimilt að hafa þau dálítið skemur fyrst, en varla þegar í síðari bekkina kemur. Ég var síðast í dag að tala við menn suður í Keflavík, sem voru staddir hérna niðri. Þeir sögðu, að þetta næði engri átt. Þið skulið sanna, hvort það verður vinsælt í sjávarþorpunum, þar sem unglingarnir þurfa að vinna, bæði vinna fyrir launum og eins vegna verkefnanna, sem fyrir liggja, og það verður algerlega óþolandi í sveitinni.

Þetta mikla mas um, að fólkið í dreifbýlinu hafi verið sett hjá og orðið út undan með menntun, er að mestu leyti rugl. Ódýrustu skólarnir og beztu, sem við látum börnin í, eru heimavistarskólarnir úti í sveitunum, og þar er mest reglusemi. T. d. þar sem ég þekki til, ég hef látið mín börn sum að Reykjum í Hrútafirði, — þar er þeim algerlega bannað að reykja. Ef þau eru í skólum hér suður í Reykjavík, byrja þau að reykja. Og það eru ýmsir gallar fyrir unglingana á því að vera í skólum hér, sem eru ekki úti í byggðunum.

Það, sem ég lagði höfuðáherzlu á og kom einnig fram í bréfi, sem Jónas Árnason var að lesa núna, er það, að ég er algerlega á móti því að skylda unglingana að vera lengur en 6 mánuði í skóla í dreifbýlinu, í mesta lagi 6½. Í öðru lagi er ég alveg á móti því að skylda mæðurnar eða heimilin til að láta börnin 7 ára gömul í heimavistarskóla eða jafnvel þótt þeim sé ekið á milli, ef þau hafa aðstöðu til að kenna þeim heima. Þess vegna vil ég hafa það alveg skýrt í lögum, að foreldrarnir megi láta börnin læra heima og aðeins koma til prófs, því að það eru mörg börn þannig skapi farin, — og það kom m. a. fram í bréfinu, sem hann Jónas var að lesa upp, — að þau þola ekki að vera send í heimavistarskóla og tekin frá heimilunum, því að börn eru viðkvæm.

Í öðru lagi er ég mótfallinn því, — það er kannske ekkert höfuðatriði, — að lengja skyldunámið og stytta menntaskólann. Hvað á að vera pynta unglinga, sem ekki eru hneigðir fyrir bóklegt nám, til þess að vera í skóla? Sannleikurinn er sá með afburðamenn, að þeir hafa ekkert að gera með að vera að dunda lengi í skóla, og einhverjir tveir mestu fjármálamenn, sem ég hef þekkt, — annar þeirra sagði, að sér hefði ekki dottið í hug að læra kverið, því að þetta hefði verið svo vitlaust. Þetta var praktískur maður og hann sá, að það var tóm vitleysa að vera að læra þetta utanbókar, og hann sagðist hafa verið fermdur upp á faðirvorið. Hinn sagði mér, að sér hefði ekki dottið í hug að vera að læra þessi fræði, þetta hefði verið óhagnýtur lærdómur. Það er nefnilega þannig með marga af mestu hæfileikamönnunum, sérstaklega ef þeir hafa praktíska hæfileika, að þá nenna þeir ekki að læra rugl, sem þeir sjá, að er ekki til neins í lífinu. Þeir þurfa þess ekki. Þeir hafa sig áfram fyrir því.

Það kom fram hjá hæstv. menntmrh., að það mætti ekki stytta skólatímann. Ég hef reynsluna, ég á 10 börn, þau hafa lengst verið í barnaskóla 2–3 mánuði á vetri og sum hafa ekki verið nema 3–4 mánuði í heild og hafa náð landspróf fyrir því, þegar þar að kom.

Nei, það er ekki undir því komið að pína unglingana til að vera lengi í skóla. Það er aðalatriðið, að þeim sé kennt og að þeir haldi sig að náminu, meðan þeir eru í skóla, fyrir utan það, að náttúrlega er eins og hver önnur barnapynting eða unglingapynting að halda þeim í 9 mánuði á einhverjum heldur óþægilegum stólum, eins og einn þm. var að tala um hér í gær. Það er óeðlilegt fyrir unglingana, og þeir verða að miklu minni mönnum fyrir það, í staðinn fyrir að fara út í lífið og fara að vinna og leika sér, eins og þeirra er eðli.

