05.03.1973
Sameinað þing: 53. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2287 í B-deild Alþingistíðinda. (1785)

136. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson) :

Herra forseti. Þessi þáltill. sjálfstæðismanna um þingrof og nýjar kosningar er einber sýndarmennska, sem flanað er að í fljótræði og það á þeim tíma, sem mestu varðar, að þjóðin standi sem mest saman um sín stóru mál, bæði inn á við og út á við. Fátt væri fráleitara en að fara að stofna til harðvítugrar kosningabaráttu einmitt nú, enda till. sjálfsagt flutt í því trausti, að hún verði ekki tekin of alvarlega.

Það dettur auðvitað engum í hug í alvöru, að stjórnarflokkarnir hverfi frá hálfunnu verki eða raunar vel það á hálfnuðu kjörtímabili. Núv. stjórnarflokkar fengu ótvíræðan meiri hl. í síðustu alþingiskosningum. Þeir gerðu með sér ítarlegan málefnasamning, sem byggður var í stórum dráttum á þeim stefnuskrám, sem lagðar höfðu verið fyrir kjósendur. Stjórnarflokkarnir allir eru að sjálfsögðu siðferðilega skuldbundnir til að vinna saman á grundvelli þess málefnasamnings út allt kjörtímabilið. Það er engum ætlandi að ganga undan merkjum, á meðan unnið er að framkvæmd hans á þann hátt, sem aðstæður leyfa. Að loknu kjörtímabili eða árið 1975 fer svo með eðlilegum hætti fram úttekt á starfi stjórnarinnar og framferði stjórnarandstöðunnar. Við þær lýðræðisleikreglur verða sjálfstæðismenn eins og aðrir að sætta sig.

Ég held, að því verði ekki á móti mælt með neinum rökum, að stjórnarflokkarnir hafa unnið dyggilega að framkvæmd málefnasamningsins. Mjög margt af því, sem fyrirheit var gefið um í honum, er þegar komið til framkvæmda eða mun koma til framkvæmda á þessu ári. Annað er á undirbúningsstigi. Sumt er það vissulega, sem enn hefur ekki gefizt tími til að sinna.

Þess er enginn kostur við þessa stuttu útvarpsumr. að gera grein fyrir þeim fjölmörgu framfaramálum, sem stjórnin hefur beitt sér fyrir á starfstíma sínum. Ég læt nægja að vísa til þess, sem ég hef um það sagt í stefnuræðu minni s. l. haust og í áramótagrein í Tímanum. Ég minni þó aðeins á hina stórfelldu uppbyggingu atvinnulífsins á nær öllum sviðum og þá ekki hvað sízt víðs vegar úti á landsbyggðinni. Ég nefni t. d. framkvæmdir á sviði samgangna og skólamála, og síðast, en ekki sízt, nefni ég útfærslu landhelginnar, sem er mál málanna hjá þessari ríkisstj. og þjóðinni allri. Um það mál hefur verið og á að vera samstaða allrar þjóðarinnar. Um það mál vil ég ekki deila, þó að skrif sumra stjórnarandstöðublaða að undanförnu gætu gefið tilefni til þess að rekja sögu málsins og staðreyndir. Ég vona þrátt fyrir allt, að samstaða ábyrgra aðila haldist án víxlspora, og er ég þá sannfærður um, að við munum fagna fullnaðarsigri í því réttlætis- og lífshagsmunamáli okkar, en þolinmæði getur þurft til. Andspænis því stórmáli eru öll okkar dægurmál smá.

Það liggur í hlutarins eðli, að ég tel mikilsvert, að stjórnin fái starfsfrið til að vinna áfram að þeim þjóðfélagslegu umbótum, sem hún hefur að markmiði. Með því tel ég hagsmunum þjóðarheildanna bezt borgið. Ég tel, að þegar alls er gætt, hafi stjórnin rækt hlutverk sitt þannig, að umbjóðendur okkar megi sæmilega við una, svo að ekki sé meira sagt. Það má auðvitað segja, að það séu ekki mikil tíðindi, því að það er nú einu sinni svo, að hverjum þykir sinn fugl fagur. Mér dettur ekki í hug að halda því fram, að stjórninni hafi ekki orðið á einhver mistök, og auðvitað er oft auðvelt að sjá eftir á, að eitthvað hefði mátt betur fara. En þegar á allt er litið með sanngirni og tillit er tekið til óviðráðanlegra og ófyrirsjáanlegra atvika, bæði innanlands og utanaðkomandi, ætla ég, að stjórnin verði ekki sökuð um að hafa brugðizt trausti kjósenda sinna.

