05.03.1973
Neðri deild: 60. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2272 í B-deild Alþingistíðinda. (1778)

152. mál, ferðamál

Svava Jakobsdóttir:

Herra forseti. Það eru aðeins eitt eða tvö afmörkuð atriði, sem mig langar að gera að umtalsefni varðandi það frv., sem hér liggur fyrir til umr.

Ég vil þá fyrst taka fram, að ég er sammála því, sem hæstv. samgrh. sagði í framsöguræðu sinni, að full nauðsyn er á því að vinna skipulega að ferðamálum og því tímabært að koma á heildarstjórn þessara mála og kannske umfram allt tímabært að marka ferðamálastefnu, eins og gert er með þessu frv. Mörkun ferðamálastefnu er ekki aðeins nauðsynleg vegna umhverfissjónarmiða, heldur einnig vegna þess, að samstarf okkar Íslendinga við aðrar þjóðir um ferðamál, einkum Norðurlandaþjóðirnar, fer sívaxandi, og er t. d. nú á næstunni ætlunin að beina ferðamannastraumi í æ ríkara mæli á þann veg, að Norðurlandaþjóðirnar heimsæki hver aðrar í stað þess að fara til Suðurlanda eða eitthvað annað. Við getum ekki tekið þátt í slíku samstarfi, svo að gagni sé, nema við höfum grundvöll til að standa á, og ég fæ ekki betur séð en 1. gr. þessa frv. sé nægilegur og skýrt afmarkaður grundvöllur fyrir okkur í þessu efni. Í þeirri gr. er tekið skýrt fram, að umhverfisverndarsjónarmið skuli vera annað meginatriðið, sem taka skal tillit til. Umhverfisverndarsjónarmið eru nú viðurkennd um allan heim. Eftirliti af hálfu okkar Íslendinga í þessu efni yrði áreiðanlega vel tekið og mættum við gjarnan hafa það eftirlit strangt án þess að verða fyrir gagnrýni. Auk þess er þessi stefnumörkun mikil framför frá því, sem er í gildandi ferðamálalögum, þar sem í aðeins einni gr. er fjallað um náttúruvernd og þá takmarkað við vernd fjölsóttra ferðamannastaða.

Hins vegar langar mig til að gera aths. um stjórn Ferðamálastofnunarinnar. Að vísu er ég sammála hv. síðasta ræðumanni um, að það getur verið erfitt að koma með þær hugmyndir um stjórn þessara mála, sem að gagni mættu verða, og sjálfsagt mætti velta ýmsu fyrir sér. En mér virðist samt ekki vera nægilega tryggt í skipun stjórnar Ferðamálastofnunarinnar, að þetta markmið frv. komi raunverulega til framkvæmda. Gert er ráð fyrir því, að ráðh. skipi þrjá af fimm stjórnarmönnum, en tveir skulu skipaðir eftir tilnefningu ferðamálaráðs. Mín megingagnrýni beinist að því, að ég tel, að ráðh. hafi hér óþarflega mikið vald. Það ætti að vera hægt að framkvæma stefnu frv., án þess að sá ráðh., hver sem hann er í það og það sinn, hafi svo mikið vald í sambandi við stjórn stofnunarinnar. Auk þess sem ráðh. á að skipa 3, er gert ráð fyrir, að hann ákveði með reglugerð, hverjir skuli sitja ferðamálaþingið. Það á ekki að binda það í lögum, hvaða aðilar skuli sitja þingið, en þingið á síðan að kjósa í ferðamálaráð, og þaðan fara tveir í stjórn stofnunarinnar, þ. e. a. s. þessir tveir eru nánast líka komnir frá ráðh. Nú er mér ekki ljóst, hvort heppilegra er að binda í lögum, hvaða aðilar skuli sitja ferðamálaþing, þó teldi ég ekki óeðlilegt, að það yrði hafður sami háttur á og í lögum um náttúruvernd, þar sem þeir, sem skipa eiga fulltrúa á náttúruverndarþing, eru tilnefndir í lögunum, en síðan er kveðið svo á, að heimilt skuli með reglugerð að fjölga þeim, sem þar eiga sæti. Það kann að vera, að það sé heppilegra að hafa þann hátt á í sambandi við ferðamálaþing einnig.

Ég vil varpa fram þeirri hugmynd, hvort ekki sé rökrétt og eðlilegt samkv. 1. gr. frv., að náttúruverndarráð tilnefni mann í stjórn stofnunarinnar. Auk þess sem hlutverk stofnunarinnar, heill kafli þess, fjallar um eftirlit og umhverfisvernd, þá eru þar að auki mörg atriði önnur, þar sem náttúruverndarsjónarmið koma til greina, og vil ég þá fyrst nefna sjálfa skipulagningu ferðamála, landkynningarstarfsemi og áætlanagerð. Ég held, að það sé engan veginn sama, hvernig við kynnum þetta land. Ég held, að við verðum að gera þeim ferðamönnum, sem hingað koma og vilja leita upp í óbyggðir og öræfi, grein fyrir því, að gróður er viðkvæmur og það er ekki hægt að ganga hér um hvernig sem er, ef svo mætti að orði komast. Ýmislegt fleira mætti tilnefna. T. d. á skv. 7. lið í II. kafla að vinna að því, að hópferðir fyrir almenning til öræfa landsins verði samræmdar og skipulagðar. Þar held ég, að náttúruverndarsjónarmiðin hljóti að koma til. Ég nefni þetta til að sýna, að það er engan veginn hægt að afmarka í einum kafla atriði, sem eigi að hafa samráð við náttúruverndarmenn um, heldur hljóti öll þessi mál að gegnsýrast af þessum sjónarmiðum, ef markmiðsgreinin á að ná tilgangi sínum. Ég læt þetta nægja um stjórn stofnunarinnar. En ég vil koma að öðru atriði einnig. Í núgildandi lögum er kveðið svo á um, að Ferðaskrifstofa ríkisins skuli stuðla að gerð góðra minjagripa með þeim hætti, sem þar er kveðið á um. Ég sakna þess, að ekki skuli tekin afstaða í þessu frv. til minjagripagerðar. Ég held, að það sé nauðsynlegt að fyrirhugðuð ferðamálastofnun hafi líka einhvers konar eftirlit með því, t. d. með því að koma sér upp sérstöku vörumerki eða einhverju slíku, þannig að ferðamenn geti verið öruggir um, hvers konar minjagripi eða vörur þeir eru að kaupa.

Herra forseti. Ég læt þá útrætt um þetta, en fagna því, að frv. þetta skuli fram komið.