Þá er þessi ógurlega nauðsyn, sem alltaf er verið að tala um, að menn séu lengi í skóla og verði stúdentar. En sannleikurinn er sá, að í okkar landi er að verða hálfgerð stúdentaplága. Hvað á að gera við allan þennan lýð, sem nú er í háskóla? Ég er ekki að gera lítið úr greind þessara manna. Við þurfum bara á þeim að halda í aðrar atvinnugreinar. Þessir menn hafa ekkert að gera að loknu námi. Ég las í einhverju blaði, að Svíar væru nú orðnir í svo miklum vandræðum, að þeir ætluðu að fara að gera gervipresta úr uppgjafarstúdentum sínum og hafa til þess skyndinám. Svo eiga þeir að fara að prédika trúmál eins og prestar á eftir. Þetta er aðalatriðið.

En auk þess er það endemis ráðleysi, sem kemur fram í þessu frv., og óhagsýni, ótal stöður og nefndir og ráð, sem allt eykur kostnaðinn. Það er náttúrlega ekki ný bóla, að það sé heimskulega haldið á fjármálum í landi voru. T. d. eru það þessir fræðslustjórar í hverju kjördæmi. Hæstv. menntamrh. var að tala um, að ég fylgdist ekki vel með fundargerðum, og það er satt. Ég hef ekki fengið fundargerðirnar af þeim fundum, sem voru haldnir. En ég var búinn að frétta lauslega af þessum fundum, og það voru áreiðanlega fleiri aths., sem komu, heldur en þessi, að við ættum að hafa sérstakan fræðslustjóra í Norðurl. v. En það var ósköp eðlilegt, að það væri tekið til greina, því að það hefur líklega verið vitlausasta hugmyndin, sem hefur komið fram. Auðvitað höfum við enga sérstaka þörf fyrir þetta, en þetta kemur bara upp ríg á milli kjördæmanna, sem er ekkert nema barnaskapur. Sannleikurinn er sá, að það er ekkert að gera fyrir einn fræðslustjóra í hverju kjördæmi. Ef þessir menn ætla að hafa eitthvað að gera í þessa 9 mánuði, sem skólarnir eiga að starfa, getur einn maður farið um landið, því að þessir menn eru eins og hálfgerð plága á kennurunum. Þeir eru að koma og yfirheyra þá og rexa. Og kennurunum leiðist þetta, þó að þeir séu hógværir menn og taki þessu öllu vel. Áður hétu þeir námsstjórar. Þessir menn eru margfalt fleiri en þeir þurfa að vera, og þannig mætti skera mikið niður.

Svo er nú eitt í þessu frv. Menn eiga að fá tveggja ára laun fyrir að þykjast vera í einhverju framhaldsnámi og flakka út í lönd, — eru á fullum launum við það. Þetta er farið að ganga úr hófi, bæði með kennara og aðra, að þeir þurfi að fara út í lönd og eyða þar peningum. Ekki svo að skilja, að ég hafi á móti því, að menn fari út í lönd, en þeir þurfa ekki að vera á fullum launum fyrir það. Þetta erlenda ráp er farið að ganga alveg úr hófi.

Það er sem sagt ótalmargt, sem má að þessu frv. finna, og það er ósköp eðlilegt, að það megi finna að ýmsu, en ég hef drepið hér á aðalatriðin, og n. ræður því að sjálfsögðu, hvort hún tekur það nokkuð til greina.

En hinu skal ég lofa, ef þeir ætla að knýja þetta fram, þá skal ég skrifa grein og reyna að vinna á móti því, svo að það verði ekki hægt að framfylgja því mörg ár, eins og ég hef vit á, því að það er um unglingapyntingu að ræða og alveg stórhættulegt fyrir afkomu okkar í dreifbýlinu. Menn geta orðið nýtir menn, þó að þeir hafi ekki setið upp undir 20 ár í skóla. Við getum tekið fyrrv. landbrh. Hann eyddi ekki mörgum vetrum í skóla, þessi hæstv. ráðh., og ég efast um, að hann hefði orðið ráðh., ef hann hefði setið 15 ár í skóla, — ég stórefa það. Það er áreiðanlegt, að það er ekki hægt að gera gæðing úr slæmu efni og menn geta ekki orðið að neinum stórmennum bara af því að sitja í skóla.