Það er mjög haft á oddi af hálfu stjórnarandstöðunnar, að ríkisstj. hafi misst öll tök á efnahagsmálum. Það er gömul saga, að efnahagsmálin eru kærkomið umræðuefni þrasgefnum stjórnmálamönnum, sem reyna að nota tölur til að villa fólki sýn. Ég held, að það séu tiltölulega fá grundvallaratriði, sem öðru fremur segja til um það, hvort efnahagsstjórn er góð eða léleg. Þessi grundvallaratriði eru lífskjör almennings, vinnufriður og atvinnuöryggi, kaupmáttur tekna, gjaldeyrisstaða þjóðarinnar og ríkisbúskapurinn. Ég held, að lífskjör landsmanna hafi ekki verið betri í annan tíma en nú. Ég hygg, að ekki verði véfengt, að vinnufriður hafi verið meiri á valdatíma núv. stjórnar en á viðreisnartímanum. Ég efast um, að atvinna hafi nokkru sinni verið betri og almennari hér á landi en einmitt nú. Kaupmáttaraukning hefur orðið mjög veruleg í tíð núv. stjórnar. Samkv. reikningum Seðlabankans hefur gjaldeyriseign bankanna ekki áður verið meiri en um síðustu áramót. Um ríkisbúskap ræði ég ekki, það verður gert af fjmrh. En forsenda fyrir góðum lífskjörum, atvinnuöryggi og vaxandi kaupmætti launa er atvinnurekstur í fullum gangi.

Fyrir áramót var óhjákvæmilegt af ástæðum, sem liggja ljóst fyrir, m. a. í skýrslu valkostanefndar, að gera ráðstafanir til að treysta stöðu útflutningsatvinnuveganna. Gengislækkun var skásti kosturinn, sem samkomulag gat orðið um.

Ég hef margoft lýst þeirri skoðun minni, að gengislækkun sé alltaf neyðarúrræði og stöðugt gengi sé mikilvæg forsenda fyrir traustu efnahagskerfi og aukinni velmegun. Aðrir hornsteinar eru þó enn þá mikilvægari fyrir afkomu þjóðarinnar, og þeir eru blómlegir atvinnuvegir í fullum gangi, sem stefna að framleiðni og þar með vaxandi þjóðartekjum og batnandi kjörum landsmanna. Það er markmið, sem ég set öllu öðru ofar og tel, að samkv. því leiðarljósi verði að stjórna, og það þýðir auðvitað engum til lengdar að ætla þeim, sem afla erlends gjaldeyris, að láta hann af hendi fyrir verð, sem þessu sjónarmiði er andstætt. Hitt er svo augljóst mál, að ég eyði ekki að því orðum, að auðvitað komumst við ekki hjá því að taka tillit til gengisbreytinga, sem verða í okkar helztu viðskiptalöndum.

Mig langar til að víkja nokkru nánar að fyrstu þrem atriðunum, sem ég nefndi, þ. e. lífskjörunum, atvinnuörygginu og kaupmættinum, og leiða þar fram nokkur vitni.

Ef við lítum fyrst á lífskjörin í dag, þá blasir sú staðreynd við, að Íslendingum hefur aldrei vegnað betur efnahagslega en um þessar mundir. Þetta sanna ótvírætt útreikningar hagrannsóknadeildar Framkvæmdastofnunarinnar, sem sýna m. a., að einkaneyzla á mann árið 1972 var um 202 þús. kr. Fyrra hámark einkaneyzlu á mann var árið 1967 og var þá 168 þús. kr., umreiknað á verðlagi ársins 1972. Almenn velmegun mæld á grundvelli einkaneyzlu á mann hefur aldrei verið meiri á Íslandi en árið 1972 og hefur hækkað um 20.2% frá fyrra hámarki árið 1967. Það er líka vert að hafa það í huga í sambandi við þennan mælikvarða á lífskjörin, að einkaneyzla á mann er eins há á Íslandi eða hærri en í flestum öðrum Vestur- og Norður-Evrópuríkjum, nema þá í Svíþjóð.

