05.03.1973
Sameinað þing: 53. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2291 í B-deild Alþingistíðinda. (1786)

136. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Góðir hlustendur. Loksins hefur Sjálfstfl. hert sig upp í að bera fram till. um vantraust á ríkisstj. Þessu fagna ég, því að ég var sannast að segja farinn að óttast, að ef helmingur kjörtímabilsins liði svo, að slík till. kæmi ekki fram, þá kynnu einhverjir að fara að líta svo á, að íhaldið bæri traust til ríkisstj. Nú fá menn áreiðanlega að heyra í kvöld, að svo er ekki.

Þið hafið nú til að byrja með heyrt vitnisburð formanns Sjálfstfl., og meira kemur sjálfsagt seinna í kvöld frá undirleikurum íhaldsins. Formaðurinn segir, að hér sé dáðlaus stjórn. En þó mundi hann áreiðanlega ekki óska, að hún yrði athafnasamari. Hann segir stjórnina sundraða og í sjálfu sér sundurþykka, þar logi allt í illdeilum. Já, svo mæla börn sem vilja.

En víst er um það, að sízt af öllu mundi hann vilji óska þess, að þar ríkti meiri samhugur eða ást og einlægni í störfum. Þetta er svo út málað á alla vegu af mikilli mælsku og nokkurri andagift, og niðurstaðan er á öllum sviðum hin sama: Það er gersamlega ómöguleg ríkisstj. Og þótt stjórnin sé í öðru orðinu sökuð um harðstjórn og kúgun, þá er hún í hinu orðinu sýknuð af því með hörkuásökunum um, að hér sé stjórnlaust land, m. ö. o. gamla sagan, eitt rekur sig á annars horn. Hvaða betri dóms geta menn nú óskað sér af hendi íhaldsins en þetta? Ég fer a. m. k. ekki fram á neitt meira. Ég er blátt áfram í sjöunda himni af ánægju. Þessar klúru skammir, þessir órökstuddu sleggjudómar, þessi algerlega glórulausa fordæming á öllu, sem stjórnin gerir og ekki gerir, eru öllu lofi betri úr þessari átt.

En hvers vegna mannaði Sjálfstfl. sig upp í það að flytja vantraust einmitt nú? Hafði kveiknað einhver vonarneisti hjá honum um, að e. t. v. væri stjórnin veikari en áður? Ekkert skal um það fullyrt af minni hendi. En víst er um það, að vantrauststill. er flutt mjög í sama mund og Bjarni Guðnason, hv. 3. landsk. þm., tilkynnti Alþ., að hann segði sig úr þingflokki SF. Við það kann einhver vonarneisti að hafa kviknað í brjóstum íhaldsmanna, enda ávarpaði Ingólfur Jónsson, Bjarna Guðnason þann sama dag sem væntanlegan vin sinn. „Tilvonandi vinur minn, Bjarni Guðnason,“ var ávarpið. Þetta var ósköp kærleiksríkt og bar vott um, að vonarneisti hefði kviknað. En kæru bræður, það er stundum lítið hald í hálmstráinu, og kynni svo hér að fara.

Hversu alvarleg er svo þessi vantrauststillaga. Er hún ekki borin fram af stjórnarandstöðunni allri? Nei, menn skulu taka eftir því, að hún er borin fram af Sjálfstfl. einum. Alþfl. fékkst nefnilega með engu móti til meðflutnings. Og það er gleðilegur tímamótaatburður. Þannig er nefnilega augljóst öllum mönnum, að stórbrestur er nú orðinn í liði stjórnarandstæðinga, og við það stendur vantraustill. í allt öðru ljósi fyrir þingheimi en ella hefði verið. E. t. v. liggur ekki aldurtili stjórnarinnar í þessari till., sagði hv. 1. þm. Reykv. hér áðan. Þeir vita nefnilega, að þetta eru aðeins látalæti, tilburðir. Að vísu efa ég ekki, að hinir hörðu og snjöllu áróðursmenn Alþfl., sem hér tala í kvöld, munu úthúða stjórninni af mikilli orðfimi og finna henni flest til foráttu. Það hlutverk verða þeir nefnilega að leika og munu sennilega leika það vel. En það breytir þó engu um það, að hér eftir mun fáum detta samvaxnir Síamstvíburar í hug, þó að Sjálfstfl. og Alþfl. séu nefndir, jafnvel í sömu andránni, og það er þó alltaf veruleg breyting í íslenzkum stjórnmálum.

