01.03.1973
Neðri deild: 59. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2245 í B-deild Alþingistíðinda. (1761)

169. mál, heilbrigðisþjónusta

Ingvar Gíslason:

Herra forseti. Við ræðum nú hvert stórmálið á fætur öðru í þessari hv. d. Við höfum átt mjög gagnlegar umr. um skipulag skyldunámsins í landinu í dag og að undanförnu. Nú er hér málefni til umr., sem kemur okkur öllum við ekki síður en skólamálin.

Ég held, að það sé ekki ofmælt, að ástandið í læknamálunum sé eitt hið mesta áhyggjuefni almennings nú og úrbætur í þeim efnum næsta brýnar. Það frv., sem hér liggur fyrir, fjallar um endurskipulagningu heilbrigðisþjónustunnar, og samkv. stefnumörkun 1. gr. frv. er um mjög róttæka stefnu að ræða, sem þetta frv. boðar. Hún er að veita landsmönnum sem fullkomnasta heilbrigðisþjónustu, í víðri merkingu þess orðs, og í þessu frv. er að finna útfærslu þessarar stefnu. Frv. gerir ráð fyrir gerbreyttu skipulagi heilbrigðisþjónustunnar og gefur heilbrigðisþjónustunni í raun og veru nýtt inntak. Frv. lýsir þannig miklum vilja til nýskipunar, og ég held, að allir hljóti að vera sammála um, að nýskipan á sviði læknisþjónustunnar sé ákaflega brýn, því að ástandið í læknisþjónustunni er vægast sagt hörmulegt. Við vitum, að stórir landshlutar, jafnvel heilar sýslur, eru nær læknislausir mestan hluta ársins og mörg lögbundin læknishéruð eru einnig læknislaus ár eftir ár. Heimilislæknaskortur er almennt og alvarlegt vandamál í ýmsum kaupstöðum, þannig að það er ekkert um það að villast, að núverandi læknaskipun er stórgölluð og þjónar tæpast tilgangi sínum nú orðið. A. m. k. virðist svo vera, þar sem ómögulegt er að manna ýmis héraðslæknisembætti í landinu, svo að þau standa auð ár eftir ár. Það er því í sjálfu sér engin eftirsjá eftir núverandi læknaskipun, og munu allir fagna því, ef hægt er að endurskipuleggja heilbrigðisþjónustuna og þar með fyrst og fremst læknaskipunina, á þann veg, að hún veiti landsmönnum sem fullkomnasta þjónustu, eins og markmið þessa frv. er.

Ég lít svo á, að með þessu frv. sé verið að stíga mjög djarfmannlegt spor, og þess er vissulega þörf. Ég held, að ekki verði bornar brigður á, að ef þetta nýja skipulag kemst á, er um svo stórfellda framför að ræða í íslenzkri heilbrigðisþjónustu, að varla mun eiga sér hliðstæðu á öðrum sviðum. Þess vegna óska ég þess, að þetta nýja skipulag megi komast á og virkt sem undirstaða íslenzkrar heilbrigðisþjónustu um langa framtíð.

Hitt er annað mál, að það er ekki nóg að semja lög og setja fram skynsamlegar áætlanir. Til þess að lög verði virk og áætlanir verði áþreifanlegar, þarf meira en góðar óskir alþm. og áhuga ríkisstj. og embættismanna. Hvað þetta snertir þurfa vissar forsendur að vera fyrir hendi. Í fyrsta lagi þarf mikið fjármagn og í öðru lagi þarf sérstakan undirbúning til að hrinda hinu nýja heilbrigðisskipulagi í framkvæmd. Ég hygg, að þetta hvort tveggja geti orðið býsna örðugt viðfangsefni. Samt held ég, að fjáröflun og skipulagning framkvæmda verði ekki það, sem erfiðast reynist: Ég hef ekki trú á því, þegar til kastanna kemur, að standa muni á fjármagni til að vinna að endurbótum á heilbrigðisþjónustu og læknaskipun. Ég geri líka ráð fyrir því, að það þurfi ekki beinlínis að standa á tæknilegri og sérfræðilegri þekkingu við uppbyggingu þessa nýja kerfis.