Ég skal ekki fjölyrða þetta meira, það er ekki ástæða til þess. Ég veit, að n. athugar málið vel. Hún er skipuð miklum gáfumönnum, þó að þeir hafi ekki fengizt mikið við atvinnurekstur. En það vona ég, að þeir athugi, að menn þurfa að gera fleira en að sitja í skóla.

Viðvíkjandi því, sem kom hér fram áðan, að bændur gætu ekki kostað börn sín í skóla, þá er það dálítið hlægilegt. Sannleikurinn er sá, að það er ekki af fátækt, sem menn geta ekki lært hér á landi. Það er bara af því, að þau eru ekki hneigðir fyrir það, því að vinnulaun eru orðin það há og það mikil vinna, að ef unglingurinn á annað borð er námfús, getur hann alltaf haft sig í gegnum skólana, bara að hann hafi sjálfur viljann til þess. Og duglegir strákar geta svo að segja alveg unnið fyrir sér. Ef ekki er lengur skólatíminn til að gera þeim ómögulegt að vinna fyrir sér, þá hafa þeir getað klárað sig án þess að fá mikla hjálp. Hitt er svo annað mál, að foreldrarnir mega varla missa börnin öll, og þegar börnin eru öll farin til náms, fara foreldrarnir á eftir. Það er ákaflega tvísýnt, hve mikið gagn þessir skólar gera dreifbýlinu.

Þm. bösluðu mikið við að koma upp menntaskóla á Ísafirði. Svo frétti ég það eftir gömlum skipstjóra, sem sagðist hafa frétt eftir mér, — sagan er nú líklega sönn, að ég hafi verið að vappa í kringum vestfirzku þm., þegar þeir voru búnir að fá frv. samþ., og sagt þeim, að mikið óhagræði væru þeir nú búnir að vinna Vestfirðingum. Þarna hefðu verið einhverjir mestu og duglegustu skipstjórar á landinu og miklir myndarmenn, en þegar menntaskólinn væri kominn, þá færu öll beztu mannsefnin í hann og yrðu stúdentar, færu suður og slæptust hér í háskólanum, og þannig misstu þeir kjarnann af mönnunum, þennan kjarna, sem þeir höfðu áður í sínu atvinnulífi og til gagns fyrir þjóðina, og svo verða þeir viðskipstafræðingar, lögfræðingar eða þjóðfélagsfræðingar hjá Ólafi Ragnari Grímssyni í Reykjavík, — og hverjir munu verða þarfari fyrir þjóðina? Ég er nefnilega sannfærður um, að menntaskóli á Vestfjörðum verður Vestfirðingum sjálfum til mikils ógagns. Ég er ekki hræddur við mannfæðina í dreifbýlinu, en ég er hræddur við gáfnaflóttann. Ef á að fara að reka þann áróður, að þeir unglingar í dreifbýlinu, sem eitthvað geta lært, eigi nauðsynlega að verða stúdentar, ganga hér með hvítt um hálsinn, þá er okkar dreifbýli hætt. Það er ekki mannfæðin, sem drepur okkur, heldur hitt, að skólarnir verði til þess, að við missum alla greindustu unglingana. Það er það hættulegasta. Þeir koma ekki aftur heim til þess að setjast að í dreifbýlinu, eins og á málum er haldið nú. Þessir blessaðir launamenn, þessir ríkisstarfsmenn og yfirleitt fjöldinn af þessu launaliði er hættur að vinna nema 7 tíma á dag, 4–5 daga í viku. Þetta verður vitanlega til þess, að menn leita í þessar atvinnugreinar, hverfa frá þeim störfum, sem skipta þjóðina miklu meira máli, að aðaldugnaðarmennirnir séu í. Nei, við vinnum ekkert þrifaverk við að pynta unglingana til að sitja 9 mánuði á skólabekk í 9 ár.