Hvernig hefur nú stjórnarandstaðan verið? Hún hefur verið ofstækisfull og ofsafengin, ekki vantar það. Hávaðinn hefur verið geysilegur frá degi til dags. Legið hefur við, að menn yrðu að troða upp í eyrun til þess að forða sér frá heyrnarskemmdum. Upp á hvern dag, allt frá því að vinstri stjórnin tók við völdum, hefur allt verið að farast, bókstaflega allt að fara fjandans til. En það vita allir, að slíkur áróður er máttlaus og neikvæður, a. m. k. þegar til lengdar lætur. Mánuðir líða, orðafroðan hjaðnar, ekkert fer fjandans til, útkoman sú sama og hjá stráknum sem æpti: úlfur, úlfur, til þess að gabba nágranna sína, en enginn úlfurinn kom. Og þar kom svo, að enginn lagði trúnað á ópin, ekki heldur þegar úlfurinn kom í raun og veru og grandaði stráksa sjálfum. Eða muna menn ekki útmálun þess, hvernig fjárhagur ríkisins væri að umskapast úr blómlegu búi, sem við hefði verið tekið, og í sökkvandi forardíki, gjaldeyrissjóðurinn uppurinn, botnlaus skuldasöfnun hjá Seðlabankanum, ógnvekjandi halli í viðskiptunum við útlönd o. s. frv., löng upptalning? Nú fá menn að heyra í kvöld, hvernig þessi mál stóðu um síðustu áramót, og ég bið menn að taka eftir því, hvernig fjmrh. gerir þau mál upp. Eða muna menn uppþot eins og það, sem nýafstaðið er um staðfestingu viðskiptasamnings við Efnahagsbandalag Evrópu? Allt virtist vera á glötunarbarmi, ef samningurinn yrði ekki staðfestur fyrir 1. marz. Vissulega var allt í gangi til undirbúnings staðfestingar fyrir þann tíma, og svo var gert. Þar með var sú blaðran sprungin. En eins hefur farið með margar aðrar, nefnilega uppþot, frumhlaup. Nú skal það skýrt fram tekið af mér að Íslandi ber alls að gæta um að eiga ekki sök á því sjálft að vekja eða rjúfa viðskipta- og menningartengsl þess og nágranna okkar í Vestur-Evrópu. Eða þá útmálunin um öngþveitið í húsnæðismálum hjá þessari vesölu vinstri stjórn, ekki getur mönnum verið fallið það úr minni. En svo kom út fréttatilkynning frá Húsnæðismálastofnun ríkisins eftir áramótin, strax þegar hægt var að gefa yfirlit yfir útkomu þeirra mála á liðnu ári, og þá voru bölvaðar staðreyndirnar m. a. þessar: Starfsemi Húsnæðismálastofnunar ríkisins var meiri að vöxtum á árinu 1972 en nokkru sinni fyrr í sögu hennar. Lánveitingar stofnunarinnar námu hærri fjárhæð en nokkru sinni fyrr, til smíði eða kaupa á fleiri íbúðum en áður hafði verið. Einnig var áfram unnið með ýmsum öðrum hætti að framförum í húsnæðismálum almennings. Þetta var í fréttatilkynningu húsnæðismálastjórnarinnar. Lánsfé, sem til greiðslu kom á árinu, reyndist 1211.1 millj. kr. til 2387 íbúða, auk þess sem fé var veitt til lagfæringar á 274 eldri íbúðum. Heildarlánsfé stofnunarinnar á árinu 1972 fór þannig til 2661 íbúðar. Til samanburðar má geta þess, að á árinu 1971 nam veitt lánsfé 972.4 millj. kr. til smíði eða kaupa á 1604 íbúðum og á árinu 1970, síðasta heilu ári fyrrv. stjórnar, nam veitt lánsfé úr byggingarsjóði ríkisins 570.8 millj. kr. til smíði 1106 íbúða. Byggingarsjóður verkamanna jók starfsemi sína verulega á árinu, veitti lán til 104 íbúða á 9 stöðum á landinu, en framkvæmdir hófust við smíði 85 íbúða í 7 byggðarlögum. Árið áður, 1971, hófust aðeins framkvæmdir við 18 íbúðir verkamannabústaða í 2 byggðarlögum. Teiknistofa Húsnæðismálastofnunarinnar seldi á liðnu ári meiri fjölda teikninga en nokkru sinni áður. Þá vann stofnunin áfram að ýmsum verkefnum til eflingar í framförum í byggingariðnaði, einkum á sviði íbúðabygginga og húsnæðismála almennt, segir í fréttatilkynningu húsnæðismálastjórnar. Þetta er sannleikurinn, sem í ljós kemur við samanburð stjórnarandstöðuáróðurs annars vegar og staðreynda hins vegar. Þetta læt ég nægja sem lokasýnishorn af sannleiksgildi þeirrar framleiðslu, sem nefnd er stjórnarandstaða.

