05.03.1973
Neðri deild: 60. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2279 í B-deild Alþingistíðinda. (1781)

152. mál, ferðamál

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Ég stend hér upp aðallega til að þakka hv. þdm., sem til máls hafa tekið um frv., góðar undirtektir. Ég held, þó að þeir hafi ekki komið fram með beinar till., að þeir hafi verið með hugleiðingar um ýmis mál, sem ástæða sé til að athuga, og ég geri mér það alveg ljóst, að það skiptir ekkert litlu máli, að okkur takist með nýrri löggjöf um ferðamál að koma þeim málum í skipulegan, fastan farveg. Á ég þar bæði við ferðamennskuna varðandi útlendinga og fólkið í landinu sjálfu. Og ég tek alveg sérstaklega undir það, sem hv. 1. þm. Austf. vék að, að við ættum að opna stór útivistarsvæði einmitt með það fyrir augum að dreifa og jafna ferðamannastraumnum um landið, dreifa honum frá hinum fjölsóttustu stöðum án þess að leggja þar við bönn og geta þá bent á aðra staði, sem gætu við fólkstraumnum tekið að einhverjum hluta. Ég er honum einnig sammála um það, að samstarf þurfi að takast milli forustumanna ferðamála og þeirra manna, sem starfa að náttúruverndarmálum, og einnig það, að slíkt samstarf þurfi helzt að mótast frjálst, fremur en að sníða því þröngan lagastakk frá upphafi. Ég gæti ímyndað mér, þó að þetta samstarf sé alveg sjálfsagt og hljóti að geta orðið til mikils gagns fyrir þessi mál, að þá væri betra, að þau formuðust a. m. k. fyrst í stað með frjálsum hætti. Síðar mætti e. t. v. binda þeim lagabúning.

Margt af því, sem hv. 1. þm. Sunnl. sagði, var einnig hugleiðingar um málið, um það, sem orkað gæti tvímælis í þessu allítarlega frv., og um margt af því, sem hann ræddi um, er ég honum alveg sammála, t. d. að við megum engan veginn, gleyma innlendu ferðamálamöguleikunum vegna erlendu ferðamannanna eða vegna ferðamannastraumsins frá Íslandi til annarra landa. Við eigum sannarlega að hafa opin augun fyrir ferðamálamöguleikum okkar sjálfra innanlands, miklu fremur en leggja alla áherzlu á erlenda ferðamannastrauminn til landsins.

Þá hefur af nokkrum hv. þm. verið vikið að vafasömum atriðum, eins og hverjir eigi að tilnefna í stjórn Ferðamálastofnunar Íslands, og er ég alveg sammála um, að það beri að athuga, hvort aðrir aðilar en rn. eða ráðh. eigi ekki að hafa meirihlutaaðstöðu í stjórn Ferðamálastofnunarinnar, það er mér a. m. k. ekki fast í hendi. Þetta er atriði, sem 2–3 hv. þm. hafa vikið að, og ég tel því alveg sjálfsagt, að hv. n., sem málið fær til meðferðar, taki það til athugunar.

Hugmyndin um að tengja þarna saman starf náttúruverndarsamtakanna, náttúruverndarráðs og forustumanna ferðamálanna er hugmynd, sem ég vil gefa gaum.

Það hefur verið nokkuð dregið í efa, hvort það sé rétt, sem ég sagði í framsöguræðu minni, að frv. sjálft gerði ekki ráð fyrir auknum mannafla við yfirstjórn ferðamálanna. Ég held, að þetta sé rétt að meginefni, því að ætlunin er, að ferðamálaráð, sem nú er skipað 9 mönnum, renni saman við Ferðaskrifstofu ríkisins og úr þessum tveimur aðilum, hinu fjölmenna núv. ferðamálaráði og stjórn Ferðaskrifstofu ríkisins, myndist Ferðamálastofnun Íslands, og henni er ekki ætlað til þjónustu meira starfslið en nú á sér stað. En ef menn vilja fella einstaka starfsþætti ferðamálanna undir þetta, þá er áreiðanlegt, að miklu meiri mannöflun kemur til. Ráðstefnuhaldið yrði annaðhvort á vegum sjálfstæðra stofnana eða ákveðinna hótela, og það starfslið, sem fer til að stjórna ráðstefnuhaldi sem verulegum þætti íslenzkra ferðamála, væri einn af þeim þáttum atvinnulífsins, sem myndast í sambandi við þetta, en engan veginn þáttur í yfirbyggingunni sjálfri, eða þannig lít ég a. m. k, á það mál. En þar mundum við koma miklu víðar við. Höfuðgildi ferðamálanna er einmitt gjaldeyris- og fjáröflunarþýðingin og það, hvað margbreytileg störf tengjast ferðamannastraumnum til þjónustu við hann á hinum ótrúlegustu sviðum þjóðfélagsins, ekki aðeins á sviði neyzlu, eins og hv. 1. þm. Sunnl. gat hér um áðan, að væri mjög þýðingarmikið í sambandi við þessi mál, heldur margs konar þjónustarfsemi önnur, sem grípur inn á flest svið þjóðfélagsins. og það er það, sem veldur því, að Bandaríkjamenn telja, að dollarinn, sem kemur inn í ferðamannastraumnum, sjöfaldi sig í efnahagskerfinu, og svipað hygg ég, að muni vera hjá öðrum þjóðum, sem gera ferðamál að þætti í atvinnulífi sínu.

Hv. þm., sem talaði hér síðast um málið, hv. 5. þm. Norðurl, e., var einnig með margvíslegar hugleiðingar og aths. um atriði í frv., sem ástæða væri til að staldra við, og ég heyrði ekki á honum annað en hugur hans til frv. væri að öllu leyti jákvæður. Ég þakka honum fyrir þær ábendingar, sem hann bar fram.

Ég tel, að það, sem hefur komið fram við þessa umr., sé á margan hátt svo mikillar athygli vert, að hv. starfsnefnd þingsins, sem tekur við málinu, eigi að líta á þessar ábendingar. Eru engar hömlur á hv. n. lagðar frá minni hendi eða rn. varðandi það, að allar ábendingar til bóta á frv. verði teknar til greina.