05.03.1973
Neðri deild: 60. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2261 í B-deild Alþingistíðinda. (1776)

152. mál, ferðamál

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Ég hef áhuga fyrir því að benda á nokkur atriði í sambandi við ferðamál. Enginn efast um, að ferðalög verða sífellt stærri og stærri þáttur í þjóðarbúskapnum, ef þannig mætti taka til orða. Menn hafa meiri frítíma en áður og meiri og betri ráð á að ferðast, og það tel ég vel farið. Ég álít, að það eigi að leggja gífurlega mikla áherzlu á að greiða fyrir ferðalögum Íslendinga innanlands. Það hefur stórfellda þýðingu í sambandi við tengsl manna við landið, að þeir ferðist um það, skoði það og kynnist því, ekki sízt eins og nú er komið, þegar meiri hluti þjóðarinnar býr í borgum og fæst við inniverk. Ég held, að það sé fátt, sem getur tryggt betur eðlilega sambúð manna við landið en einmitt ferðalög og að þeim hljóti að vera hin mesta sálubót fyrir landsmenn.

Ég tel, að það sé eitt af því þýðingarmesta, sem þarf að koma til, að menn lifi í sátt við umhverfi sitt, og menn eru gjarnan dálítið ósáttir eða tortryggnir í garð þess, sem þeir þekkja ekki, og þess vegna hygg ég einmitt, að samgangur manna við landið af þessu tagi sé ákaflega þýðingarmikill.

Þá álít ég, að það eigi að vinna að því að fá útlendinga til þess að koma til landsins og gera skynsamlegar ráðstafanir til þess að geta tekið á móti þeim og auka þannig ferðamannastrauminn inn í landið, þó að ég líti alltaf á hitt sem aðalatriði í sambandi við ferðamálin, sem sé að þjóðin ferðist sjálf um sitt eigið land. Á hinn bóginn finnst mér nauðsynlegt að gera grein fyrir því, að við eigum ekki að keppa að því að fá fleiri útlenda menn til landsins en hægt er að taka vel á móti og landið þolir án þess að bíða við það tjón. Það þarf að samrýma skynsamlega og hyggileg landnýtingarsjónarmið í ferðamálunum. Enn fremur verður að flétta inn í þessi mál umhverfismálin sjálf, náttúruvernd og aðra slíka þætti og vil ég í því sambandi benda á, að það er til önnur löggjöf, þ. e. a. s. löggjöfin um náttúruverndarmál, það er sem sé löggjöf í gildi í landinu, sem gerir ráð fyrir því, að náttúruverndarmál og útivistarmál séu mjög fléttuð saman.

Þessir þættir eiga að fléttast saman, og ég fagna því, að í þessu frv. um ferðamálin er nú í fyrsta skipti í löggjöf um ferðamál tekið tillit til þessara sjónarmiða, því að hér er allmyndarlegur kafli, sem fjallar um umhverfisvernd. Það er því greinilegt, að í þessu frv. er um alveg nýja stefnu að ræða að þessu leyti til í meðferð ferðamála. Ég held, að það sé mjög þýðingarmikið, að þessi efni séu rækilega höfð í huga, þegar stefnan er mótuð um ferðamál hjá okkur framvegis, og þess vegna fagna ég því, að þessi kafli er í frv.

Ég vil benda á örfá atriði til að sýna mönnum, hvað hér er brýn nauðsyn fyrir hendi.

Það er skylda náttúruverndarráðs að hafa nokkurt yfirlit um ástandið í útivistarmálum, ef þannig mætti taka til orða, og í náttúruverndarráði hafa menn haft miklar áhyggjur af því, hvernig ástatt er um marga okkar eftirsóknarverðustu staði, einkanlega í óbyggðum. Það liggur víða allt meira og minna undir skemmdum, og sannleikurinn er sá, að við eigum það á hættu, að staðir eins og Landmannalaugar, Hveravellir, Þórsmörk og Herðubreiðalindir t. d. bíði varanlegt tjón, sem ekki verður hægt að bæta, ef ekki eru gerðar mjög fljótlega myndarlegar ráðstafanir til varnar á þessum stöðum.