Það skal þó játað á einu sviði — aðeins einu er áróður stjórnarandstöðunnar ekki alveg út í hött, það er varðandi verðlagsþróunina og verðbólgumálin. Þar heldur sama óheillaþróunin áfram og hjá fyrrv. stjórn. Að vísu hafa stjórnarandstöðuflokkarnir engin efni á neinu steigurlæti varðandi þau mál. Þeirra 12 ára viðureign við verðbólguforynjuna var eilíft undanhald og flótti, svo að ekki mundi það verka yfrið sannfærandi á marga landsmenn, þó að þeir segðu sem svo. Burt mð vinstri stjórnina, við skulum leysa verðbólguvandann. — Til þess hafa þeir enga tiltrú fólksins, og er þar stuðzt við langa og vonda reynslu af þeim. Raunar má segja, að öllu öðru fremur stjórnist verðlagsmálin innanlands af hinu sjálfvirka og víðtæka vísitölukerfi, og er ég þeirrar skoðunar, að takist ekki vinstrisinnaðri ríkisstjórn í nánu samstarfi við verkalýðshreyfinguna að koma skynsamlegri skipan á þau mál, þá sé það naumast á annarra manna færi.

Það er dálítið broslegt, er leiðtogar Sjálfstfl. og Alþfl. reyna að hefja árásir á núv. ríkisstj. fyrir að hafa beitt gengislækkun til lausnar á þeim efnahagsvanda, sem við blasti á liðnu hausti. Með allar sínar gengisfellingar í hrúgu á bakinu eru þeir sízt allra, — ég segi sízt allra til þess fallnir að hefja grjótkast af því tilefni. Spurningin er miklu fremur sú, hvort stjórnarflokkarnir geti varið það gagnvart sínum stuðningsmönnum að hafa gripið til gengislækkunar, eins og á stóð. Fyrir mitt leyti svara ég því hiklaust játandi. Að bestu manna yfirsýn var aðeins um að velja beina gengislækkun eða meira og minna dulbúnar gengislækkunarleiðir. Enginn var kosturinn góður vissulega. Ég kaus heldur ódulbúna gengislækkun. Mér var það algert aukaatriði, hvað áður hefði verið sagt um þessa efnahagsaðgerð undir öðrum kringumstæðum. Eftir að ég hafði sannfærzt um, að með henni næðust bezt og flest þeirra markmiða, sem að var stefnt, og um það voru allir efnahagsmálasérfræðingar, sem til voru kvaddir, sammála, þá taldi ég mér skylt, hvað sem hver segði, að velja þann kostinn. Fræðilegur samanburður var gerður á þeim valkostum, sem um var að tefla, og að því búnu var sú leið valin, sem farin var, um 10.7% gengislækkun. Ljóst var, að engin varanleg lausn var til. Einnig var ljóst, að milli 2000 og 3000 millj. kr. tilfærsla til framleiðsluatvinnuveganna var óframkvæmanleg, án þess að því fylgdu meiri eða minni verðhækkanir. Með tilliti til launastéttanna, var svo ákveðið, að vísitalan skyldi ekki tekin úr sambandi, svo sem viðreisnarstjórnin hafði jafnan gert samfara sínum hrikalegu gengisfellingum. Að þessu leyti var hún á annan veg. Hins vegar er farið með rætinn og óheiðarlegan málflutning, þegar stjórnarandstæðingar tala um, að vinstri stjórnin sé búin að framkvæma þrjár gengisfellingar. Enginn er svo fávís, að hann viti ekki, að viðskiptum Íslendinga er þannig farið, að við komumst ekki hjá að láta krónuna fylgja dollarnum. Það yrði að gerast, hvaða ríkisstj. sem sæti að völdum. Af falli dollarans leiðir verulegar verðhækkanir í Evrópuviðskiptum okkar, og er ástandið í gjaldeyrismálum heimsins þannig verulegt efnahagsáfall fyrir okkur Íslendinga. Í þeim efnum má nánast segja nú, að allt sé á hverfandi hveli. Annað efnahagsáfallið, sem þjóðin hefur orðið fyrir, eru eldgosin í Vestmannaeyjum, og hefur þjóðin öll af fúsum vilja tekið á sig til að byrja með 2000 millj. kr. skattabyrði þeirra vegna. Þriðja áfallið, sem þjóðin hefur orðið fyrir á þessum vetri, er svo missir margra hraustra drengja í hafið og eyðilegging a. m. k. 14 góðra fiskiskipa á skömmum tíma. Þetta tjón er metið á mörg hundruð millj. kr., þ. e. a. s. efnahagstjónið, — mannslífin getur enginn metið til fjár. Þetta eru allt saman þung áföll. En Íslendingar ætla sér vissulega að axla þessar byrðar, og þeir gera það. „Hungraðir forfeður og þreyttar formæður hafa borið þjóðarstofninn yfir verri torfærur en þessar, og er okkur sízt vorkunn, sem nú lifum.“ Þessi snjöllu orð úr blaðinu Þjóðmál tek ég undir og geri þau að mínum.