En það, sem ég óttast, og það, sem er ofarlega í huga mínum, þegar ég horfi lengra fram varðandi framkvæmd þessa máls, er tvennt: í fyrsta lagi, að þetta kerfi leysi ekki í tæka tíð þann brýna vanda, sem við er að glíma nú, og í öðru lagi er engin trygging fyrir því í þessu frv., að hægt verði að manna heilsugæzlustöðvarnar með því æskilega starfsliði lækna og hjúkrunarfólks, sem frv. gerir ráð fyrir.

Þetta er það sem ég óttast mest, og ég get ekki legið á því við þessa umr. Það vantar í frv. og það vantar í aðra löggjöf tryggingu fyrir því, að læknar fáist til að gegna störfum hér á landi, þrátt fyrir svo fullkomið skipulag sem hér er gert ráð fyrir.

Við skulum athuga, að þetta nýja kerfi þarfnast mikils starfsliðs. Fyrst og fremst krefst það útlærðra lækna, en einnig nauðsynlegs aðstoðarfólks, hjúkrunarfólks margs konar, læknaritara, meinatækna, sjúkraþjálfara, jafnvel sálfræðinga og félagsráðgjafa o. s. frv. Þetta fólk er ekki til í landinu í dag nema að sáralitlu leyti, jafnvel læknislært fólk, sem er fúst að takast á við vandamál af þessu tagi, er ekki fyrir hendi. Það er þó undirstaða þessa kerfis. sem hér er boðað, að slíkt fólk sé fyrir hendi, fyrst og fremst læknarnir. Eigi að síður dáist ég að þeim stórhug, sem þetta frv. ber með sér, og ég efa ekki, að hið fyrirhugaða skipulag sé á allan hátt mjög skynsamlegt og boði það sem hlýtur að koma. En ég óttast erfiðleikana við framkvæmd þess. Mest óttast ég, að ekki sé fundið ráð við viljaskorti læknastéttarinnar til að sinna almennum lækningum hér á Íslandi. Hvað sem hver segir um skipulag og hvað sem hver segir um ytri aðbúnað, þá blasir við tregða og viljaskortur læknastéttarinnar, að ekki sé sagt ábyrgðarleysi hennar, gagnvart verkefnum í þjóðfélaginu, sem hún ein getur af hendi leyst. Þess vegna geri ég það að sérstakri ábendingu minni við umr. um þetta mál, að starfsundirbúningur læknastéttarinnar verði tekinn til endurskoðunar og endurmats. Ég hygg, að á því sé engin vanþörf. Það hefur yfirleitt aldrei skort vilja ríkisstj. og Alþ. til að bæta heilbrigðisþjónustuna í landinu, og það hefur aldrei staðið á fjármagni í sambandi við það að eyða læknaskortinum í landinu. Ég held þvert á móti, að það hafi ætíð verið eitt mesta áhugamál þings og stjórnar að koma í veg fyrir læknaskort. Í þessu máli sem öðrum er reynslan ólygnust. Læknastéttin hefur í rauninni brugðizt. Það má vera, að eitthvað sé að rofa til í þeim efnum. Ég skal fúslega viðurkenna, að eitt og annað bendir til þess, að læknastéttin finni meira til ábyrgðar sinnar en áður var. Þessi hugarfarsbreyting á þó eftir að koma skýrar fram í verki. Við skulum vona, að þetta skörulega frv. hafi áhrif í þá átt.

Ég vil endurtaka höfuðatriði þess, sem ég vil benda á nú við 1. umr. málsins, og það er, að starfsundirbúningur læknastéttarinnar verði tekinn til endurmats og endurskoðunar og að betur verði hugað að leiðum til að bæta úr brýnu neyðarástandi í læknamálum landsins. Hins vegar vil ég taka það fram, að ég mun að sjálfsögðu ekki tefja fyrir því, að þetta mál fái framgang á þessu þingi, og ég vona, að ég fái aðstöðu til þess sem nm. í heilbr.- og trn.