Náttúruverndarráð hefur þess vegna beitt sér fyrir því, að upp hefur verið sett samstarfsnefnd þess og ferðamálaráðs, heilbrigðiseftirlitsins, Ferðafélags Íslands og Skógræktar ríkisins til þess að skoða og reyna að gera sér grein fyrir því, hvernig er ástatt á stöðum eins og þessum og öðrum sambærilegum. Þessi n. hefur starfað nokkuð í vetur. Það kom fljótlega í ljós, að þeir staðir, sem n. óskaði eftir að athuga eða reyna að gera sér grein fyrir, urðu 15, en ekki 4, og mætti þó sjálfsagt segja, að þörf væri á því að athuga enn fleiri staði frá þessum sjónarhól.

Ég ætla ekki að fara að lýsa því hér, í hverju þessi háski er fólginn, en aðalatriðið er þetta, að það vantar á flestum þessum stöðum mjög mikið á, að hægt sé að taka á móti þeim ferðamannastraumi, sem þangað rennur eða þangað sveigist, á þann hátt, að stöðvunum sé ekki stórkostleg hætta búin. Það vantar bílastæði, það vantar hreinlætisaðstöðu, það vantar gæzlu og, það vantar tjaldstæði o. s. frv., o. s. frv. og sums staðar er ástandið mjög alvarlegt. Ferðafélag Íslands hefur unnið stórkostlegt starf, sem því verður aldrei fullþakkað, með því að búa í haginn á mörgum þessum stöðum, svo langt sem það nær með miklum myndarskap, t. d. með því að byggja hin alþekktu hús, sem víða eru komin upp á vegum Ferðafélagsins, og með því að hafa uppi gæzlu á þessum stöðum sumum með ærnum kostnaði fyrir þennan félagsskap. Það er óhugsandi, að Ferðafélag Íslands hafi bolmagn til þess að leysa þessi mál á viðunandi hátt miðað við þá umferðarbyltingu, sem er að verða núna síðustu missirin, því að þar er varla hægt að tala um annað en byltingu. Þetta verðum við mjög vel varir við, sem fylgjumst t. d. með umferðinni á Þingvöllum, og eins Ferðafélag Íslands, sem fylgist með umferðinni á þessum stöðum, sem ég nefndi, að þar er nánast um byltingu að ræða.

Þessi n., sem ég var að segja frá, samstarfsnefnd þessara stofnana, kemst sjálfsagt ekki lengra en að benda á ýmislegt, sem þyrfti að laga, og mun leggja sig fram um að reyna að gera það. En síðan kemur til framkvæmdanna, og þá er satt bezt að segja, að þar verður við ramman reip að draga, vegna þess að hér er sums staðar um ærið kostnaðarsamar framkvæmdir að ræða, sem þurfa að koma til. En fullvíst er, að ef á að afstýra stórtjóni, verður að gera einhverjar ráðstafanir á sumum þessum stöðum þegar fyrir næsta sumar.

Vel má vera, að ferðamálaráð og samgrn. hafi möguleika til þess að hlaupa þarna eitthvað lítilsháttar undir baggann, og þeir, sem ráða fyrir heilbrigðismálum, og náttúruverndarráð gætu kannske eitthvað gert með því starfsfé, sem þau hafa til meðferðar o. s. frv. En það er áreiðanlegt, að hér verða að koma til algerlega ný átök með öðru móti en áður hefur tíðkazt, ef fram úr þessu á að ráða. Kemur þá til m. a. að búa út bílastæði, gera hreinlætisaðstöðu sæmilega úr garði, gera ráð fyrir tjaldstæði, auka gæzlu á þessum svæðum, og þannig mætti lengi telja.

Þá verður að leita þeirrar lausnar, sem ég vil leggja áherzlu á, að dreifa umferðinni meira en gert hefur verið. Það verður ekki gert með því að banna mönnum að sækja þá staði, sem eftirsóttastir hafa verið fram að þessu, þó að mönnum þyki nóg um umferðina, heldur verður að gera það með því að opna, ef svo mætti segja, nýja staði. Það fer ekki vel ef ekki verður á næstunni gengið í að opna nýja staði og vekja athygli á þeim, búa þeim í haginn fyrir umferðina og búa þannig um, að fólk laðist að þeim. Þarna mun hringvegurinn nýi hjálpa mikið til eins og í fleiri efnum, því að hann mun á allar lundir stuðla að betri og bættri landnýtingu.