Hér hefur verið minnzt á togaradeiluna og stjórnin ásökuð um vanrækslu fyrir að hafa ekki stöðvað hana með löggjafarafskiptum. Ég er þeirrar skoðunar, að mjög verði jafnan á það að reyna, hvort réttir aðilar vinnumarkaðarins geti ekki náð eðlilegri lausn vinnudeilu við frjálst samningaborð. Að því fullreyndu verður að sjálfsögðu að leggja það undir þjóðfélagslegt mat, hvort og hvenær ríkisvaldið skuli eða verði að taka í taumana. Það ber mjög að harma, að ekki skuli hafa tekizt að tryggja togarasjómönnum okkar með samningum sambærileg kjör við aðra sjómenn. Á því eiga þeir hinn fyllsta rétt. Nú verður að teljast fullreynt, að deilan leysist ekki við samningaborð, og öllu lengur má hún ekki standa. Verður því að vænta þess, að það veki ekki almenna hneykslun, þótt lagabrandi verði beitt henni til lausnar eða málin lögð í gerð viturra og réttsýnna manna og leyst þannig.

Það er ósæmilegt, eins og á stendur, að íslenzk framleiðslutæki séu stöðvuð til lengdar af mannavöldum, þegar innilegasta velvild og hlýjasta hjálpfýsi streymir til Íslendinga frá fjarlægum löndum sem nauðstaddrar þjóðar. Þjóðin tekur áreiðanlega undir með mér, er ég endurtek og undirstrika, að nú er enginn tími til verkfalla. Allt slíkt verður að bíða betri tíð.

Herra forseti. Tími minn er á þrotum. Núv. ríkisstj. hefur gert nokkra leiðréttingu á launakjörum hinna lægst launuðu í landinu og mun halda því starfi áfram. Hún hefur á sama hátt bætt almenn kjör sjómanna. Stjórnin hefur umbætt tryggingakerfið, einkum varðandi þá, sem ekkert hafa fyrir sig að leggja annað en tryggingabæturnar. Hún hefur þannig stuðlað að kjarajöfnuði í þjóðfélaginu og mun halda því starfi sínu áfram. Ríkisstj. lét það ráða meginafstöðu sinni til aðgerða í efnahagsmálum, að grundvöllur efnahagslífsins og atvinnulífsins yrði sem bezt tryggður. Árangurinn er sá, að alls staðar stendur atvinnulífið með fullum blóma og hver hönd, sem unnið getur og vinna vill, er nú í starfi. Í fyrsta sinn, síðan skráning atvinnulausra hófst hér á landi, var tala atvinnulausra lægri í janúar s. l. en í des. og sem hún hefur lægst verið að vetri til áður. Traust atvinnulíf er að mínum dómi traustasti grundvöllur öruggs efnahagslífs. Ríkisstj. vinnur að enduruppbyggingu fiskiskipastólsins, sem fyrrv. stjórn hafði sárlega vanrækt. Ríkisstj. telur það höfuðverkefni sitt að leysa landhelgismálið, og í því miðar í rétta átt, enda einhuga þjóð að baki, auk þess sem straumur tímans vinnur einnig með oss.

Vissulega er við mikla erfiðleika að stríða í efnahagsmálum, og þjóðin hefur orðið fyrir hverju stóráfallinu á fætur öðru. M. a. með sérstöku tilliti til þessa og að landhelgismálinu sjálfu óleystu veit ég, að þjóðin er að yfirgnæfandi meiri hluta þess sinnis, að fráleitari tíma sé naumast hægt að velja til að kasta þjóðinni út í langvarandi og erfiða stjórnarkreppu, svo sem Sjálfstfl. virðist nú stefna að með vantrauststill. sinni, ef hann gæti. Það er enginn tími til verkfalla og ranglega valinn tími til stjórnarkreppu, eins og nú standa sakir. Það er því áreiðanlega vilji mikils meiri hluta þjóðarinnar, að vantrautstill. Sjálfstfl. verði kolfelld strax að lokinni þessari umr. — Góða nótt.