En hvað um atvinnuöryggið. Staðreyndin, sem við okkur blasir, er sú, að atvinnuöryggi hefur aldrei verið meira á Íslandi en það er í dag, þó að tíma- og staðbundið atvinnuleysi á einstaka stað geti átt sér stað og verði seint með öllu útilokað. Þetta veit hver maður. En til áréttingar þessari staðhæfingu vitna ég í dagblaðið Vísi, sem skýrði frá því í fréttagrein undir fjórdálka fyrirsögn 4. jan. s. l., að hér væri mannekla á miðjum vetri. Í greininni segir m. a. svo :

„Það merkilega hefur gerzt, að á miðjum vetri vantar verkafólk í Reykjavík. Yfirleitt hefur nokkurt atvinnuleysi verið í borginni um áramót, en nú má heita, að það fyrirfinnist ekki. Aldrei hafa færri sótt um atvinnuleysistyrk á þessum tíma en nú er. 15, 8 karlar og 7 konur, voru á skrá í gærkvöld sem umsækjendur um styrk. Allir karlmennirnir voru komnir yfir 67 ára aldur, þ. e. flestallir á ellilaunum. Hins vegar liggja fyrir hjá ráðningarstofu borgarinnar margar beiðnir frá fyrirtækjum um starfsfólk, sem fólk finnst ekki til að taka. Auk þess er urmull auglýsinga í fjölmiðlum, þær sem beðið er um fólk. Hjá ráðningarstofunni eru óafgreiddar beiðnir um fólk til starfa, svo sem til byggingarvinnu, sem er harla óvenjulegt á þessum árstíma. Menn vantar í borgarvinnu, og erfiðlega gengur að fá sjómenn.“

Svo mörg voru þau orð Vísis, annars aðalmálgagns flm. þessarar till. Þau segja sögu, sem flestir þekkja, og það þarf engu við að bæta.

En hvað þá um þriðja meginatriðið, sem er einn mikilvægasti mælikvarði á stjórn efnahagsmála, kaupmátt launa? Hér skal ég leiða fram annað vitni. Björn Jónsson, forseti Alþýðusambands Íslands, lagði fram skýrslu á þingi Alþýðusambandsins í nóv. s. l., þar sem greinilega kom fram, að kaupmáttur launa verkafólks fyrir hverja greidda vinnustund í almennri vinnu í Reykjavík hafði hækkað í valdatið núv. ríkisstj. um rúm 28% á 1½ ári og farið úr 107.2 stigum á öðrum ársfjórðungi 1971 upp í 137.6 stig á fjórða ársfjórðungi 1972. Í báðum tilvikunum var miðað við grunntöluna 100 á fyrsta ársfjórðungi 1968 og vísitölu framfærslukostnaðar. Þetta eru, að ég hygg, meiri hækkanir á kaupmætti launa verkafólks á stuttum tíma en dæmi eru til í allri sögu verkalýðshreyfingarinnar á Íslandi.

Þegar þessar staðreyndir eru hafðar í huga, sést, að sleggjudómar um almennt óstand í efnahagsmálum í víðtækustu merkingu eru fjarri sanni. Fólki líður í efnahagslegu tilliti almennt betur en nokkru sinni áður. Fólk býr við meira öryggi í atvinnu- og félagsmálum en áður. Framfarir og framkvæmdir hafa aldrei verið meiri en einmitt nú. Hvarvetna blasir við bjartsýni, stórhugur og trú á framtíðina í þessu landi.

Þó að ég hafi afskaplega litla ánægju af því að pexa um liðna tíð, má þó af gefnu tilefni og til samanburðar geta þess, að það, sem einkenndi efnahagsstefnu viðreisnarstjórnarinnar, voru gengisfellingar og kjararýrnun, atvinnuleysi og landflótti fólks til útlanda í atvinnuleit, ófriður og verkföll á vinnumarkaði, t. d. þannig, að 2 millj. vinnudaga töpuðust vegna verkfalla árin 1967–1971. Þá var að því stefnt að gera fátæktina að skömmtunarstjóra á lífsgæði almennings.