Hér er í raun og veru um mjög þýðingarmikinn þátt í nýtingu landsins að ræða. Hér ætti einnig að koma til, að bæjarfélög og önnur stærri byggðarlög í landinu ættu að ganga fram í því að taka stór útivistarsvæði fyrir og taka þau frá til útivistar, gera það sem allra fyrst og búa þau þannig, að þau geti tekið á móti umferðinni. Það mætti nefna margt, sem nauðsynlegt væri að gera í því sambandi, og í raun og veru er þýðingarmest af öllu, að menn hugsi nógu stórt í þessu tilliti, að menn hugsi nógu stórt. Þannig má segja um þá hugmynd, sem hér hefur verið á gangi í Reykjavík og að hafa fólkvang, sem nái frá Höskuldarvöllum og austur í Bláfjöll, og ekki er nema að litlu leyti komin til framkvæmda, að það þyrfti að stækka þá hugmynd stórkostlega. Það þyrfti að stækka hana þannig að gera ráð fyrir tengingu á slíkum fólkvangi við Hengilssvæðið, Hellisheiðina og Þingvallasvæðið og norður í Hvalfjarðarbotn um Leggjabrjót og raunar upp fyrir norðan Botnssúlur og allar götur norður í Kvígindisfell, sem sagt að fá þetta stóra svæði opnað fyrir útivistarfólki og dreifa þannig eðlilegri umferð og vekja þá um leið að sjálfsögðu athygli á þeim miklu möguleikum, sem eru til þess að njóta útivistar á þessu svæði. Ég nefni þetta aðeins sem dæmi.

Það mætti líka nefna í þessu sambandi svæðið undir Jökli, við skulum segja t. d. allar götur frá Búðum og að Saxhóli t. d., þ. e. a. s. fyrir Jökul.

Þetta eru auðvitað svæði, sem ætti auðvitað fyrst og fremst að hlynna að sem útivistarsvæðum og búa í haginn á þessum svæðum fyrir ferðalög og ferðafólk. Við verðum að gera okkur grein fyrir því, að það er að verða alger bylting í þessum málum og að þeir staðir, sem við höfum eftir fastri venju sótt og eru framúrskarandi fagrir og mikils virði, geta ekki lengur tekið við allri þeirri umferð, sem að þeim beinist. Það er alveg óhugsandi. Það liggur margt undir stórskemmdum á þessum stöðum. Þetta verður að takast á við sumpart sem náttúruverndarþátt og útivistarþátt og sumpart sem ferðamál. Þó að ég hafi nefnt þessi tvö dæmi hérna, þá er það ekki fyrir það, að það komi ekki til greina mörg önnur svæði.

Það verður að hafa útivistarsvæðin nógu stór. Það er ekki þar með sagt, að það eigi að fella þar niður alla starfrækslu aðra en þá að ganga þar um eða ferðast um ríðandi, tjalda þar o. s. frv. Á svæðunum getur fullkomlega komið til greina atvinnurekstur inn á milli, búskapur o. fl., eftir því sem skynsamlegt þykir.

Um þetta, held ég, að menn verði á næstu árum að koma sér upp stórum áætlunum og það þurfi að takast náið samstarf um þessi efni milli forráðamanna ferðamála og þeirra, sem trúað er fyrir náttúruvernd og eins konar forustu í útivistarmálum. Þess vegna tek ég það enn fram, að ég fagna þeim nýja kafla í frv., þar sem ráðgert er, að stofnanir ferðamála hafi verulegar skyldur í þessu tilliti. Að sjálfsögðu er rétt að endurskoða og fara vel yfir öll þau ákvæði frv., sem að þessu lúta, og ég veit, að náttúruverndarráð mundi fyrir sitt leyti gjarnan vilja leggja þar orð í belg, ef ástæða þætti til að spyrja það ráða og jafnvel hvort sem er. Þá mundi þeim hugleiðingum verða komið á framfæri við þá n., sem fjallar um þessi mál.

Kannske ættu að vera í löggjöfinni einhver tengsl, skipulagstengsl, á milli ferðamálastjórnarinnar og náttúruverndarráðs, en ég er ekki viss um það. Það getur alveg eins verið, að sú samvinna eigi að vera ólögboðin og komi af sjálfu sér vegna þess, hversu verkefnin eru skyld, og einmitt fyrir frumkvæði náttúruverndarráðs, eins og ég var að segja frá áðan, er nú þegar komin upp samvinna um þann þátt málanna, sem ég var að greina frá.