Flm. þessarar till. ættu ekki að skáka í því skjóli, að fólk sé búið að gleyma. Ég hef ekki trú á því, að almenningur í landinu vilji skipta á ástandinu þá og nú. Hitt skal ég fúslega viðurkenna, að núv. ríkisstj. hefur ekki tekizt að ná þeim tökum á verðlagsþróuninni, sem hún hefði viljað. Hún hefur þó hvað eftir annað bent á leiðir, sem hefðu getað haldið aftur af víxlverkunum verðlags og kaupgjalds og hamlað gegn verðbólgu, en þær hafa ekki hlotið byr, og í því efni er hlutur stjórnarandstöðunnar sízt af öllu góður. Hún hefur lagzt gegn öllum slíkum tilraunum. Hún hefur ekki bent á nein úrræði. Stjórnarandstæðingar hafa jafnan verið fremstir í flokki um hvers konar kröfugerð, jafnt á sviði verðlags og launa. Þeir hafa með öllum ráðum reynt að ýta undir verðbólguþróunina. Ef þeir hafa haldið, að þeir gætu gert stjórninni ógagn, hefur allt annað orðið að víkja. Ósk þeirra um að geta komið núv. stjórn frá með einhverjum ráðum byggir allri skynsemi út.

Ég held, að núverandi stjórnarandstaða sé ein sú ábyrgðarminnsta, sem hér hefur starfað. Það er engu líkara en hún hafi stundum að einkunnarorðum: Hvað varðar mig um þjóðarhag? En núv. ríkisstj. er ekki ein um það að hafa háð erfiða baráttu við verðbólgu. Það þarf ekki að rekja ósigra fyrrv. ríkisstj. á því sviði, og voru fyrirheit hennar þó ekki smá. Það vantar ekki, að margir þykjast vera gegn verðbólgu. En þegar til kastanna kemur, er líkast því, að mönnum sé ekki eins leitt og þeir láta. Það er eins og áhuginn hjá allt of mörgum sé meiri í orði en á borði. Alls staðar er tortryggni um, að þeir eigi að leggja meira í sölurnar en aðrir. Ég held, að ef menn ætla að brjótast út úr vítahring verðbólgunnar, þurfi menn að fást til að líta á langtímamarkmið, en víkja þrengstu stundarhagsmunum ofurlítið til hliðar.

Ég hef áður lýst þeirri skoðun minni, að gallað og sjálfvirkt vísitölukerfi eigi nokkurn þátt í óheppilegri þróun þessara mála. Þess er að vænta, að í allsherjarsamningum næsta haust takist að semja um skynsamlegra fyrirkomulag í þessum efnum og þá m. a. með hliðsjón af erlendum fyrirmyndum. Ég hef talið æskilegt, að menn hefðu getað komið sér saman um vissar bráðabirgðaráðstafanir þangað til, sem gætu gert vandann í haust minni en hann ella verður. Ég neita því ekki, að verðbólgan er stórkostlegt vandamál, og hún er mér mikið áhyggjuefni. Það væri mikils virði, ef hægt væri að ná samstöðu um lausn þess þjóðarvanda.

Vandamálin, sem við er að glíma, eru auðvitað nú eins og endranær mörg og margvísleg. Það verður ekki sagt, að stjórnarandstaðan hafi bent á nein úrræði. Hún hefur aldrei getað sagt hvað hún hafi viljað gera í stað þess, sem ákveðið hefur verið af stjórnarflokkunum. Ég auglýsi hér eftir hennar úrræðum. Hún virðist því ekki líkleg til þess að leysa neinn vanda. Hún fékk líka ríkuleg tækifæri á löngum valdaferli. Mönnum eru enn í fersku minni úrræði hennar þá eða réttara sagt úrræðaleysi. Hún virðist enn ekkert hafa lært. Sjálfstæðismenn hafa varla séð glaðan dag, síðan þeir urðu að yfirgefa stjórnarráðið. Þeir virðast ekkert sjá nema stjórnarstóla, allt annað hverfur hjá þeim í skuggann. En ég held, að þeir verði nú enn um sinn að sætta sig við sitt hlutskipti. Ég hef ekki trú á, að þingrof og nýjar kosningar mundu greiða götu þeirra. Hitt er annað mál, að þau atvik, óviðráðanleg og ófyrirsjáanleg, getur borið að höndum, að æskilegt geti verið að breikka og styrkja grundvöll ríkisstj., og því er ekki að neita, að alvarleg áföll hafa dunið yfir þessa þjóð að undanförnu. Þau vil ég ekki ræða við þetta tækifæri. En vilji menn í alvöru reyna að snúa bökum saman og stuðla að aukinni samheldni og víðtækara samstarfi, þá eru þingrof og kosningahríð ekki leiðin. Ég held, að þjóðin ætlist til alls annars af alþm. sínum um þessar mundir, en að þeir blási að ófriðareldi.