Ég legg áherzlu á það, að menn horfist í augu við, að það verður að búa landið þannig, að það sé hægt að ferðast um það, bæði innlendir menn og erlendir, án þess að skemma það, og það verður að gera þetta áður en stórkostlegar ráðstafanir eru gerðar til að auka ferðamannastrauminn. Það verður að gera þetta áður. Það verður að gera þetta allt með ráði og þannig, að menn fái ekki yfir sig slíkt flóð af fólki, að verði að átroðningi. Það vill auðvitað enginn okkar. En það er þetta, að það útheimtir mikla framsýni að gera sér grein fyrir því, hvað þarf að gera, og verulegt framtak og fjármuni til þess að koma því í framkvæmd í tæka tíð. Það er nefnilega ekki nóg að byggja hótel. Það þarf, eins og ég sagði, að búa landið þannig, að það geti tekið við umferðinni, þannig að allt fari vel. Ég held, að möguleikarnir séu miklir, ef við gerum okkur grein fyrir málinu, leitum t. d. svæða, sem æskilegt er að opna, og höfum framkvæmd í okkur til að opna þau svæði. Og ég vil ítreka það hér, að ég tel, að nýi hringvegurinn muni bæta skilyrðin í þessu tilliti alveg stórkostlega og bjarga mjög miklu.

Kostnaðarsamast af því, sem þarf að gera, fyrir utan hótelbyggingarnar er að sjálfsögðu búnaður þeirra staða, þar sem menn eiga að hafa viðkomu, gera nægilega mikið af góðum áningarstöðum og dvalarstöðum. Þetta er afar þýðingarmikið mál, bæði fyrir þéttbýlisfólk og dreifbýlisfólk, því að ef þessi málefni verða ekki tekin nýjum og fastari tökum en gert hefur verið fram að þessu, er hætta á því, að það verði vaxandi árekstrar og ýmiss konar leiðindi komi til. Það vantar t. d. tjaldstæði, og óeðlilegur átroðningur verður af umferðinni í garð þeirra, sem stunda atvinnurekstur á landinu. Það á að vera hægt að koma í veg fyrir slíkt, ef menn eru nægilega framsýnir og tíma að sjá af þeim fjármunum, sem þarf að kosta til.

Ég býst við, að flestir geri sér grein fyrir því, að hér er um vandamál að ræða, ef menn á annað borð leiða hugann að því. Í þessu frv. er gert ráð fyrir að auka fjárráð til þessara mála frá því, sem áður hefur verið lagt til, og er ástæða til að fagna því. Spurningin er á hinn bóginn, hvort þeir fjármunir, sem ferðamálastjórnin á að ráða yfir til þess að búa í haginn víðs vegar um landið í sambandi við ferðalög af því tagi, sem ég hef aðallega rætt um, eru nægilega ríflegir, en það er að sjálfsögðu ástæða til þess að athuga það í nefnd.

Ég mun ekki eyða tíma d. í að ræða meira um þessi efni eða fleiri þætti þessara mála. Ég stóð upp til þess að vekja athygli á þessum viðhorfum. Ég vil þó, fyrst ég er staðinn upp, benda á 32. gr., sem ég vil, að verði skoðuð í n. sérstaklega. Hún fjallar um, að heimilt sé ráðh. að setja ákvæði um greiðslu aðgangseyris að fjölsóttum ferðamannastöðum. Þessi gr. er ekkert nýmæli í lögum. Hún er í gildandi lögum. En ef menn vilja hafa heimild af þessu tagi í lögum, þá þyrfti, eins og málum er komið, að ganga öðruvísi frá henni, vegna þess að eftir lögum um náttúruvernd stjórnar náttúruverndarráð þjóðgörðum og útivistarsvæðum, sem eru á vegum ríkisins. Það yrði a. m. k. að vera þannig ákvæði, að ekki væri hægt að setja aðgangseyri að þessum stöðum, nema samþykki náttúruverndarráðs kæmi til sem sé ef um er að ræða staði, sem það á að bera ábyrgð á. Annars vil ég segja, að ég hallast heldur frá því að setja slíkan aðgangseyri. Ég ætla þó ekki að fara að ræða það hér nánar, en yfirleitt finnst mér heldur óaðlaðandi að setja aðgangseyri á þennan hátt. Ég bendi á, að þessa gr. þyrfti að smíða á ný, miða við þau nýju viðhorf, sem orðin eru, frá því að gömlu lögin um skipulag ferðamála voru sett.